05.03.1932
Neðri deild: 21. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Vilmundur Jónsson:

ég vil láta það heyrast í hinni hv. deild, að ég tel það mjög óeðlilega kvöð á landsspítalanum, ef hann ætti að sjá um kennslu hjúkrunarkvenna og ljósmæðra fyrir allt landið á sinn kostnað. Enda hefir það enga þýðingu fyrir ríkissjóð að skylda hann til þess, því að kostnaðurinn hlýtur samt sem áður að koma niður á ríkissjóði í auknum rekstrarhalla. Hitt getur aldrei komið til mála, að jafna heim kostnaði niður á sjúklinga spítalans með hækkuðum daggjöldum. Ef samið væri um það við yfirlækna landsspítalans, þegar þeir eru ráðnir, að þeir tækju að sér að kenna við ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskólann án sérstakrar aukaþóknunar, væri eflaust hægt að koma því til vegar. En eftir að þeir eru fullráðnir og kjör þeirra ákveðin, er engin leið að koma því í kring. Enda skiptir þetta engu máli. Má á sama standa, hvort greitt er fyrir þessa vinnu aukalega eða hin föstu laun þessara manna eru með samningi ákveðin hærri með tilliti til hennar, sem alltaf má gera ráð fyrir að þurfi. Kostnaðurinn á aðeins ekki að lenda á landsspítalanum.

Annars býst ég við, að það verði svo, eftir reynslu annarsstaðar, að þó yfirlæknar landsspítalans heiti aðalkennarar við ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskólann, þá muni þó kennslan þegar fram í sækir lenda mest á aðstoðarlæknum spítalans, og munu þeir seint verða svo háalaunaðir, að sanngjarnt sé að láta þá vinna aukastörf fyrir ekki neitt.