08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Magnús Guðmundsson:

Mér skildist á hv. þm. Ísaf., að sá ætti að fá borgunina fyrir ljósmæðrakennsluna, sem kenndi. Þá á þessi borgun að skiptast milli tveggja eða þriggja lækna, og þá vil ég fá að vita hjá hv. þm., hvað hann telur, að þessi kennsla muni kosta á ári hverju. Það er leiðinlegt, ef ekki er hægt að fá að vita það fyrirfram, hvaða borgun þessir menn eigi að fá.

Það hefir verið talað um, að það þurfi „specialista“ við þessa kennslu. Mér virðist svo, að hv. þm. Ísaf. þurfi ekki að tala mikið um það, því að undirlæknarnir, sem eiga að hafa þessa kennslu með höndum, eru alltaf að fara og nýir að koma, og þá getur ekki verið þarna um neitt „speciale“ að ræða.

Af því að ég treysti því, að það sé rétt, að þessir læknar eigi allir að kenna, þá sýnist mér auðséð, að ekkert er hægara en að semja um það, næst þegar læknaskipti verða, að þetta starf skuli teljast með heim öðrum störfum, sem þeir fá sín laun fyrir. Það er alltaf verið að skipta um þá nema yfirlækninn, og hann hefir um 14 þús. á ári, auk þess, sem hann „praktiserar“. Það getur því ekki skipt hann miklu máli, hvort hann fær þessar 300–400 kr. á ári. Ég sé því ekki, af hvaða ástæðu landlæknir er að berjast á móti brtt., sem fyrir liggur. En í sambandi við þessar upplýsingar vil ég taka það fram, að réttara hefði verið, að brtt. hv. þm. Borgf. hefði hljóðað þannig: „og skal læknum spítalans skylt að annast kennsluna“.