22.03.1932
Efri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

39. mál, þingsköp Alþingis

Einar Árnason:

Ég ætla ekki að þrátta um þetta mál við hv. frsm. meiri hl. allshn., enda má ráða það af líkum, þar sem ég tel það litlu skipta, hvort frv. verður samþ. eða ekki. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að það verði samþ., því að menn eru oftast fúsir til þess að rétta upp hendurnar með málum eins og þessu, sem engu skipta. Hv. frsm. var að tala um, að þm. væru valdir í nefndir eftir því, hvernig þeir væru fallnir til þess að fjalla um þau mál sem hver n. fær til meðferðar. Það kann að vera, að svo sé, þegar hægt er að koma því við. En það reynist nú svo, að í flestum tilfellum er það ómögulegt, þar sem aðeins er um fáa menn að ræða til nefndastarfa; þá eru örfáir menn skipaðir í allar n., og þeir verða að skipta störfunum á milli sín, án tillits til þess, hvort þeir hafa sérstaka þekkingu á sumum flokkum málanna. Hinsvegar skal ég játa það, að ef samkomulag yrði á milli stjórnmálaflokkanna um að skipa menn í nefndir án tillits til flokksafstöðu, þá gæti þetta gengið. En ég geri nú ráð fyrir, að þm. verði svo hlálegir hér á eftir sem hingað til að kjósa í nefndir eftir flokkum, og þá er alls ekki hægt að skipta mönnum í nefndir þannig, að hver þm. fjalli um þau mál, sem hann kann að hafa einhverja sérþekkingu á — Annars dettur mér ekki í hug að karpa um þetta frv. Það er of lítilfjörlegt til þess.