22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í C-deild Alþingistíðinda. (11172)

284. mál, samvinnufélög

Haraldur Guðmundsson:

Ég þykist nú sjá af umr., að tilgangur frv. er annar en sá, sem látið er í veðri vaka. Ég held, að tilgangur frv. sé sá, að hjálpa hv. þm. V.-Húnv. og stéttarbræðrum hans að innheimta skuldir, sem litlar líkur eru til, að bændur séu færir að greiða.

Eftir því, sem ég bezt veit, eru engin lög hér né annarsstaðar, er mæla fyrir um forgangsrétt vissra manna til vinnu, önnur en þau, sem setja þau skilyrði, að tryggt sé, að sá, sem verkið vinnur, hafi næga kunnáttu til að vinna það. Hér er því um nýmæli að ræða í lagasetningu siðaðrar þjóðar, og það nýmæli, sem aldrei verður hægt að framfylgja.

Ég held, að það orki ekki tvímælis, að stefna sú, sem flm. frv. í fljótu bragði virðast byggja á, brjóti mjög í bág við þá þróun, sem orðið hefir um verkaskiptingu manna. Það er ekki tilviljun, að verkamenn vinna t. d. að uppskipun og þess háttar störfum, en bændur að búum sínum. Reynslan hefir sýnt, að hagfelldustu vinnubrögðin eru þau, að verkunum sé skipt svo, að bændur vinni að búum sínum, en aðrir vinni að útskipun vara o. s. frv. Það getur aldrei orðið hagnaður fyrir bónda að söðla hest sinn og ríða e. t. v. langa vegu til þess að vinna. 3–4 tíma að útskipun vara sinna eða uppskipun nauðsynja. Þá mundi borga sig betur að fá menn á staðnum til að annast þessa vinnu en að bændur taki sig upp og ríði að heiman til að sinna þessu, þó að þeir þurfi að greiða 5 aurum meira fyrir hvern tíma, sem unnið er, en þeir þykjast sjálfir geta gert það fyrir.

Sérhver, sem ekki er blindur, hlýtur að sjá, að þessari þróun verkaskiptingarinnar ætla þeir að nauðga, sem gerzt hafa flm. þessa frv. Þeir ætla langt aftur í tímann, eða þangað, sem segir í vísunni:

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Slíkt er öfug þróun. Það er að ætla sér að snúa hjóli tímans aftur á bak.

Þetta, sem ég nú hefi sagt, er um stefnu þá, sem velviljaðir menn myndu ætla, að vekti fyrir flm. frv. En frv. sjálft er svo illa og óviturlega úr garði gert, að það er nánast bull eitt og vitleysa, eins og hver einasti maður rekur augun í, er les frv. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samvinnufélögum, sem stofnuð eru og starfa samkvæmt lögum nr. 36, 27. júní 1921, skulu félagsmenn hafa forgangsrétt til hverskonar atvinnu við framleiðslustörf félaganna, eins og til dæmis við sláturhús þeirra, smjörbú og verksmiðjur, útskipun framleiðsluvaranna o. fl.“

Hvað þýðir þetta o. fl. o. fl.? Ekki getur það talizt undir framleiðslustörf beinlínis að skipa út vörum. En sé það talið svo og til þess ætlazt, að bændur, sem eiga vöruna, skipi henni sjálfir út, þá er engu fráleitara að telja það framleiðslustarf að sigla með hana til annara landa og selja þar. Yrði þá tafsamt hjá bændum við búskapinn, ef þeir ættu sjálfir að manna skipin, sem flytja út ull og kjöt.

En segjum nú, að þessum forgangsrétti bænda til útskipunarvinnu á vörum þeirra sé svarað á viðeigandi hátt. Við skulum t. d. hugsa okkur, að sjómenn neiti að sigla með vörur þær fyrir bændur, sem deilur hafa risið um út af útskipun, m. ö. o., þó að vörurnar séu komnar um borð, verða þær ekki fluttar úr landi. Og hvað verður þá gert, ef bændur geta ekki snúizt við því að flytja þær sjálfir á erlendan markað?

Hv. flm. þykjast hafa fundið ráð við því með ákvæðum 2. gr. frv., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það varðar sektum frá 2000–20000 kr., ef félagsmönnum er sýnd nokkur talmun, er þeir eru að störfum þeim, er getur í 1. gr. laga þessara, hvort sem tálmunin kemur fram í ofbeldi eða á annan hátt, nema þyngri refsing liggi við að lögum“.

Nú er ég hræddur um, að örðugt geti orðið fyrir dómara að meta, hvað „tálmun“ er samkv. þessu, þegar ekki er um ofbeldi að ræða. En ofbeldi varðar nú þegar við lög, og því óþarft að setja ný lög um það. Það er t. d. bannað í lögum að berja menn, þótt verkfallsbrjótar séu.

Setjum svo, að sjómenn neituðu að sigla með vörur bænda. Er þá slík neitun tálmun, sem „kemur fram í ofbeldi eða á annan hátt“? Mér er spurn. Eftir þeim skilningi, sem flm. virðast leggja í frv., þá ætlazt þeir til, að slík neitun sjómanna falli undir lögin, en ég get fullvissað þá um, að svo getur aldrei orðið.

Ég ætla þá að víkja að því, sem ég drap á í upphafi máls míns, að frv. þetta væri fram komið til að hjálpa kaupfélagsstjórunum, og þá fyrst og fremst þeim tveimur, sem að frv. standa, að heimta inn skuldir. Eins og kunnugt er, þá er í kaupfélögunum flestum fjöldi félagsmanna, og fleiri en nokkrar líkur eru til, að geti fengið vinnu á vegum félagsins — kunna líka fæstir að sigla til útlanda, ef að því ræki, að bændur yrðu sjálfir að fara með kjötið til Noregs. — Kaupfélagsstjórinn ræður mennina, er til vinnunnar þarf í hvert sinn. Og hverja mundi hann þá helzt velja? Vitanlega þá menn, sem skulda verzluninni, til þess að bæta viðskiptajöfnuðinn. Við þessu er ekkert að segja, þegar þá kemur manninum, sem skuldar, vel, en það getur líka komið sér afarilla. Það getur staðið á nauðsynlegum störfum heima fyrir hjá manninum, sem enga bið þola, og þó að hann eigi von á nokkrum krónum inn í reikning sinn hjá kaupfélaginu, þá getur tapið að tefja störfin heima fyrir numið meiru. En ef kaupfélagsstjórinn heimtar það, verður maðurinn að gegna, þegar kallið kemur, ef hann á ekki að eiga á hættu, að viðskiptum hans við kaupfélagið verði slitið.

Við skulum ennfremur hugsa okkur hvernig þetta yrði í framkvæmdinni. Skip kemur með vörur til Hvammstanga, en kaupfélagið á ekki nema sumt af þeim. Nú hafa kaupfélagsmenn ekki forgangsrétt að vinnu nema að uppskipun þeirra vara, sem til félagsins eiga að fara, og verður þá að lesa vörurnar í sundur frammi í skipinu eftir þeim merkjum, sem eru á stykkjunum. Svo líður að hádegi, og er þá komið að kaupfélagsvörunum, er félagsmenn taka að sér að koma á land, og verður þá að reka verkamenn þorpsins úr vinnunni. Svona dæmi og ótal fleiri mætti nefna, sem yrðu afleiðing þessarar lagasetningar, enda hefir samflokksmaður minn, hv. 3. þm. Reykv., bent á þá hættu, sem bændum landsins stafar af slíkum þælalögum. Það er ekkert eðlilegra en að verkamenn bæjanna tryggi sig gegn þessu með því að banna sveitamönnum að vinna í bæjunum. Slík lagasetning sem þessi mundi verða til þess að vekja hina mestu óvild milli verkamanna og bænda.

Ég held, að þetta frv. sé hvorttveggja í senn, ákaflega fávísleg tilraun til að lama verkalýðssamtökin og að sú stefna, sem er að baki þess, brjóti mjög í bág við þá þróun og samstarf, sem verið hefir í atvinnuháttum landsmanna í seinni tíð. Og ég vil fullyrða, ef að lögum yrði, þá mundi það aðeins skapa kala á milli stétta, sem hingað til hafa unnið saman, og gæti leitt af sér þær ráðstafanir, sem yrðu bændum stórkostlega skaðlegar. Þess vegna á ekki að leyfa frv. eins og þessu til 2. umr., og að því mun ég stuðla með mínu atkv.