08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Þetta frv. stefnir í sömu átt og mörg önnur lög og lagafrv., þá, að auka útgjöld ríkissjóðs. Og ég fæ ekki séð, að nein þörf sé í þessu frv. að leggja ný gjöld á ríkissjóðinn. Ég held varla, að viðkomandi starfsmenn ríkisins hafi meiri tíma til að sinna þessari kennslu, þótt þeim sé borgað fyrir það, heldur en þó hún væri ólaunuð. Þessir menn fá há laun, hærri en þjóðfélagið í raun og veru er fært um að borga, jafnvel þótt betur láti í ári en nú. Ég vil því láta í ljós, að ég skoða till. hv. þm. Borgf. sem prófstein á það, hvort hv. þm. vilja enn halda áfram sömu stefnu og tíðkazt hefir undanfarin ár, að láta háttlaunaða menn fá ýmsa viðótarbitlinga, svo sem er um hv. flm. þessa frv., sem auk hárra fastra launa fær mikla aukaborgun fyrir verk, sem fyrirrennari hans vann árum saman án þess að fá aukaborgun fyrir. — Ef útgjöldin eru sífellt aukin, þá dregur að því, að launalagir og atvinnulitlir verkamenn og þrautpíndir atvinnurekendur fá eigi undir risið. Háttlaunuðum mönnum ætti sannarlega ekki að vera vorkunnarmál að vinna þetta verk án sérstakrar borgunar. Þegar svo er ástatt, að flestir þegnar þjófélagsins hafa eigi meira en 1000–1200 kr. tekjur, þá eru 14 –17 þús. kr. laun tæplega sæmileg fyrir það sama þjóðfélag. Ég er viss um, að þessir menn, sem hlut eiga að máli, neita því ekki að vinna þetta verk án sérstakrar borgunar. Ég hefi átt tal við einn þeirra og hygg, að það sé alls ekki að þeirra fyrirlagi gert að fara fram á aukaborgun fyrir þessi störf.