22.03.1932
Efri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

39. mál, þingsköp Alþingis

Einar Árnason:

Sum mál eru svo lítilfjörleg, að það tekur því varla að tala um þau og þetta frv. er eitt af þeim. En þó að ég telji þetta frv. nauðaómerkilegt, þá er það ekki af því, að ég telji iðnaðarmálin lítilsvirði, þvert á móti álít ég, að þau hafi ekki einungis fullan rétt til svipaðrar meðferðar og önnur mál í þinginu, heldur tel ég sjálfsagt og nauðsynlegt, að loggjafarvaldið styðji þau eftir megni. Ég er á móti þessu frv., af því að ég tel, að það komi iðnaðarmálunum ekki að nokkru minnsta haldi. Þetta frv. er einber hégómi. Þegar athuguð eru vinnubrögð þingsins, t. d. hér í Ed., kemur í ljós, að þessi sérstaka iðnaðarnefnd getur ekkert gagn gert. Sú regla hefir gilt um skipun nefnda, að stjórnmálaflokkarnir nota aðstöðu sína og atkvæðamagn í deildinni til þess að koma sínum mönnum sem mest í nefndir. Þegar nefndirnar eru margar, en flokksmenn tiltölulega fáir, sem hægt er að skipa í nefndir, getur farið svo, að meirihlutaflokkur í þessari deild hafi ekki nema 4 menn til þess að skipa í allar nefndir, og í hverja af þessum nefndum verður hann að skipa 2 menn. Samkv. þessu er það aftur augljóst, að sömu mennirnir skiptast í margar n. og þó að hér yrði bætt við sérstakri iðnaðarnefnd, þá hljóta að verða í henni sömu menn eins og t. d. í allshn. En þá sé ég ekki, hvað er unnið með þessu frv. Vitanlegt er, að þessir menn eru jafnvel að sér um þekkingu á málunum, hvort sem þeir eru taldir í iðnaðarnefnd eða allshn. Þó að þetta frv. verði samþ., þá gerir það ekki þingmenn að sérfræðingum í iðnaðarmálum eða öðru. Ég játa hinsvegar, að þetta frv. gerir engan skaða, þó að það verði samþ., en það getur valdið óþægilegri vinnubrögðum, og þess vegna er ástæðulaust að samþ. það. Hitt er ég sannfærður um, að það kemur ekki að minnsta haldi.