18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1933

Einar Arnórsson:

Ég á fáeinar brtt. við fjárlfrv. við þessa umr. og mun gera nokkrar aths. viðvíkjand þeim.

Í sambandi við brtt. I. á þskj. 418 vil ég segja þetta:

Þegar sambandslögin voru sett árið 1918, var svo um samið, að Danir skyldu fara með íslenzk utanríkismálefni áfram. Það var ein höfuðkrafa Dana, að svo skyldi vera, og urðum við að ganga að því þá, til þess að við gætum fengið ýmislegt annað, sem við máttum ekki án vera.

Það var frá upphafi víst, að meðferð Dana á íslenzkum utanríkismálum gat ekki orðið okkur Íslendingum fullnægjandi. Til þess bar margt. Fyrst og fremst ókunnugleiki þeirra manna, sem Danir setja til þessara starfa, á íslenzkum efnum. Þeir bera ekki nægileg kennsl á íslenzka tungu né íslenzka landshætti. Og í öðru lagi er hætt við, að þeir geti ekki yfirleitt haft mikinn áhuga á íslenzkum málum. Þetta vissu menn, þegar sambandslögin voru sett, og það hefir sannazt í framkvæmdinni síðan. Það er ekki mín ætlun að segja, að embættismenn Dana vilji ekki vinna vel það, sem þeir eiga að vinna fyrir hönd íslenzka ríkisins; þeir gera sjálfsagt sitt hið bezta í því efni. En af fyrrnefndum ástæðum hafa þeir ekki aðstöðu til þess að fara með utanríkismál okkar, svo að fullnægjandi sé. Það er því gert ráð fyrir í 7. gr. sambandslaganna, að Íslendingar taki sjálfir á ýmsan hátt þátt í meðferð utanríkismálanna, m. a. á þann hátt að koma,fyrir mönnum með þekkingu á íslenzkum efnum í utanríkisskrifstofum Danmerkur. bað var ennfremur auðsætt, að danska utanríkisstj. gæti ekki gætt hagsmuna Íslands gagnvart sjálfri sér, enda er gert ráð fyrir því í sambandslögunum, að Ísland komi sér upp sérstöku fyrirsvari í Danmörku.

það hefir oftast farið svo, er semja hefir þurft við stj. einhvers ríkis um íslenzk mál, að þá hefir stj. Íslands sent menn til aðstoðar þeim dönsku embættismönnum, er á staðnum voru og áttu að vinna verkið. Ég skal nefna nokkur dæmi. Þegar samningarnir við Spán voru á döfinni, þá voru sendir héðan menn þangað, og var þó hinn danski fyrirsvarsmaður okkar þar sérstaklega velviljaður Íslandi og ágætur maður. Samt þótti ekki annað henta en senda íslenzka menn honum til aðstoðar. Þegar um kjöttollinn var samið við Norðmenn. Þótti heldur ekki annað henta en hafa íslenzka menn við þá samningagerð. Síðast í vetur gerðust tvö dæmi þessa. Það þótti ekki fært annað en að senda mann til Þýzkalands með sérþekkingu á málum vorum til aðstoðar danska sendiherranum í Berlín, sem þó líka er ágætur maður. Sama var um England; þegar tollar og viðskiptahömlur voru væntanlegar þar í vetur, þótti ekki annað hlýða en senda þangað mann, til að fylgjast með málunum og gefa skýrslur. Þetta sýnir, hvernig ástandið er í raun og veru, þrátt fyrir góðan vilja danskra utanríkisráðherra og hinna dönsku manna. Þeir vinna náttúrlega óaðfinnanlega hin alvanalegu dagstörf, svo sem að árita vegabréf, sjá um heimsendingu sjómanna o. fl. En ávallt þegar um eitthvað, sérstakt og mikilsvarðandi er að tefla, þá verður að senda íslenzka menn til að vinna að lausn málanna.

þegar eftir að sambandslögin voru sett, kom að því að gera ráðstafanir um það, hvernig fara skyldi með mál Íslands í Danmörku. Það voru óskir ýmissa góðra Íslendinga, að sendiherra yrði settur í Kaupmannahöfn, og var svo ákveðið með fjárlögum þeim, er sett voru á þingi 1919 fyrir árið 1920. það var ekki hærra risið á okkur þá en svo, að laun sendiherra voru ákveðin kr. 12000, húsaleiga kr. 2000. risna kr. 2000 og skrifstofukostnaður kr. 12000, eða kostnaður samtals kr. 28000. Síðan hefir upphæð þessi alltaf farið smáhækkandi, og í fjárlögum þeim, er sett vort: 1922 fyrir árið 1923, var hún komin upp í 44000 kr. samtals; þar af voru laun sendiherra kr. 20000, húsaleiga kr. 3000, risna kr. 5000 og skrifstofukostnaður kr. 16000.

þegar þessi ráðabreytni — stofnun sendiherraembættis — var tekin upp, var henni tekið kuldalega af andstæðingum þáv. stj. Það var talið tildur eitt og hégómi og með öllu ónauðsynlegt að hafa mann í Kaupmannahöfn með sendiherranafnbót. Þó voru árið 1921 sett lög um embættið, án þess þó, að þar væru launakjörin ákveðin. Þau voru sett með fjárlögum.

En með fjárlögum þeim, sem sett voru 1924 var þessu — sendiherrastöðunni breytt. Þá var mikill sparnaðarhugur ríkjandi á þingi. Laun sendiherra, húsnæði og risna hvarf þá af fjárlögum, og í staðinn var settur einn liður til skrifstofuhalds í Kaupmannahöfn kr. 17000. Þessi breyting varð í framkvæmdinni sú, að sendiherraembættið var lagt niður um stund, en í staðinn var settur maður með embættisnafninu charge d'affaires, og svo mun hafa verið í 2 ar. Mér er nú ekki kunnugt annað en málum landsins hafi verið fullvel borgið í Danmörku á þessum árum, enda gegndi starfinu ágætur maður, Jón Krabbe. Nú skyldi maður ætla, að er reynsla var fengin fyrir því, að þetta skipulag gafst vel — og ég hefi aldrei heyrt annað, en það hafi gefizt vel — þá hefði því verið haldið áfram. Það veldur minni kostnaði, því að þessari nafnbót fylgir ekki diplómatisk skylda til risnu. Í raun og veru var Ísland litlu ríkara 1927, þegar gamla skipunin var aftur tekin upp, en það var 1924, þegar hún var lögð niður. Það var vafalaust margt þarfara hægt að gera við féð þá en verja því til að auka kostnaðinn við þetta. En hvað sem þessu liður, þá var samþ. á þingi 1926 í fjárlögum fyrir 1927 62000 kr. til sendiherra í Kaupmannahöfn. Launin voru þá ákveðin kr. 20000, húsaleiga kr. 5000, skrifstofukostnaður kr. 17000 og kostnaður við embættið kr. 20000. Þessi síðasti liður, kostnaður við embættið, er það, sem aður var kallað umbúðalaust risna. Ég veit ekki hvers vegna þessi orðabreyting var tekin upp. Ef til vill hefir það verið gert til að láta fólk siður undra sig á þessum háa lið.

Ég býst við, að það gildi enn sömu rök gegn þessum mikla kostnaði, sem stjórnarandstæðingar færðu fram á árunum 1921–1924. Ég geri ráð fyrir, að þau séu góð og gild enn þann dag í dag. Höfuðastæðan var þá sú, gegn þessari eyðslu, að landið væri fátækt og mætti ekki eyða fé í óþarfa. Mér hefir heyrzt svo stundum hér á þingi, að þessi ástæða sé ekki veigaminni í dag en hún var fyrir 10 árum. Það hefir áþreifanlega komið fram í sumum þskj. T. d. skal ég nefna þskj. 438, þar sem sagt er, að nú verði mikill hluti þjóðarinnar að neita sér um annað en allra brýnustu lífsnauðsynjar. Ef þetta er rétt — og ég ber engar brigður að það — þá verður að ætla, að vel mætti lækka nokkuð kostnaðinn við þetta embætti. Þar sem landið er þannig statt, að mikill hluti skattþegnanna verður að neita sér jafnvel um lífsnauðsynjar, mun ýmsum finnast það réttlætanlegt, þótt kúfurinn sé tekinn af risnufé sendiherrans í Kaupmannahöfn.

Í fjárlögum er ein fjárveiting, sem er sambærileg við þessa. Það er risnufé forsrh. það er nú kr. 6000. Nú getur það varla kallazt ósanngjarnt, þótt manni detti í hug, að risna annara embættismanna þurfi ekki að vera stórum meiri en risna forsætisráðherrans. Sérstaklega verður þetta ljóst með sendiherrann í Kaupmannahöfn, þegar þess er gætt, að þar situr konungsvaldið og konungi eru greiddar yfir kr. 70000, vitanlega í því skyni m. a., að hann haldi uppi risnu. Mismunurinn á risnufé forsrh. og sendiherra er hvorki meiri né minni en kr. 19000. Hin tillaga er sú, að þessir menn fái jafnt risnufé. Þeir eru ekki jafnir að öðru leyti. Báðir hafa að vísu ókeypis húsnæði. En laun sendiherra eru kr. 20000, en ráðherra kr. 10000 ásamt dýrtíðaruppbót, sem nú er eitthvað um kr. 1000. Þar að auki hefir sendiherra notið gengisuppbótar undanfarið, en mér er skýrt svo frá, að svo muni ekki verða nú. Annar munur er líka á þessum tveim mönnum, ráðherra mjög í óhag. Forsrh. verður að gjalda skatta og skyldur af tekjum sínum, eins og aðrir borgarar. Tekjuskattur hans og útsvar nemur sennilega eitthvað um kr. 2000. Þar á móti eru sendiherrar undanþegnir öllum beinum skottum í landi því, sem þeir dveljast í Þótt laun þeirra væru að krónutölu jöfn launum annara, þá eru launakjör þeirra samt raunverulega miklu betri.

Eftir síðasta landsreikningi, 1930, hafa laun sendiherra numið kr. 24400, húsaleiga hans kr. 6100 og kostnaður við embættið eða risnuféð kr. 24400 eða samtals kr. 54900. Þetta eru hérumbil tvöföld laun allra hæstaréttardómaranna þriggja og meira en helmingur af launum allra kennaranna við Háskólann. Skrifstofuhaldið er aftur á móti ekki dýrara en við er að búast. Það varð kr. 23778. — Alls hefir kostnaðurinn við sendiráðið svonefnda í Kaupmannahöfn numið þetta ár. kr.78678. Mér þykir það mikils til of hátt að eyða þessu í þetta eina embætti.

Þá flyt ég brtt. l.2 á sama þskj. um lækkun á kostnaði af meðferð utanríkismála.

Þegar sambandslögin voru sett, var svo tilskilið, að stjórnir landanna semdu það með sér, hversu mikið Ísland greiddi fyrir meðferð utanríkismala sinna. Samningar urðu þeir, að í raun og veru greiðir Ísland Dönum ekkert fyrir þetta. Það kemur til af því, að Dönum er þetta enginn kostnaðaranki. Þann eina kostnaðarauka, sem af þessu varð í byrjun — útvegun fána og skjaldmerkja — mun Ísland hafa greitt sérstaklega. Annars hafa Danir ekki þurft að auka neitt mannahald sitt fyrir þetta, og ef það þarf að auka, þá er í sambandslögunum heimild til að gera það á kostnað Íslands. En á einum stað í sambandslögunum er talað um, að Ísland hafi trúnaðarmann — Kommiteret — í utanríkisráðuneytinu danska. Það mun hafa verið samið um það á árunum 1918–1919, að þessi trúnaðarmaður hefði kr. 12000 í laun, og þá upphæð hefir Ísland borgað.

Það starf er svo vaxið, að ekki þarf sérstakan mann til að gegna því, því svo lengi sem Ísland hefir fyrirsvarsmann í Kaupmannhöfn, má trúa honum fyrir því. Hinsvegar er sá, sem nú gegnir starfinu ágætur maður og vel trúandi fyrir því. En starfið er mjög lítið. Eftir því, sem ég veit bezt, þá litur trúnaðarmaðurinn inn í utanríkisráðuneytið Í tíma dag — kl. 11–12 að ég ætla — og gætir að, hvort nokkurt mál sé þar, sem Ísland varðar. Þegar þessa er gætt og ennfremur þess, að þessi maður er jafnframt sendiherraritari og hefir þar sæmileg laun, þá virðist ekki ástæða til að veita gengisuppbót á þessa upphæð. Þegar miðað er við laun annara starfsmanna ríkisins, þá eru kr. 12000 fyrir þetta verk tiltölulega þá borgun.

Þá er það 3. liðurinn í þessari brtt. minni, ríkisráðskostnaðurinn.

Um þetta er það að segja, að í fjárlögum heim, er sett voru fyrst eftir að sambandslögin gengu í gildi, er ekkert fé veitt til þessa. Kostnaður af ríkisráðinu er vitanlega ekki í öðru fólginn en því, að það þarf að kaupa bók og rita í hana það, sem gerist á fundum ríkisráðsins. Það, sem þar gerist, eru ósköp einfaldir hlutir. Konungur situr fundinn ásamt einum ráðherra eða fleiri, og þar eru lögð fram lagafrv. og mikilvægar stjórnarráðstafanir. Ég ætla, að fundir séu haldnir einu sinni til tvisvar á ári. Það er tíðast, að einhver ráðherranna bregður sér utan á konungsfund litlu fyrir Alþingi og leggur fyrir hann í ríkisráði frv. þau, sem stj. ætlar að bera fram á Alþingi. Konungur skrifar þar á frv., að hann fallist á, að þau verði lögð fyrir Alþingi.

Þetta er sú athöfn, er þá fer fram. Síðan, að þingi loknu, fer einhver ráðherranna utan aftur og leggur fyrir konunginn til undirskriftar þau lagafrv., er þingið hefir samþ. Þessi athöfn tekur ekki nema 1/2 til 1 klst. Það er ekki nema sanngjarnt að manni þeim, sem heldur á pennanum og skrifar í bókina, sé greidd einhver þóknun fyrir þetta verk, þótt ekki hafi verið séð fyrir því í fjárlögum fyrst í stað. En svo er líka eins og fjárveitingavaldið taki sig á, því að bráðlega eru veittar kr. 4000 fyrir þetta verk. Og í fjárlögum fyrir 1925 er það hækkað upp í kr. 6000. Það er ekki smávegis höfðingsskapur þetta, að veita kr. 6000 fyrir að mæta á 2 fundum, þótt fínir séu. Það eru kr. 3000 fyrir hvern fund. Geri aðrir betur! Síðan var þetta að vísu lækkað aftur ofan í kr. 4000, en af því að þetta hefir þótt nokkuð ó-örlætisleg borgun, þá var lögð ofan á gengisuppbót, og á landsreikningnum 1930 nám kostnaðurinn kr. 4800. Eftir því, sem svipuð störf eru goldin annars, mætti ætla, að kr. 200–300 væri mjög góð borgun fyrir þetta verk. Bókin sjálf þarf sjálfsagt ekki að vera mjög dýr og hana þarf ekki að endurnýja nema á nokkru árabili, svo að kostnaðurinn af henni getur aldrei orðið tilfinnanlegur.

Af því að hér á í hlut maður, sem að ýmsu leyti er goðs verður og lengi hefir starfað í þjónustu landsins, þá hefi ég ekki farið lengra niður í brtt. en í kr. 1000, og er það mjög heiðarleg borgun fyrir ekki meira starf.

Mér verður ef til vill svarað svo, að ekki sé mögulegt að lækka þessar upphæðir, því að mönnunum hafi verið lofað svona miklu. Ég vil svara þeirri aths. svo, að það eru ýmsir, sem hefir verið lofað svo og svo miklum launum, er þó hafa síðar verið færð niður. Ríkisráðsritara hefir sýnilega einhvern tíma verið lofað kr. 6000, en þó hefir þóknun hans verið færð niður í kr. 4000. Ef það hefir ekki verið réttarbrot, þá er það með sama hætti löglegt að færa hana úr kr. 4000 niður í kr. 1000. Það er enginn principmunur á því.

Þess er annars að geta, að sumir þessara manna hafa ýmislegt annað fyrir stafni. Ríkisráðsritari er jafnframt konungsritari og tekur laun fyrir það af fé því, sem veitt er konungi. Ég heyri sagt, að þessi maður fáist líka töluvert við fjármál. Það hefir verið sagt frá því, að hann hafi verið hafður með í ráðum, þegar enska lanið var tekið 1921, og tekið fyrir það all-álitlega fjárhæð. Sendiherra er mikill hæfileikamaður að ýmsu leyti og dugnaðarmaður, og skal ég sízt lasta frammistöðu hans. Hann var t. d. dómari í ullarmálinu sænska. Hver dómaranna í því mun hafa fengið um kr. 10000, að því er ætla má af landsreikningum.

Þá kem ég að síðari brtt. mínum, og held ég, að ég minnist fyrst á brtt. 418,XXX, af því að hinar eru minni. Hún er í 2 liðum, og mun ég fyrst tala um a-liðinn, sem er um laun erindreka í Miðjarðarhafslöndunum. Ég ætla, að það hafi verið 1920, að fyrst var sendur erindreki þangað suðureftir, og átti hann að hafa fast aðsetur í Genua. Þetta mætti miklum andblæstri frá mótstöðumönnum þáv. stj., eins og líka sendiherraembættið í Kaupmannahöfn.

Upphaflega mun hafa verið til áætlazt, að bankarnir greiddu nokkuð af launum erindrekans og ríkissjóður nokkuð. Þessi staða studdist fyrst aðeins við fjárlögin; það var ekki fyrr en 1924, að sett voru sérstök lög um erindreka í Miðjarðarhafslöndum. Það var löngum svo með launagreiðslur til þessa erindreka, að bankarnir greiddu 20 þús., en ríkissjóður 10 þús. kr. þessu starfi hafa ýmsir gegnt, Gunnar Egilson, Helgi Guðmundsson og nú síðast Helgi Briem. — fjárl. núna eru 8 þús. kr. veittar til þessa embættis, og er ætlazt til, að bankarnir borgi sínar 8 þús. kr. hvor; verða launin 24 þús. kr. á ári. Ég held nú, að þetta ár ætti að játa sér nægja að greiða 18 þús. kr. fyrir þetta starf, svo að ríkissjóður greiði 6 þús., og bankarnir hvor sín 6 þús. kr. Um þetta hljóðar brtt mín. Annars held ég, að nokkuð orki tvímælis, hvort þessi erindreki sé til nokkurs gagns; ég hefi heyrt merka kaupsýslumenn gera mjög lítið úr starfi hans þar. Ég skal svo ekki fara nánar út í þennan lið, en mælist eindregið til þess, að hann verði samþ.

Þá kem ég að b-liðnum. Þar er farið fram á, að veittar séu 24 þús. kr. til erindreka í Stóra-Bretlandi, sem hafi að setur sitt í London. Það ræður að líkindum, að við verðum að hafa mikil og margvísleg skipti við Bretland, og vera því háð á margan hátt. Hnattstaða landsins okkar veldur því, og kunnugt er, að lendi Bretland í stríði, þá er Ísland alveg ofurselt brezku valdi. Það sást glöggt í heimsstyrjöldinni á árunum frá 1915–18. Það var svo komið í árslok 1915, að í ráði var að hamla öllum skipaferðum frá Íslandi til Skandinavíu, hvað þá Þýzkalands, nema strangar öryggisraðstafanir væru geðar. Einnig var í ráði að banna alla vöruflutninga frá Íslandi til Norðurlanda, til þess að hindra með því flutning til Þýskalands.

Þá var tekið það ráð að senda mann héðan til Bretlands til samninga við brezku stj., og tókst það sæmilega. Þessi samningur var svo endurnýjaður á ári hverju með atbeina sendimannsins héðan, og var þá oft tilfinnanlegt, að hafa ekki aðra aðstoð en þá, sem danska sendisveitin gat látið í té. Enda mun það oftast svo, að málum, sem sérstaklega snerta Ísland, verður ekki ráðið almennilega til lykta af dönsku sendiherrunum.

Þá var tekið upp það ráð, að senda mann til dvalar í London til þess að gæta íslenzkra hagsmuna. Þáv. stj. var að allra dómi mjög heppin í vali sínu á þeim sendimanni. Björn Sigurðsson bankastjóri gegndi þeirri stöðu með mikilli prýði, dugnaði og samvizkusemi, enda kom öllum kaupsýslumönnum saman um að lofa starf hans þar. Því miður var þetta starf lagt niður aftur strax eftir stríð, og síðan höfum við ekki att fastan erindreka á Englandi, enda var þess ekki svo mikil þörf, meðan öll okkar aðalviðskipti voru bundin við Danmörku, eins og var fram að 1920. Fyrir þann tíma voru flest íslenzk lán tekin í Danmörku, en eftir 1920 verður breyting á þessu. Nú má svo heita, að eini staðurinn, þar sem við höfum verulegt lánstraust, sé London. Ef taldar eru saman skuldir Íslands við brezka lánveitendur síðan 1921, þá eru þær í árslok 1931 samkv. skýrslum landsreikninganna nær 24 millj. kr., en við Danmörku er skuldin aðeins 92/5 millj. kr., og það eru flest afborgunarlan, er einskis þarf annars að gæta um en að borga afborganirnar reglulega. — Sama er að segja um bankana. Þeir hafa að vísu nokkur viðskipti við Danmörku, en langmest viðskipti hafa þeir þó við Hambros-Bank og aðra enska banka. Ég hefi ekki talið saman skuldir þeirra við hvort landið um sig, en ég hygg þó, að skuldirnar við ensku bankana séu mun hærri.

Ef við athugum lántökur bæjar- og sveitarfélaga, þá mun ekkert bæjar- og sveitarfélag hafa fengið lán í Englandi nema Reykjavík. Reykjavíkurbær skuldar nú ensku tryggingarfélagi hátt upp í eina millj. króna, og hann fékk þetta lán á þeim tíma, sem ómögulegt var að fá slíkt lán í Danmörku. Lánstraust okkar hjá Bretum hefir alveg komið í stað lánstrausts okkar hjá Dönum.

Þá er vert að líta á verzlunarviðskiptin við þessi lönd. Við kaupum nú árlega vörur frá Bretlandi fyrir 201/2 millj. kr., og er það 20–30% af öllum okkar innflutningi. Næsta land er svo Danmörk, þar næst kemur Þýzkaland, sem er um það að verða hálfdrættingur á við þessi lönd. Útflutningur okkar til Bretlands var árin 1928–29 12,7 millj. kr. að meðaltali eða um 16–17% af öllum okkar útflutningi. Danmörk hefir þar ekki nema 51/2 millj. eða 7% útflutningsins. Þar er Spánn auðvitað langhæstur, með 27 millj. eða 35% alls útflutnings okkar. Svo það er augljóst, á hvað sem litið er, lánstraust, skuldir eða verzlunarviðskipti, að Bretland er alstaðar að verða nr. 1, enda eru nú þær raddir, sem krefjast þess, að við eigum þar sérstakan fulltrúa, orðnar talsvert almennar. Það gæti samkv. sambandslögunum ekki verið „official“ sendiherra, en gæti hann gert landinu eins mikið gagn nú og Björn Sigurðsson gerði á stríðsárunum, þá mætti vel við una.

Yrði þetta samþ., yrði val manns í þessa stöðu mjög mikilsvert atriði. Ég geri ráð fyrir því, að stj. mundi um það atriði leita álits utanríkismálanefnar þingsins og félaga atvinnurekenda í landinu. En ég geri ekki ráð fyrir því, að nokkur beri brigður á það í alvöru, að þörf sé á slíkum föstum fulltrúa í Bretlandi. Sú mótbára er hugsanleg, að ekki sé rétt að setja þarna embætti á stofn bara með ákvæði í fjárlögunum, en ég vil benda á það til samanburðar, að embætti erindrekans í Miðjarðarhafslöndunum var upphaflega stofnað með fjárlagaákvæði. En auðvitað væri bezt að setja sérstök lög um slíkt.

Þá vil ég minnast á aðra brtt., sem ég á, en það er till. nr. XVIII á þskj. 418, viðvíkjandi styrk til Bókmenntafélagsins. Í fjárlagafrv. er þessu félagi ætlaðar 2800 kr. styrkur með því skilyrði, að það haldi áfram að gefa út fornbréfasafnið. Sú ákvörðun var gerð fyrir nokkru af fulltrúaraði Bókmenntafélagsins, að hætt yrði við þessa útgáfu, þar sem fyrirsjáanlegt var, að útgáfu þessa verks mundi miða svo seint. Eftir að komið væri að bréfum yngri en frá 1550, þá fer skjalagrúinn að verða svo mikill, að með núv. fyrirkomulagi yrði mjög lengi verið að gefa út öll þau skjöl, sem til eru, þar til Alþingisbækurnar fara að koma.

Svo er það líka, að hjá meiri hluta félagsmanna hefir alltaf verið óánægja með þetta verk; ég get trúað því, að af 1800–1900 félögum séu ekki meira en 50–100, sem nota það. Það er því mjög illa til fallið, að Bókmenntafélagið gefi þetta verk út í eins stóru upplagi og það hefir gert. Ég teldi heppilegra, að annaðhvort ríkið sjálft eða þá Fornmenjafélagið, sem hefir fáa meðlimi, tæki þessa útgáfu að sér, og gæfi fornbréfasafnið út í fáum eintökum.

Í stað þessarar útgáfu hefir Bókmenntafélagið samþ. að undirbúa útgáfu æva íslenzkra merkismanna frá öllum tímum. Þetta þarf mikinn undirbúning, og getur tæpast komið til framkvæmda fyrr en eftir nokkur ár. Til þess þarf mikið fé, og Bókmenntafélagið hefir því farið fram á það, að fá að halda styrk heim, er það hefir, 2800 kr., án þess að kvöðin um útgáfu fornbréfasafnsins fylgi. En ef það er ekki mögulegt, þá fer félagið fram á það, að því séu veittar 1500 kr. athugasemdalausar. Af þeim 3400 kr., sem félagið hefir haft, hafa 1600 kr. verið sérstaklega áætlaðar sem styrkur til útgafu fornbréfasafns, en hitt til annarar útgáfu. Þegar styrkurinn var svo lækkaður niður í 2800 kr., virðist ekki ósanngjarnt að fá af þeirri upphæð 1500 kr. til þessarar „annarar útgáfu“. Bókmenntafélagið er gamalt félag, og er búið að vera landinu til mikils sóma, svo að ég byst ekki við því, að ég þurfi að eyða mörgum orðum til þess að mæla með því við hv. þdm. Vænti ég því, að hv. þdm. fallist á það, að veita þessar 1500 kr., a. m. k., ef þeir vilja ekki fella niður aths. við aðalstyrkinn.

Þá kem ég að brtt. nr. XXI á þskj. 418, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Eyf., og er það um 1500 kr. styrk til Skáksambands Íslands. Það var samþ. árið, sem leið, að veita Skáksambandinu 2000 kr. Þótt ég hefði heldur kosið, að stj. hefði tekið upp í frv. aftur einhvern styrk til þessa sambands, þá ber ég nú fram þessa brtt. samkv. ósk sambandsins. Ég vil geta þess, að skák er „international“ íþrótt, og ber því að styrkja hana ekki siður en t. d. líkamsíþróttir. Þessi, íþrótt er líka vel til þess fallin að vekja eftirtekt á okkur erlendis, t. d. sendi Skáksambandið 4 menn á skákþing í Hamborg árið 1930, og þótt þeir yrðu ekki sérstaklega háir í röðinni, vöktu þeir ekki svo litla eftirtekt á sér þar fyrir falleg töfl, sem þeir tefldu. Við Íslendingar eigum einmitt núna margar upprennandi skákstjörnur, t. d. Ásmund Ásgeirsson, fyrrv. Íslandsmeistara, sem hefir leikið sér að því að tefla blindskák við 8 allsterka skákmenn samtímis, og Jón Guðmundsson, læknanema, sem eftir mjög frækilega frammistöðu varð íslenzkur skákmeistari í vetur. Svo eru eldri skákmeistarar líka landinu til sóma. Skáksambandið hefir nú á síðustu árum fengið tvo nafnfræga erlenda skákmeistara hingað til lands, sem hafa báðir borið íslenzkum skákmönnum hið bezta orð. Annar var hvorki meira né minna en heimsmeistarinn sjálfur, dr. Aljechin, hitt var sænskur skákmeistari, Carl Berndtson.

Ég þykist viss um, að þm. muni ekki frekar veigra sér við því að veita þennan styrk en aðra styrki til íþrótta. Ég held því, að ég þurfi ekki að tala lengur fyrir till., og vona, að hv. dm. taki vel í hana.