22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í C-deild Alþingistíðinda. (11170)

284. mál, samvinnufélög

Héðinn Valdimarsson:

Það kemur ekki mikið þessu máli við, er hér liggur til umr., þó að hv. þm. V.-Húnv. reyni að gera gys að því, að ekki var sent nema 200 kr. héðan að sunnan verkamönnunum á Blönduósi til hjálpar. (HJ: Þær voru aldrei sendar). Verkamannafélögin eiga enga digra sjóði og ekki gert ráð fyrir mikilli peningahjálp frá þeim, enda er ekki að vænta, að fátækasta stéttin í landinu geti látið mikið fé. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um ráðstöfun þessara peninga norður á Blönduósi, þá er það í einu orði sagt haugalygi! (Forseti hringir). Það er lygi, sem er lygi! (Forseti hringir). Hitt er ekki nema eðlilegt um menn, sem neitað er um viðskipti við kaupfélagið, að ef þeir fá peninga, þá hlaupi þeir ekki með þá til kaupfélagsins og verzli þar. En það sýnir aðeins innræti hv. þm. V.-Húnv., að hann getur á augnabliki logið þessari sögu upp frá rótum. (Forseti hringir).