18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í C-deild Alþingistíðinda. (11211)

172. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki fara að ræða almennt um afnám bannlaganna, þó hv. 1. flm. reyndi í framsöguræðu sinni að ryðja þeim braut, sem síðar kynnu að vilja fara inn á þá slóð. Það mál liggur ekki fyrir nú.

Ég verð að segja það, að þó maður hafi mátt eiga von á ýmsu misjöfnu nú á hinum síðustu og verstu tímum, þá hefir maður tæplega búizt við að þurfa að horfast í augu við till. hér á Alþingi í þá átt, að gerð skuli tilraun til þess hreint og beint að eitra fyrir þjóðina eins og hrafna og önnur hrædýr, sem leggjast á búfénað bænda. En það er gerð tilraun til þess með þessu frv.

Það er talað um það í grg. frv., og hv. flm. vek að því líka; að öl það, sem þeir vilja láta búa til, sé svo ákaflega meinlaust. Þó er eins og runnið hafi upp fyrir þeim, sem grg. ritaði, að það sé nú e. t. v. ekki alveg eins meinlaust eins, og hv. flm. vill vera láta í fyrstu pennadráttum grg., því að síðar í henni er meinleysið ekki orðið meira en það, að höfundurinn telur ölið „tiltölulega“ skaðlítið. Og eins og hæstv. ráðh. hefir nú bent á, er slík öldrykkja alls ekki svo meinlaus sem aðstandendur frv. vilja halda fram: hvert á móti væri það það hættulegasta, sem hægt væri að gera, að fara inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, að fara að brugga hér áfengt öl, eins og ástandið er nú hjá þjóðinni. Við höfum nú hér lögum samkvæmt vín á boðstólum, sem ekki eru mjög sterk, en þó nógu sterk til þess, að fjöldi manna byrjar ekki vínnautn með því að leggja þau sér til munns. En ef fara á að auka það ógurlega vínflóð, sem hv. 1. flm. talaði um, með því að koma hér á fót bruggun á áfengu öli, þá er þar með lagður grundvöllur að stórauknum drykkjuskap í landinu. Þó sagt sé, að þetta öl eigi að hafa í styrkleika, mun það nægja til þess að vekja drykkjuhneigð manna, verða þess valdandi, að menn stigi fyrsta sporið. Með því væri áreiðanlega lögð gildra eða net fyrir æskulýðinn í landinu, karla og konur. Hann mundi byrja á að drekka þetta áfenga öl og halda síðan stig af stigi út á braut drykkjuskaparins. M. ö. o. væri með frv., ef að 1. yrði, lagður grundvöllur að drykkjuskap fjölda manns, sem nú er laus við hann, vegna þess að ekki má framleiða þetta „tiltölulega meinlausa“ öl.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, út í hvert hyldýpi spillingar, vesaldóms og örvæntingar leið þeirra liggur, sem gefa sig drykkjuskapnum á vald. Með því að samþ. þetta frv. fær áfengisnautnin hér á landi áreiðanlega byr undir báða vængi, og verður færð út á miklu víðara svið heldur en hún nú er á. Þess vegna er það einmitt hættulegasta leiðin, sem hægt er að fara í þessu máli, ef slíkar till. kæmu til framkvæmda, eins og nú er ástatt hjá okkur. Í því sambandi má benda á gamla málsháttinn: Af mjóum þvengjum læra hundarnir að stela. Frá ölinu liggur leiðin til hinna sterkari drykkja. Það er því mesta fjarstæða, sem hv. flm. heldur fram, að sala áfengs öls mundi minnka neyzlu Spánarvínanna. Eftir því sem fleiri leggja inn á drykkjubrautina, eftir því verður meira drukkið af vínum. Og þannig mundi öldrykkjan einnig ýta undir notkun sterkra drykkja, að því leyti sem menn geta í þá náð.

Það vantar ekki, að reynt sé að slá á ýmsa strengi í grg. frv. og framsögu. Það er sagt, að þetta sé spor í áttina til að efla innlendan iðnað, og reynt að setja það í samband við aðrar kreppuráðstafanir. En hver er svo þessi innlendi iðnaður? Ekki er svo mikið um, að efnið til þessa öls sé innlent; Ég hygg, að það sé allt flutt frá útlöndum. (EA: Það mætti kannske nota kartöflur!). Mér er nú ekki kunnugt um, að kartöflur sé notaðar til slíkra hluta, enda höfum við annað þarflegra við þær að gera, en það getur svo sem vel verið, að þeir hugvitsmenn, sem sí og æ leggja höfuð sitt í bleyti til að finna leiðir til þess að veita áfengisflóði yfir landið, gangi með einhverjar hugmyndir í höfðinu í þá átt. — Það eina, sem við komum til með að leggja til í þessa „innlendu“ framleiðslu, er blávatnið. Það þarf ekki að setja upp neina ölbruggun til þess, að menn geti fengið sér vatnsdrykk hér í Reykjavík. Það er hægt að fá Gvendarbrunnavatnið úr hverjum krana hér. (EA: Ætli það yrði ekki útibú uppi á Akranesi?). Ég býst við því, að þeir, sem berjast fyrir áfengisbruggun í landinu, myndu ekki láta sér nægja bruggunarstöð hér í Rvík, heldur yrði reynt að breiða þessa starfsemi út um landið.

Útreikningur hv. 1. flm. um þessar hundruð þúsunda, ef ekki millj. kr. tekjur af bruggun og sölu öls hlýtur að byggjast á því, að nokkuð víða á landinu eigi að brugga og að menn hafi auðveldan aðgang að þessu öli.

Ef menn nú ekki vilja láta sér nægja blávatnið eins og það streymir tært og heilnæmt út úr iðrum jarðarinnar, þá geta menn svo sem fengið sér öldrykk eins og nú er. Hér er mikil ölframleiðsla, og ég verð að telja það fremur kost en galla á því öli, að menn skuli geta drukkið það án þess að verða fullir og vitlausir af því.

Þá er komið að því atriðinu, sem er sterkasta driffjöðrin í ákafa hv. flm. við að koma þessu máli fram; það er umhyggjan fyrir því að bæta úr hinum sívaxandi fjárþörfum ríkissjóðsins, eins og hv. aðalflm. orðaði það. Ég vil nú í því sambandi benda á hið fornkveðna: „Svo skal böl bæta, að bíða ekki annað meira“. Frá mínu sjónarmiði eru tekjur þær, er á þennan hátt á að afla ríkinu, allt of dýru verði keyptar. Þær tekjur ganga út yfir andlega og líkamlega heilbrigði þjóðarinnar. Með hverjum þeim eyri, hverri þeirri krónu, er í ríkissjóðinn rynni af þessum völdum, væri eyðilagt og upptært margföldu verðmæti í dýrmætum tíma og starfsþreki þjóðarinnar; að ógleymdu öllu því böli og óhamingju, sem þetta að öðru leyti myndi leiða yfir þjóðina og alltaf fylgir drykkjuskapnum eins og skugginn ljósinu. Ég held því, að það sé ekki einasta óþarft, heldur beinlínis þjóðhættulegt að stofna til þessa mikla vínflóðs, er beint og óbeint mundi leiða af framgangi þessa frv. Eins og nú er hafa menn þegar allt of mörg tækifæri til að drekka frá sér vitið og alla blessun.