08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Vilmundur Jónsson:

Ég vil beina því til hv. flm. þessarar till., hvort ekki sé betra að taka landlækni alveg út úr þessu frv., því að ef hann á að vera skyldugur til að veita þetta leyfi, þá þýðir ekkert að láta hann vera hér við riðinn. Það er óþörf skriffinnska og ekkert annað.

Þá vil ég leiðrétta dálítið hjá hv. 2. þm. Skagf. Hann vildi hártoga orð mín svo, að það væri tilætlunin að borga yfirlækni fæðingardeildarinnar fyrir þessa kennslu, þó að aðrir en hann inntu hana af hendi. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Ég geri vitanlega ráð fyrir, að kennslan verði borguð aðeins þeim, sem kennir. Annað mál er það, að í frv. er yfirlækni falin aðalkennslan. Ef hann kemst ekki yfir hana, þá hefir hann eftirlit með henni. Ef aðstoðarlæknunum er falin kennslan, þá fá þeir vitanlega borgunina, en ekki yfirlæknirinn.

Þá er það hv. þm. N.-Ísf. þegar rekin voru ofan í hann hin óvingjarnlegu orð til mín og staðleysur þær, sem hann fór með, þá vildi hann snúa því svo, að skrifstofukostnaður landlæknis væri nú áætlaður helmingi hærri en áður. Ég hefi engan hátt att í því, að áætlun skrifstofukostnaðarins hefir verið hækkuð. Þar mun aðeins vera miðað við reynslu undanfarinna ára. Mun skrifstofukostnaðurinn undanfarið hafa farið mjög fram úr áætlun, og mun það sjást í landsreikningnum. En auk þess, sem þar greinir um skrifstofukostnaðinn, hefir árum saman verið greitt sérstaklega fyrir samningu á heilbrigðisskýrslum, og vona ég, að til þess þurfi ekki að koma fyrst um sinn.