08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að hv. þm. N.-Ísf. hafi ekki fengið glöggar eða réttar upplýsingar um eitt atriði í þessu máli. Hv. þm. hefir haldið því fram, að núv. landlæknir eigi við önnur og betri kjör að búa en þau, sem fyrirrennari hans hafði. Þetta sama hefir komið fram í blöðum, en ég hefi ekki fundið neina hvöt hjá mér til að skipta mér af því. En þar sem hv. þm. nú ber þetta fram á þingi, þykir mér rétt að leiðrétta það.

Fyrrv. landlæknir, Guðmundur Björnson, hafði þrjú aukastörf. Hann hafði eftirlit með lyfjabúðum, og hefir núv. landlæknir tekið við því starfi. Fyrrv. landlæknir hafði á hendi forstöðu ljósmæðraskólans og hlaut borgun fyrir. Samkv. þessu frv. gengur það starf til annara. Þá hafði og landlæknir á hendi forstöðu landsspítalanefndarinnar og tók laun fyrir það. Núv. landlæknir hefir einnig tekið við því starfi, en hefir lækkað uppbót af því sjálfur. Núv. landlæknir hefir því haldið tveimur af aukastörfum fyrirrennara síns, en fær þó minna fyrir annað þeirra. En eitt af þremur störfum, er áður fylgdu landlæknisembættinu, fær hann ekki.