22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í C-deild Alþingistíðinda. (11164)

284. mál, samvinnufélög

Héðinn Valdimarsson:

Það munu vera slík mál sem þetta, sem Framsókn hefir hugsað sér að flytja til atvinnubóta fyrir verkalýðinn. Ég verð að segja það, að efni frv. er svo ósvífið, að það gegnir furðu, að 3 hv. þm. skuli hafa fengizt til þess að setja nafn sitt á það. Þar er ætlazt til þess, að verkamenn í kauptúnum fái engan aðgang að skipaafgreiðslu, sláturhúsavinnu og öðrum verkum, sem kaupfélögin láta framkvæma, heldur eigi framleiðendur svokallaðir eða kaupfélagsmenn að sitja að því einir. Og ekki er vandað meira til þessa frv. en svo, að eins og orðalag þess er nú, er það hreinasta vitleysa. Í grg. er sagt, að framleiðendur eigi að sitja að þessari vinnu, en í frv. stendur, að kaupfélagsmenn eigi að fá hana. Ef þetta atriði um kaupfélagsmenn á að haldast í frv., þá held ég að það nái ekki tilgangi sínum. Í Blönduósdeilunni voru víst flestir verkamannanna kaupfélagsmenn, og hefðu því skv. þessu frv. átt forgangsrétt að vinnunni, og svo mundi víðar vera.

Ég veit ekki, af hverju þetta frv. stafar, en líklega stafar það af skilningsleysi.

Þetta getur vitanlega ekki komið til framkvæmdar nema í smákauptúnum, t. d. Hvammstanga og Blönduósi, þar sem ekki vinna nema 30–40 menn að útskipun og þar sem kaupfélögin eru svo að segja einráð um alla verzlun. Störf verkamanna í þessum smáu kauptúnum eru mestmegnis fyrir kaupfélögin, svo sem sláturhússtörf, út- og uppskipun. Á sumrin fara þeir svo í vegavinnu eða kaupavinnu. Þetta eru yfirleitt menn, sem flutzt hafa úr sveitinni og setzt að í kauptúnunum. Þegar svo vel árar, á að nota vinnu þessara manna í þágu kaupfélagsins, en þegar hart er í ári, fá þeir ekkert við þau að starfa. Þá á að sækja 30–40 sveitabændur og velja þá úr hópi hundraða bænda, sem umsetja þarna framleiðslu sína. Og hvers vegna á að gera þetta? Hvers vegna á að sækja bændur upp til héraða og dala til ess að vinna þau störf, sem nógir menn eru til að leysa af hendi innan kauptúnsins, og láta þá kosta ferðir sínar fram og aftur? — Það lítur svo út, að af hálfu hv. 1. flm. a. m. k. sé málið borið fram af hatri til verkamannanna. A. m. k. er það ekki fram borið af neinni þörf. 2. gr. hótar 2000–20000 kr. sektum, ef félagsmönnum er sýnd nokkur tálmun, er þeir eru að störfum, hvort sem það kemur fram í ofbeldi eða á annan hátt. Þetta á að gilda, þó að um enga kaupdeilu sé að ræða, aðeins ef eitthvert ofbeldi er sýnt. Segjum, að einhverjum sé persónulega í nöp við annan mann og gefi honum á hann, þegar hann er að vinna. Oft getur komið fyrir, að þannig kastist í kekki milli manna. En þá á skv. frv. að borga minnst 2000 kr. sekt.

Ég get sagt það hiklaust, að slík lög sem þessi dettur engum verkamanni í hug að halda. Og samband verkalýðsfélaganna hér á landi, Alþýðusamband Íslands, mun áreiðanlega hafa þau að engu, enda er ómögulegt að hlýðnast slíkum lögum. Ef á að fara að útiloka verkamenn í smákauptúnum, svo sem á Hvammstanga og Blönduósi, frá allri vinnu, og hv. þm. V.-Húnv. á að fara að velja úr bændum héraðsins, þá sem honum eru geðþekkir og eru vissir kjósendur hans, þá er ég hræddur um, að verkamenn annarsstaðar á landinu, t. d. hér, geti hugsað sem svo, að þeir afgr. ekki þau skip, sem hafa tekið á móti vörum á þennan fyrirlitlega hátt. Þá yrði kjötinu frá Hvammstanga ekki skipað upp af verkamönnum í Rvík, Ísafirði, Akureyri eða Siglufirði. Bændur hv. þm. V.-Húnv. yrðu þá að fylgja kjötinu alla leið til ákvörðunarstaðar. Sjá allir, hve mikið vit er í þessum hlutum. Mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn hvað slíkum bönnum viðkemur. Hér er nýgengið í gegnum d. eitt slíkt frv., þar sem á að lögskipa, að ekki megi aðrir selja mjólk í Rvík en mjólkurframleiðendur utan Rvíkur. En með slíkum fyrirmælum er boginn spenntur svo hátt, að engum dettur í hug að hlýða því eða fara eftir því.

Hv. þm. var að tala um, að örfáir menn hefðu staðið að vinnudeilum fyrir norðan. Ég þarf nú ekki að tala neitt um Hvammstangadeiluna. Hv. þm. var í 3 ár búinn að reyna að kúga verkamenn þar undir sig. En svo fóru þó leikar, að hann varð sjálfur að beygja sig.

Á Blönduósi voru verkamennirnir allir í verkamannafélaginu og þeir voru allir með, án tillits til stjórnmálaskoðana og höfðu jafnt atkv. um málið hver og einn.

Við getum hugsað okkur, hvernig fara myndi, ef Sláturfélag Suðurlands, sem selur allt sitt kjöt hér í bænum, tæki upp á því að heimta það, að eingöngu bændur ynnu að slátruninni. Ætli ekki væri hægt að refsa því nokkuð þunglega með því að hætta að kaupa af því kjötið? En jafnan hefir verið farið hægt í kröfur við sláturhúsið, því þótt að vísu meiri hluti verkamanna þar hafi jafnan verið úr Rvík, þá hafa þó bændur ávallt unnið þar líka, og það eitt skilyrði verið sett, að þeir væru skráðir í verkamannafélagi hér í bænum. Ef nokkur löggjöf lík þessari verður samþ., þá getur það vel orðið til þess, að bæjarmenn, þar sem þeir hafa fullt vald á þessum málum, loki fyrir öðrum en innanbæjarmönnum allri atvinnu. „Svo má deigt járn brýna, að bíti um síðir“, og eins er með verkamennina.

Þótt ég sé ráðinn í því að greiða atkv. gegn þessu frv. og öllum öðrum slíkum. í hvaða mynd sem þau birtast, þá er það ekki af því, að mér sé ekki sama um, þótt frv. þetta verði að lögum. Þó það verði samþ. hér á þinginu, skal hví aldrei verða hlýtt.