07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

39. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Þetta mál er einfalt og krefst ekki langrar framsögu, enda hefir allshn. fallizt á það einum rómi. Sem betur fer, er iðnaður að aukast hér í landi, og er nú orðinn þriðji stærsti atvinnuvegurinn; næst á eftir landbúnaði og sjávarútvegi. Er full ástæða til: að vona, að þessi atvinnuvegur eigi eftir að eflast og aukast, þar sem aðflutningur af iðnaðarvörum, sem framleiða má í landinu sjálfu, nemur stórfé árlega, einkum af margskonar smíðismunum: hurðum, gluggum, að ógleymdum öllum þeim húsgögnum, sem eru flutt inn í landið, en allt mætti vinna hér. Þess er líka að gæta, að talsvert af hráefnum til iðnaðar er í landinu sjálfu: ull, skinn, horn, bein, fiskiúrgangur o. m. fl. nú er og að komast hreyfing á þessi mál. Ríkisstj. hefir skipað mþn. í iðnaðarmálum, og má búast við, að frá henni og öðrum komi ýms frv. um iðnaðarmál á næstunni, og verði því rétt og nauðsynlegt, að sérstök n. hafi þau til athugunar.

Ég skal geta þess um breyt. á þskj. 84, um skipun sérstakrar heilbrigðismálanefndar, að n. var búin að skila áliti áður en hún kom fram, og skal ég því ekkert um afstöðu hennar segja. En skipun slíkrar n. er þó ekki, að mínu áliti, jafnaðkallandi og skipun fastrar iðnaðarmálanefndar. Vænti ég þess, að hv. d. taki þessu máli vel.