27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í C-deild Alþingistíðinda. (11147)

268. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Það má með sanni segja um þetta frv., sem nú liggur hér fyrir hv. deild, engu síður en sagt var um frv., sem einnig var hér til umr. fyrir nokkru um heimild til þess að brugga áfengt öl í landinu, að það sé hreint og beint hnefahögg framan í þjóðina.

Við stöndum nú á mjög alvarlegum tímamótum, erfiðleikar og þrengingar steðja að þjóðinni úr öllum áttum. Einasta leiðin til þess að þjóðinni auðnist að yfirstíga þessa erfiðleika er, að viðhöfð sé hin mesta gætni í hvívetna, að sem bezt nýtist sú starfsorka, sem þjóðin á yfir að ráða, og að hún sýni fórnfýsi og sjálfsafneitun. Ég held þess vegna, að það séu allt aðrar ráðstafanir, sem hið erfiða ástand í landinu krefst að gerðar séu nú, en að búa til nýja möguleika fyrir menn til þess að eyða fé sínu til óhófs og nautna, að örva og æsa drykkjufýsn þjóðarinnar með takmarkalausu brennivínsflóði. Því verður ekki á móti mælt, að það er óforsvaranleg léttúð og ábyrgðarleysi, sem felst í þessum till. að því leyti, sem þær miða að því að strika út úr löggjöfinni þær varnarráðstafanir, sem þar eru gegn því, að fórnað sé andlegum og líkamlegum kröftum þjóðarinnar á altari ofdrykkjunnar. Það þýðir ekkert fyrir þá menn, sem að þessum till, standa, að vera að halda því fram, að með því að leyfa bruggun á áfengu öli og að veita flóði af sterkum drykkjum yfir landið verði bætt úr því ástandi, sem við eigum nú við að búa í þessu efni. Það hlýtur að vera ljóst hverjum heilvita manni, að þetta er hinn mesti og háskalegasti misskilningur og sjálfsblekking, því með samþykkt þessara frv. eru felld niður úr löggjöfinni þau ákvæði, sem miða að því að hamla á móti drykkjuskap í landinu. Þeir, sem að ölfrv. standa, spara ekki fullyrðingar um það, að með því að leyfa að brugga áfengt öl dragi mjög úr nautn sterkari drykkja. Þetta segja þeir, þótt opinberar skýrslur sýni það ótvírætt hvarvetna erlendis, að því meira sem drukkið er af áfengu öli, því meiri er nautn sterkra drykkja.

Áfenga ölið vekur drykkjuhneigð æskumannsins, en þaðan liggur leiðin yfir í nautn sterkari drykkja, og er þess þá venjulega skammt að bíða, að við taki afgrunn ofdrykkjunnar.

Þeir, sem standa að þessu frv. um afnám bannlaganna, þykjast ætla að kveða niður heimabruggið með því að flytja brennivín og aðra sterka drykki inn í landið, og þeir eru svo sem ekki í miklum vafa um það, að þetta takist, því með slíkum ráðstöfunum sé stofnað til svo harðrar samkeppni við þá, sem að heimabrugginu standa, að þeir hljóti að verða undir í þeirri viðureign. En þó einhver möguleiki kynni að vera í því fólginn að draga úr heimabrugginu með því að flytja inn í landið sterka drykki, þá girða flm. þessa frv. fyrir þann möguleika með því að gera ráð fyrir því, að þessi vín verði seld svo dýru verði, að það er sæmilega fyrir því séð, að aðstaða bruggaranna til þess að selja sína framleiðslu verði nokkurnveginn jafntrygg og áður. Í frv. er gert ráð fyrir því að hafa ríkiseinotkun á þessum vínum og að lagt verði á innkaupsverð þeirra, að viðbættum háum tolli, allt að 100% verzlunarálagningu.

Flm. þessa frv. búa svo að bruggurunum með þessum ákvæðum, að þeir hafa ekki undan neinu að kvarta, og getur atvinnuvegur þeirra sjálfsagt dafnað vel í skjóli þessarar ríkiseinokunar.

Það hefði verið lítill vegur fyrir flm. þessa frv. að halda því fram, að þeir reiddu nokkuð til höggs við heimabruggið, ef þeir hefðu gert ráð fyrir þeirri tilhögun á sölu hinna sterku vína, sem sagt er að borin hafi verið fram till. um í vetur á þingmálafundi fyrir austan fjall, að hafa útsölu á þessum sterku vínum í hverjum hreppi á landinu og selja þau með gjafverði!! Það gæti hugsazt, að slík ráðstöfun hefði valdið bruggurunum nokkrum erfiðleikum og að með þessu væri stofnað til allerfiðrar samkeppni fyrir þá. En hvort það hefði dregið úr drykkjuskapnum — það er annað mál.

Í grg. þessa frv. er rakin í stórum dráttum saga þeirrar hreyfingar með þjóðinni, sem stefnir að því marki að sporna á móti ofdrykkjunni. Meðan þjóðin átti undir högg að sækja hjá hinum erlendu valdhöfum, sem höfðu hag af því að selja Íslendingum brennivín og höfðu ávallt nóg af því á boðstólum, þótt önnur föng skorti, þá varð lítið ágengt um aðstoð hins opinbera í þessu efni. En eftir því sem valdið færist inn í landið, fer saman í óslitinni röð síaukið samstarf borgaranna og útrétt hönd hins opinbera til þess að hamla á móti ofdrykkjunni.

1909 er svo komið baráttunni gegn vínnautninni, að bannaður er innflutningur á víni, en raunverulega öðlast bannlögin ekki gildi fyrr en 1912. Með bannlögunum er stigið stærsta og markverðasta sporið í þessari baráttu. En því miður voru frá öndverðu þær glompur í bannlögunum, að þau gátu aldrei notið sín til fulls. Má í því sambandi benda á lækna- og konsúlabrennivínið. Eigi voru þó þessir ágallar nema svipur hjá sjón miðað við það áfall, sem lögin og bannstefnan varð fyrir hér á landi síðar, er Spánverjar sögðu okkur tollstríð á hendur og neyddu þingið til að gera þá undanþágu frá bannlögunum, að flytja hin svokölluðu Spánarvín inn í landið.

Þessi undanþága frá bannlögunum var ekki einasta til ómetanlegs tjóns fyrir gagnsemi bannlaganna og bannstefnuna hér á landi, heldur og engu síður til tjóns og skaða vínbannsstefnunni í heiminum, enda voru refirnir til þess skornir hjá Spánverjum, sem byggja tilveru sína mikið á vínræktinni.

Þó ýmsar glompur hafa frá upphafi verið í bannlögunum og þó svo mjög væri dregið úr gildi og þýðingu þeirra með Spánarundanþágunni, þá dylst það þó engum, sem með fullri sanngirni og réttsýni lítur á það mál, að þessi löggjöf hefir orðið okkur til hins mesta gagns. Með endurbótum á þessari löggjöf hefir ávallt verið reynt að bæta úr þeim smíðagöllum, sem reynslan hefir sýnt, að á henni hafa verið og á okkar valdi hefir verið að ráða bót á.

Þrátt fyrir það, þótt bannlögin og bannstefnan hafi hér á landi frá öndverðu átt við að etja harðsnúna andstöðu einstakra manna, sem lítið hafa sezt fyrir í þeirri baráttu, og jafnvel á stundum hvatt menn til óhlýðni við lögin, þá hafa samt ekki fyrr en nú komið fram jafnákveðnar og róttækar till. á Alþingi í þá átt að brjóta niður þessa varnarmúra, sem þjóðin í öndverðu hlóð sér með setningu bannlaganna. Það vantar ekki, að bannféndur þessa lands hafi látið alldólgslega upp á síðkastið bæði í ræðu og riti, og var það því máske ekki nema að vonum, að þessum selshaus skyti nú upp úr gólfinu á Alþingi. En mál þetta er nú þannig fram borið, bæði að því er þau rök snertir, sem þar er teflt fram, og um flutning þess að öðru leyti, að firnum sætir. Í ræðu 1. flm. þessa frv., hv. þm. N.-Ísf., og í grg. frv. er bannlögunum fundið allt til foráttu. Það er síður en svo, að gagnsemi þeirra sé í nokkru viðurkennd, heldur eiga þau að vera rót alls ills í þessu þjóðfélagi. Eiginlega allt, sem aflaga hefir farið í landinu, vilja þessir herrar skrifa á reikning bannlaganna. Ég held, að tæplega sé hægt að hrúga saman í eina málsgr. fleiri slagorðum, fullyrðingum og fjarstæðum en gert er á einum stað hér í grg., sem ég vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo: „Auk aukinnar áfengisnautnar, margvíslegrar vínsmyglunar, leynisölu og heimabruggs, sem allt má að mestu leyti skrifa á reikning bannlaganna, liggur ýms önnur skaðsemi þeirra í augum uppi“. M. ö. o., þetta allt og miklu fleira á að vera bannlögunum að kenna, það er fullyrt, að engu slíku væri til að dreifa, ef hér væru ekki bannlög. (LH: Þetta er allt rétt). Þetta er allt rétt, segir einn af flm. þessa frv. Það er svo sem ekki annars að vænta en að þeir vitni hér hver með öðrum, flutningsmennirnir, eins og á hersamkomu, því þetta virðist vera trúarjátning, sem þeir hafa játazt undir. (LH: Það er ekki til að skammast sín fyrir). Það eru til menn, sem þykir sómi að skömmunum, en sízt vildi ég þurfa að segja það um þennan hv. þm.

Áður en ég tek nánar til athugunar fullyrðingar þær um skaðsemi bannlaganna, sem ég las upp úr grg., skal ég fullkomlega viðurkenna það, að mikið skortir á, að bannlögin hafi hér hjá okkur náð fullkomlega tilgangi sínum, en í því felst engin niðrun fyrir bannstefnuna, því til þess að svona hefir farið hér liggja eðlilegar ástæður, og hefi ég áður í ræðu minni gert grein fyrir þeim.

Þegar verið er að dæma um árangurinn af bannlögunum hér á landi, þá verður að líta á það í fyrsta lagi, hvernig þeim bannlögum hefir verið háttað, sem við höfum átt hér við að búa, og í öðru lagi, þegar gerður er samanburður á því, hvernig umhorfs var hér í þessu efni áður en bannlögin gengu í gildi og síðan, þá verður, til þess að geta fellt óhlutdrægan dóm um þetta, að taka tillit til þeirrar breytingar eða réttara sagt byltingar, sem orðið hefir í hugsunarhætti þjóðarinnar einmitt í þá átt að gera auknar kröfur til lífsnautna og þæginda. Þjóðin hefir síðan á ófriðarárum notað hlutfallslega miklu meira af aflafé sínu til ýmiskonar munaðar og þæginda en hún gerði nokkurntíma á árunum áður en bannið gekk í gildi. Eyslugegnd þjóðarinnar hefir aukizt á öllum sviðum síðustu tvo áratugina, og þó segja megi, að allmikið hafi verið drukkið síðan farið var að flytja inn Spánarvínin, þá er það öllum ljóst, að það er ekki nema lítið brot af þeirri drykkjuskaparóreglu, sem hér hefði verið á þessum árum, ef sterkir drykkir hefðu flætt yfir landið. Bannlögin, þó ófullkomin séu, hafa því tvímælalaust haldið drykkjuskapnum mjög í skefjum og á þann hátt hefir verið afstýrt miklu böli.

Fjandmenn bannlaganna tala oft um það, hvað miklu minni hafi verið orðin vínnautn í landinu áður en bannlögin gengu í gildi en síðan. Vil ég í þessu sambandi benda á, að samkv. hagskýrslum var á árunum 1906–1910 meðaltalsinnflutningur á vínum á ári 1280 hl., en árið 1928 eru innfluttir 290 hl. af víni. Á árunum 1906–1910 er vínnautn á mann að meðaltali á ári 1,3 hl., en árið 1928 er vínnautn aðeins 0,3 hl. á mann.

Það má ennfremur í þessu sambandi benda á það, að allur innflutningur til landsins á árunum 1906–1910 nam að meðaltali á ári ca. 11,5 millj. kr., en 1928 er innflutningurinn kominn upp í 64 millj. kr.

Þetta sýnir ljóslega, að þrátt fyrir stóraukna eyðslugirnd þjóðarinnar á síðari árum hefir vínnautnin stórum minnkað. Þetta er árangur þeirra ráðstafana, sem hér hafa verið gerðar til að sporna á móti ofdrykkjunni. Og ég ætla, að út frá þessum staðreyndum megi nokkuð marka sannleiksgildi þeirra ástæðna, sem bannfjendur eru hér að bera fram sínu máli til stuðnings. Þeir tala mikið um það, bannfjendur, að aukizt hafi vínsmyglun síðan bannið kom. Þetta hefir ekki við rök að styðjast. Vínsmyglun var allþekkt áður en bannið kom. Strax og settur var hár tollur á vínin fór að bera á tilraunum til smyglunar. Þótt oftar hafi komizt upp um smyglunartilraunir nú í seinni tíð en áður var, þá stafar það af betra og fullkomnara tolleftirliti. Það er því mjög orðum aukið og úr lagi fært, þegar verið er að slá fram fullyrðingum um innflutning óleyfilegra vína. Launsölur á vínum voru og alþekktar áður en bannið kom. Með hinni ströngu löggæzlu, sem nú er, er slíkum óþrifnaði haldið mjög í skefjum. Bannfjendur kenna banninu um heimabruggið og að það sé komið á þann rekspöl, sem það er á, eingöngu fyrir bannið. Þetta er mjög rangt. Heimabrugg er alþekkt í þeim löndum, sem vínsala er frjáls, og er hingað komið þaðan. Hefði sá óþrifnaður vitanlega borizt hingað alveg jafnt fyrir því, þó engu banni hefði verið til að dreifa. Ég hefi áður bent á það, að með afnámi bannlaganna verður sá draugur ekki kveðinn niður; eina ráið til þess er að skerpa eftirlitið, ganga ríkt eftir því við lögreglustjóra landsins, að þeir hafi höndur í hári þeirra manna, er fast við slíka iðju. Andstæðingum bannsins hefir löngum orðið mjög skrafdrjúgt um það, að bannlögin hafi yfirleitt veikt löghlýðni manna. Það má raunar út frá vissu sjónarmiði segja um öll lög, að þau fjölgi lagabrotum, vegna þess að ef engin lög væru til, þá væru heldur engin lagabrot til. En með lögum skal land byggja. Til þess að halda við þjóðfélagsskipulagi verður að setja borgurunum lög, og það er vitanlega mikilsvert fyrir traustleika hvers þjóðfélags, að lögin séu í heiðri höfð. Það hefir frá upphafi verið hreint og beint ástríða á andstæðinga bannlaganna hér á landi að halda því fram í tíma og ótíma, að bannlögin væru brotin, og helzt einu lögin, sem gengið væri á snið við í þessu landi. Þetta eru vitanlega höfuðórar og ekkert annað. Hv. flm. talaði um, að bannlögin hefðu verið brotin svo freklega, að heilir skipsfarmar af víni hefðu verið fluttir inn í óleyfi laganna. Það hefir í þessi 20 ár, sem bannlögin hafa staðið, komið fyrir, að tvo skip hlaðin víni hafa komið til landsins í því augnamiði að koma víninu í land. En það er rétt að geta þess, að í þessum tilfellum báðum voru skipin tekin áður en þau gátu selt nokkuð af víninu og hvorttveggja gert upptækt, skip og farmur. Í þessum tilfellum hefir bannlagaeftirlitið fullkomlega náð tilgangi sínum.

Ég hefi áður minnzt á það, að það væri með endemum, hvernig þetta mál bæri hér að. Í fyrsta lagi af því, að það lýsir ófyrirgefanlegu ábyrgðarleysi og léttúð að ætla nú, einmitt á þeim tímum, þegar þjóðin sér ekki út yfir þá erfiðleika, sem að henni steðja úr öllum áttum, að fara að veita sterkum drykkjum í stríðum straumum inn í landið, og í öðru lagi að gera þetta að þjóðinni forspurðri. Eins og kunnugt er, eru bannlögin komin á að undangengnu þjóðaratkvæði. Það er þess vegna jafnsjálfsagt, að bannlögin séu ekki skert eða afnumin án þess að leitað sé þjóðaratkvæðis um málið. Ég mun nú ef til vill fá þau svör, að ekki hafi verið leitað þjóðaratkvæðis þegar Spánarundanþágan var veitt. Það er mikið rétt. En til þess liggja þær ástæður, að það var svo hart eftir gengið um svar Alþingis við tollkröfum Spánverja, að enginn tími vannst til þess fyrir Alþingi að uppfylla þessa skyldu við þjóðina. En það var ekki af því, að Alþingi væri það ekki fullljóst, að í þessu efni var sveigt af réttri braut, sem heldur ekki kom til af góðu, þar sem var kúgun sú, er Spánverjar beittu okkur í þessu máli, því strax á næsta þingi bar núv. 4. þm. Reykv. fram þáltill. í sameinuðu þingi þess efnis, að þrátt fyrir undanþáguna vildi þingið standa á bannlagagrundvelli, og var till. samþ. með 29 shlj. atkv. Þessa till. bar vitanlega að skilja sem afsökun þingsins gagnvart þjóðinni á því, að eigi varð hjá því komizt að láta niður falla uppfylling á þeirri skyldu að bera málið fyrst undir þjóðina. Þar sem nú við flutning þessa máls hefir algerlega verið gengið í berhögg við þessa sjálfsögðu skyldu, þá er þetta frv. að þessu leyti ekki einasta hnefahögg framan í þjóðina, heldur líka framan í yfirlýstan þingvilja. Hér er því með flutningi þessa máls verið að koma aftan að þjóðinni með mál, sem henni er stórhættulegt, hvort sem heldur er lítið á það frá heilbrigðislegu, siðferðislegu eða fjárhagslegu sjónarmiði. Hv. flm. er því vorkunn, þótt hann vilji sem minnst fara inn á fjárhagshlið málsins.

Þótt því sé haldið fram, eins og ég hefi áður sagt, af flm. frv., að það sé flutt í þeim lofsverða tilgangi að koma í veg fyrir heimabrugg og neyzlu Spánarvína í landinu, þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að slíkt getur ekki verið af heilum hug mælt. Það liggur allt of ljóst fyrir, að auknir möguleikar til að menn geti svalað drykkjufýsn sinni hljóta að leiða til aukins drykkjuskapar. Þessi óheilindi koma líka ljóslega fram í frv. sjálfu. Ég vil einkum benda á tvö atriði, sem sýna ljóslega, hve mikla trú, eða hitt þó heldur, flm. hafa á því, að afnám bannlaganna muni draga úr drykkjuskap í landinu. Hv. flm. vilja í engu láta slaka til um tolleftirlit það, sem nú er. Með þessu játa þeir, að smyglunarhættan verði jafnmikil eftir sem áður. Í öðru lagi leggja þeir til, að styrkurinn til stórstúkunnar verði stórkostlega hækkaður frá því, sem nú er. Mig minnir, að sumir þeir, sem að þessu frv. standa, hafi áður talið nægilegt, að stórstúkan hefði 6000 kr. styrk á ári. Í frv. eru henni ætlaðar 15000 kr., eða nærfellt þrisvar sinnum hærri upphæð. Þetta er vitanlega ekkert annað en játning á því, að drykkjuskapur muni stóraukast við breytinguna, a. m. k. í sama hlutfalli og styrkurinn á að hækka, eða næstum þrefaldast! Þegar þessi játning liggur fyrir í frv. sjálfu, og jafnframt sú játning, að ótakmarkaður innflutningur áfengis muni ekki draga úr hinum óleyfilega innflutningi, fara heilindin að verða mönnum nokkurnveginn augljós.

En sú viðurkenning, sem felst í þessum tveimur atriðum, styðst fullkomlega við erlenda reynslu í þeim löndum, þar sem bannlög hafa verið, en verið úr gildi numin. Eftir að innflutningsbanninu og áfengisvörnunum í Noregi var af létt, hefir drykkjuskapur aukizt þar alveg gífurlega. Allskonar árekstrar, slys, áflog og manndráp, sem áður voru skrifuð á reikning bannlaganna, hafa aukizt og margfaldazt. Síðastl. ár var drukkið í Noregi fyrir 264 millj. kr., sem er margfalt meira en nokkru sinni áður. Í Osló einni var drukkið fyrir 54 millj. kr., eða hærri upphæð en varið var til allrar styrktarstarfsemi í borginni.

Eins og kunnugt er, var bannið upphafið í Finnlandi í vetur. Danir hafa fagnað því mjög að vonum, enda streyma nú til þeirra pantanirnir á brennivíni o. fl. frá Finnlandi. Ekki var fyrr hægt að komast í símann eftir að bannlögin voru afnumin í Finnlandi en pantaðar voru 90 þús. ákavítisflöskur frá Danmörku — svona til reynslu. Og svo er að sjá, að „sýnishornin“ hafi þótt góð, því að helzt er að heyra, að það sé helzti vonarneisti Dana í kreppunni að selja vín til þeirra landa, sem áður höfðu þann, en hafa nú afnumið það. Þetta sýnir, að menn þurfa ekki að búast við gulli og grænum skógum, þótt bannlögin verði afnumin, heldur verður stefnt út í opinn voða með því að kippa stoðunum undan andlegri og efnalegri velferð þjóðarinnar. Af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar talið: að með þessu frv. er verið að kippa burt varnarráðstöfunum, sem þjóðin sjálf hefir komið sér upp, og að með því er verið að skerða afkomuöryggi þjóðarinnar á hættulegum tíma, og að með því er gengið framhjá þeim aðilja, sem sjálfsagt er að snúa sér fyrst til í þessu máli, þjóðinni sjálfri, verð ég að telja, að virðing þingsins sé í veði, ef það veitir ekki þessu frv. þær einu viðtökur, sem það á skilið, og fellir það frá n. og 2. umr.

Það hefði mátt ætlast til þeirrar sómatilfinningar hjá þeim, sem ólmir vilja brjóta niður áfengislöggjöfina, að þeir hefðu kosið að bera þetta mál undir þjóðina, áður en slíkt frv. væri borið fram hér á þingi. Þingið hefir þá siðferðisskyldu gagnvart sjálfu sér, að það, taki þetta mál þá fyrst til athugunar, er þjóðaratkv. hefir farið fram um það. Það er því í senn skylda gagnvart þjóðinni og ákvæðum fyrri þinga að vísa máli sem þessu frá, nema það hafi áður verið borið undir þjóðina. Það hlýtur að vera krafa þjóðarinnar, að Alþingi taki þetta til greina og víki í engu frá yfirlýstum vilja sínum í þessu efni.