20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í C-deild Alþingistíðinda. (11131)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég get verið mjög fáorður um frv. þetta, því að aðalástæðan til þess, að það er fram komið, er tilgreind í grg.

Það hefir farið mjög í vöxt hin síðari ár, að útlendingar þeir, sem sækja á fiskimið okkar, en ókunnugir öllum háttum hér — ekki einungis miðunum, heldur bera þeir ekkert skynbragð á, hvernig verka á saltfisk — hafa ráðið innlenda menn sér til leiðbeiningar og fræðslu í þessum efnum.

Í tvennum tilgangi hafa útlendingar þessir sótzt eftir Íslendingum; í fyrsta lagi til að kynnast fiskimiðunum, sem þeir hafa fengið íslenzka skipstjóra til þess að vísa sér á, og í öðru lagi ráða þeir sér innlenda háseta til þess að kenna þeim, sem fyrir eru á skipunum, flatningu og söltun, svo að saltfiskur þeirra geti orðið samkeppnisfær þegar á markaðinn kemur. Þar með eru að engu orðnir þeir yfirburðir, sem við nú höfum á saltfisksmarkaðinum með vöruvöndun.

Hvorttveggja þetta er varhugavert: að gera útlendingum léttara fyrir á þennan hatt í samkeppni um sölu á annari aðalframleiðsluvöru landsmanna, og gera þeim léttara fyrir við aflabrögðin með því að vísa þeim á fiskimiðin. Með frv. þessu er það lagt á vald löggjafarvaldsins að gera sérstakar ráðstafanir, sem komi í veg fyrir jafnþjóðhættulegar athafnir og hér er um að ræða.

Þetta læt ég nægja að sinni, en mælist til, að frv. fái að ganga til 2. umr. og geri að till. minni, að því verði vísað til hv. sjútvn. að þessari umr. lokinni.