04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1933

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Andstæðingar ríkisstj. hafa nú flutt ræður í tvær klst. En til andsvara þeim ræðum hefir stj. ekki nema eina klst. Mun svo halda áfram, meðan útvarpsumr. standa um þetta mál, að stj. hefir einn tíma til andsvara gegn hverjum tveimur, sem á hana er deilt, eða helmingi styttri tíma. Er ekkert við því að segja, þar sem þessar reglur um útvörpun eldhúsdagsins hafa verið settar. Er sjálfsagt að sætta sig við þær.

Við ráðherrarnir höfum ákveðið að skipta þessum eina tíma til þriðjunga. Fæ ég þá í minn hlut 20 mínútur. Má því búast við, að ég komist ekki yfir nema part af því, er ég þyrfti að segja. það, sem ég get sagt nú, verður því aðeins byrjun, og kemur þá meira síðar. Ég mun svara nú eftir því, sem tíminn endist. Ég hefði helzt viljað byrja á því að svara hv. 2. þm. Skagf., sem talaði fyrr. En þeir hlutir voru í ræðu þess hv. þ.m., er síðar talaði, 3. þm. Reykv., að ég vil enn síður láta undan reka að svara honum þegar í stað. Fer þá sem má um það, hvort ég fæ tíma nú til þess að svara hv. 2. þm. Skagf. En dugi tími minn ekki til meira en að svara hv. 3. þm. Reykv., verður hitt að bíða. Í ræðu hv. 3. þm. Reykv. voru þau atriði, er vekja munu mikla athygli um allt land, ef krufin eru til mergjar. Ég ætla að sleppa öllu tali um það almenna, er fram kom í ræðu hans um stefnur og þessháttar. Um það er alltaf tækifæri til að tala. Ég ætla aðeins að koma inn á merkilegustu atriðin, þau, sem ég veit, að allur landslýður hefir gefið mestar gætur. Hið fyrsta er þá kjördæmamálið. Það, sem hv. þm. sagði um það, var góð og heppileg viðbót við umr. þær, sem fóru fram í Ed. nú í dag og líka var varpað út.

Hv. 3. þm. Reykv., sem var annar aðalupphafsmaðurinn og driffjöðrin í því samkomulagi, sem varð á milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna á þinginu í fyrra, kom með eftirtektarverðar játningar og lýsingar um rekstur kjördæmamálsins frá því í fyrra og til þessa dags og kom með atriði, er fyllir sögu þess. En í öðru lagi kom hv. þm. með hótanir og áskoranir um hótanir, ef ekki er gengið að öllum kröfum jafnaðar- og sjálfstæðismanna. Hv. 3. þm. Reykv. lýsti skýrt og skorinort samvinnu sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna í fyrra og sagði frá: Í fyrsta lagi, hvenær samningar hófust. Í öðru lagi, að samkomulag hefði verið um kjördæmamálið í öllum aðalatriðum. Og í þriðja lagi, að líka var samið um Sogsmálið. Með þessari skýrslu hefir hv. 3. þm. Reykv. staðfest orði til orðs allt, sem við framsóknarmenn sögðum í fyrra um samninga þessara flokka, en sem sjálfstæðismenn hafa neitað. Ég vona, að allur landslýður hafi heyrt og tekið vel eftir þessari yfirlýsingu jafnaðarmannaforingjans. Og ég bið landsmenn að bera þetta vel saman við það, sem sjálfstæðismenn sögðu á þingmálafundum í bændakjördæmunum síðastl. vor, það, sem þeir sögðu á Austurlandi, í Skagafirði og Dölum, þar sem ég var á fundum, í Rangarvallasýslu, Árnessýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Hér verður því ekki jengur um villzt, að það, sem við framsóknarmenn höfum um þetta sagt, er orði til orðs rétt og satt. Hv. 3. þm. Reykv. kom svo að hinnan sorglegu úrslitum kosninganna fyrir þetta nýja bandalag. Niðurstaða hv. þm. um kosningaósigur jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna var svo sú, að hann hefði verið æsingum framsóknarmanna að kenna. Eftir því erum það við framsóknarmenn, sem höfum átt að hafa stofnað til æsinganna hér síðastl. vor! Það erum við, sem höfum átt að hafa truflað dómgreind almennings með æsingum! — Ég býst við því, að fleiri en ég hafi orðið hissa á að heyra þetta. Og ég er hissa á því, að hv. 3. þm. Reykv. skyldi minnast á æsingarnar í fyrra. Hann hefði þó sannarlega gert sér og handamönnum sínum meiri greiða með því að minnast ekki á slíkt. Vorum það við framsóknarmenn, sem stofnuðum til allra þeirra æsinga og truflunar í dómgreind almennings, svo sem raun varð á í hinni eftirminnilegu viku í fyrra? Vorum það við, sem daglega gáfum út þau æsingablöð, sem einsdæmi eru í sögunni? Og ég efa ekki það, að þau munu verða talin „historisk plögg“ á sínum tíma. Vorum það við, sem dag eftir dag höfðum æsingafundi á mörgum stöðum og heldum æsingaræður af svölum Alþingishússins? Vorum það við framsóknarmenn, sem fórum kvöld eftir kvöld fylktu liði með hrópyrðum og hávaða heim til manna? Fengu þeir hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. og fleiri foringjar bandamanna slíkar heimsóknir á heimili sín? Var reynt til þess að gera fjölskyldum þeirra illvært á heimilum sínum? Eða þurftu þeir að taka börn sín úr barnaskóla, vegna þess að þeim var ekki viðvært þar fyrir æsingum? — Það þarf dirfsku til að segja slíkt, svo allur landsýður hlusti á ! Sagan mun áreiðanlega geta þeirra æsinga, sem voru í aprílmánuði 1931. En engum lifandi manni, sem þá sögu skrifar, mun detta í hug að segja, að Framsóknarflokkurinn hafi framkvæmt og alið þá æsingu.

En hitt er rétt, að æsingarnar höfðu áhrif á kosningaúrslitin. Atburðir þeir, sem gerðust hér í apríl, höfðu sín ahrif á gætna menn um land allt, einnig hér í Reykjavík, sem létu sér slíkt framferði illa líka. Aldrei hefir slík samúðaralda og þá streymt til mín hvaðanæfa af landinu. Og kjósendurnir í kjördæmi mínu sýndu þetta líka. Þeir kusu mig, sem þó hafði ekki getað komið í kjördæmið langan tíma vegna heilsuskorts, með hærri hlutfallstölu en nokkru sinni áður, svo að ég hafði einna hæsta hlutfallstölu atkvæða af öllum þingmönnum.

En svo kom aðalatriðið, — hv. 3. þm. Reykv. kastaði mörsiðrinu. Hv. 3. þm. Reykv. hefir ýmsum mikilsverðum störfum að gegna fyrir sinn flokk. Hann er formaður Dagsbrúnarfélagsins og hann er formaður hins volduga verkamálaráðs. Hann er því vanur að boða verkföll, framkvæma þau, fyrirskipa þau og jafnvel þvinga verkafólk til að gera verkföll. Og nú lýsti hann yfir einu verkfallinu enn. Hann lýsti yfir verkfalli þingmanna jafnaðarmanna. Hann lýsti þar með yfir, að þingmenn jafnaðarmanna mundu ekki inna af hendi hinar frumlægustu skyldur þingmannsins, sem eru þær, að vinna af alhug að velferðarmálum alþjóðar, bjarga út úr þeim vandræðum, er að steðja á krepputímum, afla nauðsynlegs fjár til framkvæmda vegna atvinnu verkalýðsins. En nú gera þessir hv. þm. verkfall um að játa fé renna í ríkissjóðinn til þarfa alþjóðar. Þeir gera þerkfall í skattamálnm. Formaður Dagsbrúnarfélagsins og verkamálaráðsins kemur fram með skilyrðislausa verkfallsbótun, — hótun um þing mannaverkfall Alþýðuflokksins — nema Framsókn skilmálalaust gangi að kröfum jafnaðarmanna í kjördæmamálinu. En þær kröfur eru: Afnám núverandi kjördæma og hlutfallskosningar um land allt. Og fresturinn er svo boðaður, að ef við eigum að komast hjá verkfalli, þá eigum við að láta kúgast næstu daga — helzt fyrir næstu helgi.

Verkfallshótun er ekki ný bóla hjá hv. 3. þm. Reykv. Hann er sem formaður Dagsbrúnar og verkamálaraðsins vanur slíku. Hann ræður yfir verkafólkinu og getur skipað því eftir geðþótta. En nú hefir hann fært þessa starfsemi sýna yfir á nýtt svið. Nú boðar hann þingmannaverkfall. Og tónninn er hinn sami og í öðrum verkföllum: Krafa um að beygja sig skilmálalaust. Hótanir um, að allt illt vofi yfir, ef ekki er að skilmálunum gengið.

En svo kom annað nýtt: Dagsbrúnarformaðurinn, verkfallsfrömuðurinn lét sér ekki nægja að boða verkfall þingmanna Alþýðuflokksins. Nei, nú var líka heitið á aðra, utan verkalýðssamtakanna. Hann bar líka fram átakanlega og hjartnæma áskorun um sanúðarverkfall frá þingmönnum Sjálfstarðisflokksins. Samúðarverkfall! — Það er líka þekkt hugtak hjá hv. Dagsbrúnarfélagsformanni. Hann er líka vanur því að skipa fyrir um samúðarverkfall. Slíkum fyrirskipunum er beint í allar á áttir. Er stutt að minnast hinnar síðustu. Hún var gerð nú nýlega og er því mjög í fersku minni. Hún var gerð þegar Brúarfoss flutti frysta kjötið bædanna á enska markaðinn. sá farmur nam 1/2 millj. kr. Því var yfir lýst í Alþýðublaðinu, að beðið hefði verið um samúðarverkfall í London. Beðið um, að ekki yrði skipað upp þessum dýra farmi og gera þar með kjötið ónýtt. — Nú er beðið um nýtt samúðarverkfall. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru beðnir um að gera það með hinum „strækandi“ þingmönnum Jafnaðarmannaflokksins. Formaður Dagsbrúnar gefur út skipunina og áskorunina. Hann er vanur þeim vinnubrögðum. Og það er merkileg tilviljun, hvaða tíma hann velur sér til þessa. Tíminn, sem hv. þm. velur er fyrsti virki dagur hinnar íslenzku viku. Það er sá tími, sem samtök fjölmargra fara fram um það, að leggja meiri vinnu, meira framtak og samvinnu um að bjarga hinni íslenzku þjóð. Þetta er þátttaka hv. 3. þm. Reykv. í íslenzku vikunni: Hann vill gera þingmannaverkföll — stöðva allar framkvæmdir vegna peningaleysis; stöðva allar viðreisnartilraunir. Hv. 3. þm. Reykv. segir: Nú byrjum við jafnaðarmenn íslenzku vikuna með því að þingmenn okkar gera verkfall. Og við heimtum samúðarverkfall af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. — Hverju svara svo þingmenn Sjálfstæðsisflokksins þessari ósk og kröfu Dagsbrúnarformannsins og formanns Verkamálaráðsins um samúðarverkfall alþingismanna á því mesta kreppuári, sem yfir landið hefir komið á þessari öld? Ég svara vitanlega ekki fyrir þá. Ég geng út frá því, að þeir láti formann Verkamálaráðs og Dagsbrúnar ekki mælast einan við um þetta samúðarverkfall að öllum landslýð áheyrandi. Það verður áreiðanlega víða beðið með óþreyju eftir því, hverju þeir svara. Ég fyrir mitt leyti get lýst yfir því, að ég læt segja mér það oft áður en ég trúi því, að þeir geri slíkt verkfall. Ég trúi því ekki, hvað sem líður öllum erjum, hvað sem líður flokkshatri og hvað sem líður öðrum kröfum, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins láti laðast til þessa samúðarverkfalls, enda þótt hv. 3. þm. Reykv. sjálfur heimti það. Ég trúi því ekki, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gangi frá sjálfsögðustu skyldum þingmannanna. Ég vil heldur trúa því, að þeir geri það, sem hægt er, til þess að bjarga landinu á hinum verstu tímum. En um þetta verður brátt sjón sögu ríkari.

En svo er önnur hlið þessa verkfallsmáls, sú, sem snýr að verkafólkinu. Ætli verkafólki því, sem á hllýddi, hafi þótt vænt um þennan verkfallsboðskap formanns síns? — Hver verða áhrif þingmannaverkfalls, ef framkvæmt er? Þetta þingmannaverkfall og samúðarverkfall hefir sömu áhrif og önnur verkföll, nema í stærri stíl: Niðurfelling vinnu og stöðvun verklegra framkvæmda. Af hálfu hins opinbera verður þá ekki hægt að framkvæma neina vinnu, og það kemur vitanlega fyrst og fremst niður á verkalýðnum. Hv. 3. þm. Reykv. telur sig vera umboðsmann verkalýðsins. Hann boðar nú verkfall, sem leiðir til þess, að hagur verkalýðsins verði enn hágbornari en þarf að vera og ella mundi. Hvers ætlast verkafólkih til af hv. 3. þm. Reykv. fyrst og fremst? Þess, að hann vinni hér á þingi að því, að framkvæmdir af hálfu hins opinbera verði sem allra mestar og sem bezt hhið að verkafólki þessa lands. — En hvað segir hv. þm.? Hann segir: Nú gerum við þingmenn verkfall, svo ekkert verði gert.

Hv. 3. þm. Reykv. ásakaði stjórnina um, að hún leti ekki í té neinar atvinnubætur. Því nefnir hv. þm. atvinnubætur? Hann, sem sjálfur vinnur á móti þeim. Hann er sjálfur áhugalaus um þær og vill gera verkfall til að vinna á móti þeim. Og hann meira að segja heimtar samúðarverkfall til að vinna á móti atvinnubótum, því hvaða atvinnubætur getur ríkið látið gera, ef ekkert fé er til í ríkissjóði?

Ég hefi heyrt margt um verkföll og samúðarverkföll, en aldrei fyrr slíka skipun frá formanni verkamanna, að hefja skyldi verkfall móti ríkissjóði til að ekkert verði gert fyrir vinnandi fólkið á atvinnuleysistímum.

Að lokum vil ég minnast á ávarp hv. 3. þm. Reykv. til verkalýðsins úti um allt land. Hann boðar fólkinu það, að fjárlög verði felld. Hann boðar því nýjar kosningar. Og hann hvetur menn til að ganga undir merki Alþýðuflokksins. Ég hefi ekki trú á þessum boðskap til vinnandi fólksins. Ég hefi ekki trú á því, að fólkið skipi sér undir merki þess flokksforingja, sem vill með verkfalli hindra það, að ríkið geti veitt vinnu. Ég segi alveg gagnstætt: Stöndum nú saman betur en nokkurntíma áður. Hefjum sameiginlegt átak um að styðja sem bezt atvinnurekendur og vinnandi fólkið í landinu. Ekki með verkföllum, heldur með meiri vinnu og meira og betra samstarfi.