18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1933

Bergur Jónsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 418, sem ég skal nú gera nokkra grein fyrir. — Sú fyrsta er um hækkun á tillagi til fjallveganna úr 10 í 15 þús., og jafnframt bætt við þeirri aths., að þessar 5 þús. eigi að veitast til vegar frá Hvalskeri við Patreksfjörð yfir Skersheiði að Saurbæ á Rauðasandi. Ég fór fram á samskonar tillag til þessa vegar á sumarþinginu, en hv. fjvn. tók þá sjálf hækkunina inn í sínar till. og var talað um, að hún kæmi þessum vegi til góða. Býst ég við, að þessi vegur fái að njóta þess í sumar, svo framarlega sem eitthvað verður lagt til fjallveganna. Vegamálastjóri hefir látið gera áætlun um kostnað við þennan veg, og er sú áætlun 20 þús. kr., sem hann lagði til að reynt yrði að afla af fjallvegafé, því að þetta er ekki þjóðvegur.

Aðstaðan þarna er sérstaklega erfið. Rauðisandur er einhver bezta sveitin á Vestfjörðum, en hann er umluktur á alla vegu, að sunnanverðu af Breiðafirðinum og á 3 vegu af háum fjöllum og klöppum. Samgöngur við þessa frjósömu sveit er ekki hægt að bæta nema með vegi. Hún liggur fyrir opnu hafi, og er því erfitt um lending, löng sjóleið til Patreksfjarðar og auk þess yfir Látraröst að fara. Hinsvegar er sveit þessi frjósöm, og mikil skilyrði þar til ræktunar og til þess að reka þar kúabú, ef sæmilegur ákvegur kæmi yfir Skersheiði:. Væri þá hægt að flytja mjólk frá Rauðasandi til Patreksfjarðar. þetta ætti nú einmitt að koma sér vel fyrir þorpið, sem stendur á svo hrjóstugum stað, að mjög dýrt og erfitt er fyrir íbúana að hafa kúahald. En ef vegur yrði akfær yfir Skersheiði, þá má eins og ég hefi tekið fram, bæta úr þessu, því að daglega yrði hægt að flytja mjólk frá Rauðasandi að Hvalskeri, en þar er lending góð og hæg leið til Patreksfjarðar. Ég vona svo að þessari till. verði vel tekið, þótt hv. fjvn. hafi lagt til að lækka þennan lið, og hv. dm. sjái, að það er meiri ástæða að hækka þessa fjárveiting heldur en lækka hana, því að það er alveg ófullnægjandi að ætla einar 10 þús. kr. til fjallvega á öllu landinu.

Þá flyt ég á sama þskj. XXII. brtt., um styrk handa Helga Guðmundssyni til þjóðsagnasöfnunar, að upphæð 500 kr., en til vara 300 kr. Þessi maður hefir sjálfur tekið það fyrir sig að safna þjóðsögum, sérstaklega í Arnarfirði og á Barðaströnd, en á þessum slóðum er mikið til af því tagi. Þessi maður á nú mikið safn af sögnum, sem þarft verk er að varðsveita frá gleymsku; hefi ég litið yfir safn hans, og er það skýrt og vel skrifað. Þessi fjárveiting er mjög lítil, og vil ég því vænta þess, að hv. d. sjái sér fært að fallast á hana.

Á þskj. 418 á ég ennþá brtt., auðkennda XXXVIII, um að hækka lífeyri Guðmundar Björnssonar kennara upp í 200 kr. Þessi maður hefir starfað sem barnakennari í 31 ar og hefir staðið ágætlega í stöðu sinni. Vona ég að hv. d. taki þessu vel, þar sem aðeins er um 50 kr. árlega hækkun að ræða.

Loks flyt ég á þessu sama þskj. brtt. um heimild handa hæstv; ríkisstj. til að lána 2 læknishéruðum fé, til þess að standa straum af skuldum, er myndast hafa vegna byggingar læknisbústaða, er nýlega hafa verið reistir. Annað lánið á að veita Reykhóla- og Gufudalshreppum, kr. 12 þús. að upphæð, til 20 ára gegn 6% vöxtum. Hitt lánið veitist Flateyjarhéraði; kr. 4000, til 10 ára með 6% vöxtum.

Reykhólahérað mun vera eitthvert minnsta læknishéraðið hér á landi, og þar við bætist, að einn hreppurinn í því héraði er mjög illa staddur fjárhagslega og getur því engan þátt tekið í byggingarkostnaði læknisbústaðarins. Læknisbústaðurinn varð auk þess mikið dýrari en áætlað hafði verið, eða ekki minna en 40 hús. kr. Og það liggur í augum uppi, að 400 manns hafa ekki bolmagn til þess að standa undir slíkum kostnaði. Ég verð að álita það beint skyldu ríkisins í slíkum tilfellum að hlaupa undir bagga. Þetta hérað var neytt til að byggja læknisbústað: læknirinn setti héraðsbúum stólinn fyrir dyrnar og sagðist fara, ef ekki yrði byggt. Einn hreppurinn í héraðinu gat greitt sinn hluta, en tveir hreppar standa undir um 20 þús. kr. þunga, sem tekið hefir verið að láni með vondum kjörum. Ef ríkissjóður sæi sér fært að lána Reykhóla- og Gufudalshreppum með hagkvæmum kjörum þær 12 þús. kr., sem brtt. leggur til, þá mundu þessir hreppar geta staðið straum af lánunum.

Um læknisbústaðinn í Flatey er það að segja, að hann er gamall, og keypti héraðið hann nýlega. En nú er svo ástatt þar, að héraðið getur ekki staðið í skilum, og ef þeir bogna, þá kemur skellurinn á Austur-Barðastrandarsýslu, sem er í ábyrgð fyrir láninu. Í raun og veru ætti ríkið sjálft að sjá um bústaði handa héraðslæknum, a. m. k. í þeim héruðum, þar sem íbúarnir eru ekki fleiri en 300–400 manns. Það sjá allir heilvita menn, hvort svo fámenn héruð geta staðið straum af dýrum byggingum, sem kosta kannske fleiri tugi þúsunda, án þess að fá verulegan styrk, ef það á ekki að verða til að eyðileggja um lengri tíma fjárhag héraðanna og getu.