18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í C-deild Alþingistíðinda. (11212)

172. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Jón Auðunn Jónsson:

Ég ætla aðeins að litlu leyti að svara þeim hæstv. forsrh. og hv. þm. Borgf., er hér hafa látið ljós sitt skína á nokkuð óvæntan hátt. Með flutningi þessa frv. vakir fyrir mér að draga úr neyzlu Spánarvína í landinu og ólöglegri bruggun.

Það gat engan órað fyrir því, að neyzla hinna heitu sponsku vína yrði svo mikil sem raun varð á. Það eru engin fordæmi fyrir því annarsstaðar frá, að þau séu notuð til ofdrykkju. Þá er öllum vitanlegt, að á síðustu árum hefir komið upp heimabruggun í öllum sveitum landsins svo að segja, nema á Vesturlandi; þar þekkist það ekki enn. Þetta er sýnn voði fyrir andlega og líkamlega heilbrigði þjóðarinnar.

Ég er sannfærður um, að neyzla létts öls mundi stórkostlega draga úr þessum ófögnuði. Englendingar flytja nú inn mikið af dönskum og þýzkum bjór, sem er örlítið sterkari en öl það, sem lagt er til, að leyft verði her. Það er reynsla þeirra, að eftir að farið var að flytja þetta öl inn hefir storkostlega dregið úr neyzlu whiskys og annara sterkra drykkja. Í Skotlandi hefir whiskydrykkja staðið í stað eða aukizt, í Englandi minnkað. Þetta ber öllum saman um, er til þekkja í landinu. Í Skotlandi er lítils neytt af léttari öltegundum, en í Englandi hefir neyzla þess stóraukizt á síðari árum. Menn, sem ég hefi talað við og kunnugir eru í Englandi, fullyrða það, að unga fólkið drekki nú létt öl í stað sterkra drykkja áður. Enski bjórinn sterki, „stout“, er nú orðið lítið keyptur. Menn kjósa heldur léttara öl.

Ég hygg, að reynslan hér myndi verða sú, að stórlega drægi úr neyzlu Spánarvína líka, þótt ljúffeng séu. Það er nú svo, að fæstir aðrir en ofdrykkjumenn drekka til þess að verða fullir. Menn drekka til þess að gleðja sig, en ekki til þess að verða örvita og út úr fullir.

Þá hygg ég, að enginn mæli móti því, að nokkur neyzla öls sé ekki líkt eins skaðleg heilbrigði manna eins og neyzla víns, jafnvel þótt lítil sé. Í öli er líka jafnan nokkuð af næringarefnum.

Mér skildist á þeim hv. þm. Borgf. og hæstv. forsrh., að þeir væru ánægðir með ástandið eins og það er. Ég trúi því ekki, að þeir þekki þá ástandið eins og það raunverulega er. Ég hefi orðið fyrir alveg óvenjulegum vonbrigðum yfir bannlögunum. Ég var einn þeirra, er greiddu banninu atkv. Ég gerði það með þeirri hugsun, að unnt væri að ritrýma víninu algerlega úr landinu. En það liðu ekki mörg ár áður en ég sá, að þetta var ógerningur. Og hvernig er reynsla annara þjóða? Tvær Norðurlandaþjóðir hafa reynt áfengisbann. Hvorug þeirra hefir treyst sér til að halda því uppi. Í Noregi er reynslan sú, að þar er nú minna drukkið en á dögum bannlaganna og betur farið með neyzlu víns.

Annað það, sem bannlögunum hefir algerlega mistekizt, er að fá samúð borgaranna. Það er mikið vegna þvingunar þeirrar, sem þeim fylgir. Unga fólkið þolir einkanlega illa þá þvingun. Það er vitað, að menn grípa jafnvel til örþrifaráða, þegar þeim finnst persónulegu frelsi sínu misboðið. Þetta er ein af orsökunum til þess, að það er ómögulegt að halda bannlögunum uppi.

Enn hafa bannlögin orðið til þess að gera að engu hina miklu starfsemi áhugasamra bindindismanna, er var svo vel á veg komin áður en bannið komst á, að þeir voru búnir að vinna fylgi og samúð meiri hluta þjóðarinnar. Þá þótti það ósæmilegt að sjást ölvaður á almannafæri. En hver er skoðun þjóðarinnar á því nú? Nú er það fjöldi ungra manna, sem þykjist af því að hafa verið ölvaður. Það þykir bera vott um karlmannslund að hafa þorað að bjóða þvinguninni birginn. Ég skil ekki aðstöðu andmælenda þessa frv. Ég skil ekki, hversu ánægðir þeir virðast vera með árangurinn af bannlögunum. Mér finnst meiri ástæða til að hryggjast yfir honum. Nýlega kom hér upp hið svokallaða Borgarmál. Við rannsókn þess kom það upp úr dúrnum, að fjöldi löggjafa, embættismanna og góðborgara hafði brotið bannlögin, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En nálega engin rödd heyrðist, er hneykslaðist á þessu. Það þótti svo að segja sjálfsagt.

Hæstv. forsrh. telur, að skaðminna væri að leyfa innflutning sterkra drykkja en tilbúning létts öls í landinu sjálfu. Ég er sannfærður um, að ef hér væri frv. á ferðinni um afnám bannlaganna, þá mundi hann rísa upp og mælast til þess, að reynt yrði áður að leyfa tilbúning létts öls og sjá, hvort þjóðin gæti ekki vanizt af sterkum drykkjum með því.

Hvað er verið að gera með því að halda við ástandinu, sem nú ríkir? Það er verið að halda Spánarvínum og heimabruggi að þjóðinni. Ég hygg, að flestum heilsufræðingum komi saman um, að mikil neyzla þessara heitu vina og „Höskuldar“ sé mönnum skaðlegri en neyzla létts öls. Hæstv. forsrh. sagði, að menn lærðu fremur að drekka á léttu öli en Spánarvínum. Ég er sannfærður um, að þetta er misskilningur. Öl er ekki ljúffengur drykkur nema með mat. En hin sætu Spánarvín eru sérstaklega til þess fallin að laða unga menn og konur til að byrja neyzlu víns. Ég tel hæstv. forsrh. vorkunn; hann hefir sjálfsagt aldrei neytt víns á sinni æfi og hefir því litla þekkingu á þessu.

Þegar þessir hv. þm., sem virðast vera svona ánægðir með ósómann, sem fylgt hefir bannlögunum, fara að tala um, að hér sé verið að eitra fyrir þjóðina, þá tala þeir eins og útúrfullir menn, er ekki vita sitt rjúkandi ráð. Hv. þm. Borgf. sagði, að við hefðum ekki ýkjasterka drykki nú. Ég hélt nú satt að segja, að hann kærði sig ekki um sterkari drykki en t. d. „Höskuld“. Það er reyndar sjálfsagt hægt að bæta við styrkleikann, og verður sennilega gert von bráðar, ef engin breyting er gerð á áfengislöggjöfinni.

Ég hygg líka, vegna þess hvað við höfum gott vatn hér í Reykjavík — það á ef til vill ekki sinn líka í víðri veröld —, að svo mætti fara, að við gætum flutt öl úr landi, jafnvel fyrir milljónir króna á ári. Við vitum, að síðustu árin hefir neyzla léttra öltegunda í Englandi stórum aukizt. Þeir drekka nú mikið af dönskum og þýzkum bjór, sem er léttari en hinn gamli enski bjór „stout“. Þetta hefir orðið til þess, að Englendingar sjálfir hafa orðið að breyta ölframleiðslu sinni og eru nú farnir að búa til léttari bjór, svonefndan „bash“.1)

1) Niðurlag ræðunnar vantar. — J. A. J.