08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Ég skal ekki deila við hæstv. dómsmrh. að þessu sinni. En öllum er vitanlegt, að skrifstofukostnaður landlæknis hefir hækkað stórkostlega í fjárlögum. Og þótt í annan stað sé látin sú upphæð, sem landlæknir hafði sem forstöðumaður ljósmæðraskólans, þá fær hann vissulega aðra upphæð í staðinn, sem ekki er minni. (VJ: Eins og t. d.?). T. d. skrifstofukostnaðinn, sem var áður 1000–2000 kr., en nú 5500 kr. Vinna fyrrv. landlæknis meðan á byggingu landsspítalans stóð var ólíkt meiri en nú er, þó landlæknir mæti 1/4–1 klst. á fundi lækna spítalans einu sinni eða tvisvar á mánuði. Hv. hm. Ísaf. talaði um, að nú sparaðist ýmislegur aukakostnaður til ljósmæðraskólans, svo sem húsnæði, ljós, hiti o. fl. Það vantaði nú bara ekki annað en að tekið væri sérstaklega fyrir þetta! Mig undrar, hversu lítil rök hv. þm. hefir fram að færa máli sínu til varnar. Það er eins og komið sé við opið kýli, ef á það er minnzt að spara útgjöld ríkissjóðs á einhverju sviði. Flm. og dómsmrh. vilja endilega halda í það sama óhóf og áður. En hvar á að taka peninga til þess? Ég býst þó við, að þetta ár og hið næsta muni sýna, hversu erfitt verður að pína út peninga hjá getulausu fólki.