22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í C-deild Alþingistíðinda. (11167)

284. mál, samvinnufélög

Flm. (Hannes Jónsson):

Það er alveg óþarfi að tala um þrælahald í sambandi við þetta frv. Hér er ekki verið að þvinga neinn, heldur vernda rétt manna. Ég hélt, að hv. 3. þm. Reykv. mundi vilja láta eitt yfir alla ganga, en ekki að einn sæti yfir rétti annars. Ég hélt, að hann mundi vilja rétt lítilmagnans, eins þótt hann væri fátækur bóndi í sveit. Nú kveður við annan tón. Nú eru þeir vargar í véum, réttlausir um meðferð sinna eigin eigna og ófriðhelgir að störfum sínum. Annars hefir stundum þotið öðruvísi í skjánum hjá hv. þm. Það er þegar hann hefir verið að reyna að lokka sveitamennina í faðm sinn, lofað þeim þar sól og sumri og sagt þeim, að það væri eina ráðið til þess að þeir yrðu ekki ósjálfbjarga líkt og horfallnir gemlingar. En þegar talað er um að vernda rétt þessara manna til að vinna að sinni eigin framleiðslu, þá rís hv. 3. þm. Reykv. upp og kallar allt slíkt þrælahald.

Ég get vel fellt mig við, að frv. verði breytt, ef betur má fara á annan veg. Og ég játa, að full þörf sé á almennri löggjöf um vinnudeilur, þar sem m. a. væri ákveðið, hvenær verkföll eða verkbönn væru leyfileg og fleira, sem að því lýtur. Tími vannst ekki til þess nú, en það verður þá máske gert síðar. En ég vildi ekki bíða eftir því, vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að hefjast handa nú þegar, svo bændur gætu strax notið þeirrar aðstöðu, sem frv. þessu, ef að 1. verður, er ætlað að gefa. En þeir þurfa allra ráða að leita til að geta látið atvinnurekstur sinn fljóta gegnum hina erfiðu tíma. Ég geri þó hreint ekki ráð fyrir því, að bændur myndu, þó þetta frv. verði samþ., taka alla þessa vinnu í sínar hendur. Hún mundi eftir sem áður verða unnin bæði af þeim og verkamönnum kauptúnanna. Ég hygg, að þá yrði samstarfið ljúfara. Hlaupadýr úr Rvík mundu þá ekki komast að til að spilla friði milli manna. Við verkamenn kauptúnanna er ég ekki hræddur. Þeir eru flestir reiðubúnir að semja á sanngjörnum grundvelli. Þeir sjá vel, að það er þeim sjálfum fyrir beztu, að þeir sem ráða lögum og lofum hér í Rvík og þykjast sjálfkjörnir foringjar allra verkamanna landsins, fái ekkert leyfi til að láta dropa sína leka í þá potta. — Ég mun svo ekki segja meira að sinni. Ég býst við, að tækifæri verði til þess að ræða málið nánar við 2. umr., eftir að það hefir fengið athugun í n. óska ég, að hún hraði afgreiðslu málsins og að hv. þdm. stuðli að því að láta það fá sem greiðastan gang gegnum hv. deild.