20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í C-deild Alþingistíðinda. (11193)

290. mál, erfðalög og erfðafjárskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að af sé tekinn erfðaréttur útarfa. Ég býst við, að ýmsir hv. þdm. fleiri en flm. þessa frv. séu sammála um, að þetta sé rétt, þótt menn kunni að greina frekar á um hitt, hvar skuli setja mörkin milli útarfa og nærarfa. Við flm. þessa frv. gerum ráð fyrir, að framfærsluskylda og erfðaréttur séu látin fylgjast nokkurnveginn að. Gert er ráð fyrir því í frv., að erfðaréttur. haldist óbreyttur frá því, sem nú er, til ættingja beint upp og niður, til foreldra, föðurforeldra, móðurforeldra o. s. frv., svo framarlega sem nokkrir eru á lífi. Einnig haldist erfðir til allra niðja. Ég skal geta þess, að við flm. munum ekkert hafa á móti því, þótt þetta yrði rýmkað nokkuð, t. d. þannig, að systkin ættu að taka arf eftir bróður eða systur, sem hefði verið fyrirvinna þeirra og þau annars félaus. Ekki er þó gert ráð fyrir í frv., að þetta sé víðara en það, að heimilt sé með arfleiðsluskrá að ráðstafa til þessara ættingja nokkrum hluta eignanna. Einnig er gert ráð fyrir því, að sjóður sá, sem arfinn tekur, ef nærarfar eru ekki á lífi, hafi sama rétt og aðrir lögarfar að því leyti, að óheimilt sé að ráðstafa nema ¼ hluta eignanna með arfleiðsluskrá, jafnt hvort sem logarfar eru til eða eigi, ef eftirlátnar eignir nema meiru en 20 þús. krónum. Ég skal geta þess, að þetta hámark — 20 þús. kr. — er ekki neitt sérstakt kappsmál hjá okkur flm. Við getum vel hugsað okkur að ganga inn á eitthvert annað hámark, ef það er líklegra til samkomulags, en meiningin með því að skerða ráðstöfunarréttinn með arfleiðsluskrá er að gera rétt hins opinbera jafnan og rétt lögarfa.

Þá er farið fram á smávægilega breyt. á 3. gr., að ógift kona, sem býr með manni og hefir alið honum barn, hafi sama rétt til arfs og þau voru gift. Þetta er sjálfsagt, og geri ég ekki ráð fyrir, að nokkur hafi á móti því.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að erfðafjárskattur sé hækkaður tvöfalt frá því sem nú er, á arfi, sem fer yfir 5000 kr., en jafnframt að erfðafjárskattur skuli alveg niður falla, ef arfurinn nemur ekki meiru en 5000 kr., og heimilað að ráðstafa með arfleiðsluskrá allt að sömu upphæð af eftirlátnum eignum, þótt hún fari fram úr fjórðungi alls arfsins. Þá er og ennfremur gert ráð fyrir, að þetta fé verði ekki notað sem eyðslueyrir til almenningsþarfa. Það liggur í hlutarins eðli, að það væri eignaeyðsla, ef það fé, sem hið opinbera tæki í arf, væri gert að eyðslueyri. Fyrir því er hér gert ráð fyrir, að það renni í sérstakan sjóð, sem á sínum tíma á að notast til þess að framfleyta gamalmennum og öryrkjum í landinu. Meiningin er sú, að þegar erfðaréttur og framfærsluskylda fer saman, þá taki hið opinbera við framfærslu gamalmenna og öryrkja um leið og arfinum.

Þá vil ég geta þess, að við samningu frv. um alþýðutryggingar var okkur það ljóst, að léttara yrði fyrir tryggingarnar, ef hægt yrði að safna sjóði fyrir örorkutryggingarnar. Gerum við því ráð fyrir, að erfðafjárskatturinn renni til slíks sjóðs. Hve miklu þetta muni nema nú, er ekki unnt að segja. Undanfarið hefir erfðafjárskatturinn numið um 50 þús. kr., og sé gert ráð fyrir, að hann hækki um helming, þá nemur hann 100 þús. kr. Hversu miklu myndi muna um arfa þá, sem samkv. frv. þessu féllu til hins opinbera, er ekkert hægt að segja. Um það, vantar allar skýrslur. En það teldi ég ekki ógætilega áætlað, þó að gert væri ráð fyrir, að það myndi nema jafnri upphæð og skatturinn sjálfur. Yrði sjóður þessi þannig eftir 10 ár um 2 millj. kr. fyrir utan vexti. En með vöxtum töluvert á 3. millj. Væri þá sæmileg fúlga.

Sé ég svo ekki ástæðu til að láta lengri formála fylgja þessu máli, en óska, að því verði vísað til allshn.umr. lokinni, og vil jafnframt spyrja þá hv. n., hvort ekki sé bráðlega von á nál. um alþýðutryggingafrv., sem til hennar var vísað.