22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í C-deild Alþingistíðinda. (11165)

284. mál, samvinnufélög

11165Flm. (Hannes Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að frv. þetta ætti að verða til atvinnubóta. Hv. þm. er nú það tal svo tamt, að hann talar um öll mál sem atvinnubætur. En að vísu má það til sanns vegar færa, að þetta séu atvinnubætur fyrir framleiðendur til sveita. Framleiðendur sveitanna fá sannarlega ekki svo mikið upp borið fyrir sína miklu vinnu, er þeir leggja fram vegna framleiðslunnar ár út og ár inn og kostar þá bæði vökur og svitadropa, að það sé réttmætt að banna þeim að njóta þeirra atvinnubóta, sem þeir geta notað og bundin er við afsetning þeirra eigin framleiðslu. Bað má því vel segja, að þetta sé atvinnubótamál fyrir þá.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að með frv. ætti að banna kaupstaðabúum alla vinnu. Því fer vitanlega fjarri, og það stendur hvergi í frv., eða neitt, sem gefið getur tilefni til að álykta svo. Í frv. stendur það eitt, að framleiðendur fái óáreittir að vinna að sinni eigin framleiðslu, meðan þeir ná til hennar og eiga hana. Og það getur ekki talizt ósanngjarnt, að þeir fái óáreittir að vinna að sláturstörfum á sínu eigin fé í sínu eigin húsi, enda þótt húsið standi í kaupstað. Þeir hafa lagt sjálfir fram allt það fé, sem til þess hefir farið að koma húsinu upp, búa það áhöldum og oft og einatt lagt í bryggjur og önnur mannvirki, sem nauðsynleg eru við afsetningu framleiðslunnar. Þetta hafa þeir að vísu gert vegna sinnar framleiðslu, en það hefir jafnframt orðið til þess að skapa kaupstaðabúum atvinnu og afkomumöguleika. Samvinnan þarf vitanlega að vera svo, að hvor styðji annan, framleiðendur og verkamenn kaupstaðanna. En til þess þarf sanngirni á báðar hliðar. Undanfarin ár má kannske segja, að þetta hafi gengið þolanlega. En þegar framleiðsla bænda hefir fallið svo mjög í verði sem hún hefir gert nú, þá verða kröfur verkamanna að laga sig svo sem hægt er eftir því. Það tryggir þeim jafnasta atvinnu, og það sjá þeir líka vel og myndu haga sér eftir því, ef þeirra verstu böðlar, flokksbræður þeirra hér í Rvík. væru ekki að gefa út sínar fyrirskipanir, sem eingöngu verða þeim til tjóns og bölvunar.

Þá taldi hv. þm. það fjarstæðu, að framleiðendur hefðu forgangsrétt að þessari vinnu, og færði það fram sem ástæðu, að þeir myndu ekki allir komast að henni. Þetta er vitanlega hin mesta firra. Þeir myndu koma sér vel saman um það, hverjir vinnuna ættu að fá, enda eiga ekki allir heimangengt. (HV: Ætli kaupfélagsstjórinn reyndi ekki að koma sínum mönnum að!). Jú, vitanlega, því það eru einmitt þeir menn, sem eiga framleiðsluna og koma því til greina samkv. þessu frv. En ef fleiri byðust en hægt væri að taka, þá skal ég játa, að ef hv. 3. þm. Reykv. væri einn af þeim flokki, þá myndi ég sízt taka hann. En ef fleiri byðust en hægt væri að taka á móti, þá væri það allra sízt sönnun þess, að lög um þetta efni væru óþörf.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að frv. þetta væri sprottin upp af hatri á verkamönnum, einkum þó af minni hálfu sem 1. flm. þess. Þetta er alveg rangt. Ég get vel viðurkennt það, að ég hafi orðið undir í verkadeilunni á Hvammstanga, en ég ber enga óvild eða hatur í brjósti til verkamannanna þar fyrir þá sök. Og svo gæti farið, að hv. 3. þm. Reykv. gæti við tækifæri fengið að þreifa á því, að milli mín og verkamannanna á Hvammstanga er engin óvild.

Hv. þm. talaði um góða samvinnu milli Sláturfélags Suðurlands og verkamanna hér í bænum. Ég geri ekki ráð fyrir því, að sú afstaða breytist á neinn hátt, þótt frv. þetta verði samþ. Hér stendur líka öðruvísi á. Bændur, sem að því standa, mundu ekki telja sér neinn hag í því að taka þá vinnu í sínar hendur. Hið góða samkomulag, sem verið hefir, mundi því haldast óreytt.

Það má vel vera, að þörf sé á að búa nánar um ýms ákvæði frv. en nú er gert, t. d. sektarakvæðin. Það er verk þeirrar n., sem fær það, og er ég fús á að ganga inn á allar sanngjarnar breyt., sem verða mættu til bóta.

Ekki mun ég vikna, þótt hv. 3. þm. Reykv. hóti því, að lögin skuli að engu vera höfð. Hv. þm. og flokksmenn hans eru kunnir að því að lítilsvirða öll lög, nema sín eigin flokkslög. Þeir eru svona gerðir. En það má þó refsa þeim fyrir það að fylgja ekki lögum. Og hv. 3. þm. Reykv. gæti fallið undir slíkt, ef hann leggur það í vana sinn að hvetja til þess að fá lögin brotin, eða þau þeirra, sem hann er á móti. En hann á það þá líka á hættu að verða tekinn og látinn gjalda óhlýðni sinnar við lög landsins.