07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í C-deild Alþingistíðinda. (11206)

580. mál, bann við okri

Flm. (Bergur Jónsson):

Frv. þetta er flutt eftir tilmælum lögreglustjórans í Reykjavík, sem manna bezta aðstöðu hefir haft til þess að kynnast því, hve hreint okur í útláni á peningum er orði mikið hér í bæ og hefir verið á seinni árum.

Löggjöfin um okurvexti er orðin mjög úrelt, enda er hún frá árunum 1859–1890 og því eigi vanþörf á að endurskoða ákvæði hennar. Sú aðferð hefir verið tekin upp víða erlendis, að hafa ekki sérstök bannakvæði við því að taka okurvexti, heldur taka ákvæði um það upp í þá bálka hegningarlaganna, sem fjalla um svik. En þar sem ekki er búið að endurskoða okkar hegningarlöggjöf, verðum við að reyna að notast við sérstök lög um þetta atriði. En ég hefi ekki séð mér fært að gera þetta á þann hátt, sem ég helzt hefði kosið, í sambandi við hegningarlögin, vegna þess hve endurskoðun þeirra er skammt á veg komin. En þessi ákvæði, sem hér eru borin fram, geta til bráðabirgða komið að talsverðu gagni. Þau eru heldur auðveld í framkvæmd, en sá verknaður, sem þeim er stefnt gegn, okrið, er orðið mjög áberandi þjóðarböl og bitnar harðast á þeim, sem eru í fjárhagslegum þrengingum og verða út úr neyð að taka peninga að láni með stórum afföllum auk hárra vaxta. Einnig hefir þetta áhrif á verðmælinn í landinu. Þeir, sem fyrir okrinu verða, reyna að ná sér niðri á ýmsan hátt, t. d. með hækkaðri húsaleigu, taka hærra fyrir sín verk o. s. frv.

Ég vona, að þessu frv. verði vel tekið af hv. d., og er sennilega bezt að vísa því til hv. allshn.