08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. Skagf. talaði um aukastörf landlæknis. Það er rétt, að þegar Guðm. Björnson landlæknir varð veikur og tók sér hvíld frá starfi sínu, að ráði þáv. ráðh. (MG), þá var eftirlitið með lyfjabúðunum skilið frá landlæknisembættinu og lagt í hendur forstöðumanns víneinkasölunnar, Mogensens, sem þá hafði 18 þús. kr. laun. Þegar svo Guðm. Björnson komst til heilsu og tók aftur við landlæknisembættinu, þá tók hann og við þessu starfi. Og þegar svo mannaskipti urðu, þá tók núv. landlæknir við þessu starfi af fyrirrennara sínum á alveg eðlilegan hátt. þess má geta, að lyfjabúðirnar borga sjálfar þetta eftirlit. — Án þess að ég vilji blanda því saman við þetta, hvort rétt sé, að forstöðumaður skurðlækningadeildarinnar eigi að fá sérstaka borgun fyrir að hafa á hendi forstöðu ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskólans, þá hygg ég þó, að til þess að inna það starf af hendi, þurfi miklu meiri vinnu og meiri þekkingu en Mogensen þurfti að hafa til að vinna fyrir svipuðum launum. Þá gat hv. þm. ekki skilið, að nein þörf hafi verið á því, að samið væri við G. B. landlækni um að vera formaður landsspítalanefndarinnar, og að því svo væri haldið áfram. þetta er að vísu mál út af fyrir sig, og er rétt að skýra það nokkru nánar. Við landsspítalann starfa 3 yfirlæknar við jafnmargar deildir, skurðlækningadeild, ljóslækningadeild og lyflækningadeild. Nú er það svo, að allir yfirlæknarnir eru jafnhátt settir. Það er hver húsbóndi í sinni deild. Nú er landsspítalinn stór stofnun, og veltur því á miklu, hvernig þar gengur. Er það engin gagnrýni á forstöðumenn deildanna, sem allir njóta mikils trausts, þótt þetta sé sagt. Hugsanlegt væri, að 1 af 3 forstöðumönnunum væri settur yfir hina tvo, en þar sem skiptingin í deildir er byggð á fullu jafnrétti þeirra, þá er ekki eðlilegt að gera einn öðrum hærri. Þá væri sú leið til að yfirlæknarnir þrír og ráðsmaður spítalans mynduðu nefnd, er starfaði formannslaus. En prófessorarnir hafa óskað þess, þótt ég vitanlega beri ábyrgðina, að landlæknir starfaði sem formaður þessarar n. að stjórn og eftirliti spítalans. Á þann veg eru deildirnar sameinaðar á alveg eðlilegan hátt. Um þetta var samið við fyrrv. landlækni. Þegar hann missti heilsuna, tók einn af yfirlæknum spítalans við starfi hans í bili og vann að því launalaust vegna hins sjúka landlæknis. En slíkt gat vitanlega ekki gengið lengi, og er nýr landlæknir kom, tók hann við störfum fyrirrennara síns af alveg eðlilegum ástæðum.