22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í C-deild Alþingistíðinda. (11171)

284. mál, samvinnufélög

Flm. (Hannes Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. virðist hafa verið það mjög mótstætt, ef þessir umræddu peningar hefðu gengið fyrir vörur hjá kaupfélaginu, sem sennilega hefði orðið, ef þeir hefðu nokkurntíma komizt norður. Og til þess að tryggja betur, að þessa menn henti ekki það ólán að lenda með viðskipti sín hjá kaupfélaginu, þá var ákveðið, hvað kaupmaðurinn mátti skammta þeim í vörum. (HV: Þetta er haugalygi! — Forseti hringir). En það er ekki nema eðlilegt út frá skoðun hv. 3. þm. Reykv., þó að hann fyrirskipaði, að peningarnir mættu ekki renna til kaupfélagsins fyrir vörukaup hjá því. Hann hefir sjálfur upplýst, af hvaða ástæðu hann gerði þetta, og frekar þarf ekki um það að ræða. Hann fann þetta ráð upp til þess að geta innheimt skuld sína hjá kaupmanninum, og jafnframt tryggt, að ekki yrðu keyptar vörur frá kaupfélaginu fyrir þetta samskotafé, en lýsir þó jafnframt yfir, að þessu megi enginn trúa.