02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í C-deild Alþingistíðinda. (11223)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. flm. þessa frv. hefir gert almenna grein fyrir ástæðum frv. og jafnframt fyrir afstöðu sjálfstæðismanna til þess og kjördæmamálsins. Ég mun nú gera grein fyrir afstöðu Alþýðuflokksins til frv. þessa.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og skýrt hefir verið af hv. 1. flm., frá meiri hl. þeirrar n., er starfað hefir milli þinga í kjördæmamálinu, og miðar að því að breyta stjskr. í það horf, að hægt sé að breyta kosningafyrirkomulaginu, en það verður eigi hægt með núv. stjskr. óbreyttri.

Þess má raunar geta, að Alþingi hefir aldrei sett í stjskr. positiv ákvæði, sem hindra breyt. á kosningafyrirkomulaginu og kosningaraðferðinni. Slík ákvæði koma fyrst inn í stjskr. 1915, þegar ákveðið er að kjósa nokkurn hluta þingsins með hlutbundnum kosningum um land allt; og virðist eftir það eigi hægt án breyt. á stjskr. að ákveða, að allir þingmenn skuli kosnir hlutbundnum kosningum, hvorki í einstökum, stórum kjördæmum, öðrum en Rvík, né um land allt, með því að ákveðið er, að kjördæmakosnir þingmenn skuli kosnir óhlutbundnum kosningum, í mótsetningu við landskjörið.

Þegar Hannes Hafstein flutti 1907 víðtækar breyt. á kosningalögunum, þá voru engin ákvæði í stjskr. því til fyrirstöðu, að hægt væri með einföldum lögum að samþ. hlutfallskosningar í stórum kjördæmum.

Jafnaðarmenn eru sammála sjálfstæðismönnum um það, að rétt sé að gera þær breyt. á stjskr., sem auðveldi breytingu á kosningalögunum. Er þetta líka í samræmi við frv. það, er fram kom á síðasta þingi og við tjáðum okkur þá samþykka. Og ennfremur, í samræmi við þetta, lagði ég fram á fyrsta fundi kjördæman. till., sem síðan var raunar aldrei endanlega gengið til atkv. um.

Það hefði náttúrlega verið æskilegt, að fulltrúar allra flokka í n. hefðu getað verið sammála um að bera fram stjskrbreyt. nú, og að þá um leið hefði orðið samkomulag í kjördæmaskipunarmálinu. En þó svo sé nú ekki, og þó sú stjskrbreyt., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá mundi það ekki þýða það, að endilega þyrfti að breyta kjördæmaskipuninni, en það opnaði aðeins möguleikana fyrir því að færa kjördæmaskipunina í það horf, sem óhætt mun að segja, að milli 60 og 70% landsmanna óska eftir eða krefjast.

Ég hefi ekki ennþá gefið út álit mitt í kjördæmaskipunarmálinu, en það er væntanlegt nú á næstunni, eins og segir í grg. fyrir þessu frv. En ég get sagt það, eins og líka kom fram á þinginu 1930 við umr. um þáltill., sem 3 af þm. Alþýðuflokksins fluttu þá um þetta mál, að við Alþýðuflokksmenn viljum leggja til grundvallar fyrir kjördæmaskipuninni, að allir kjósendur hafi jafnan rétt til áhrifa á fulltrúaval til Alþingis, sem er það sama og segir í 1. gr. stjskrfrv. þess, sem hér liggur fyrir. Ég þarf því ekki á neinn hátt að flytja fram ástæður fyrir því né réttlæta það, að Alþýðuflokkurinn tekur nú höndum saman við þá menn úr öðrum flokkum, eða í þessu máli Sjálfstæðisflokkinn, sem fallizt hafa á þessa kröfu, og er þeim sammála um að gera þá breyt. á stjskr., sem til þessa þarf. Og ég skal ekki heldur fara út í það nú, þó sú skoðun hafi ekki alltaf verið uppi í Sjálfstæðisflokknum, þar sem hann nú, að því er virðist, skipar sér óskiptur um þessa kröfu. Við Alþýðuflokksmenn teljum rétt að gleðjast yfir því, hver sem bætist við í þann hóp, sem hefir okkar skoðun á málunum, og viljum ekki hlaupa frá einhverju máli fyrir þá eina sök, að andstæðingarnir koma og segjast vera okkur sammála.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, er flutt af mér og fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í mþn. En þess er getið í ástæðunum fyrir frv., að ég sé þeim ekki að öllu leyti sammála, og skal ég því geta þess hér, að ég er þeim ekki alveg sammala um 2 atriði í frv., sem sé skipun Alþingis og eitt kosningarréttarskilyrðið. En þar sem þetta eru 2 atriði, sem eru svo mjög minni háttar, en aðalatriðið er í 1. gr. frv., og ég er þeim alveg sammála um það, þá mun ég ekki snúast gegn frv., þótt þau komist ekki inn í það. Og þó ég hefði tilhneigingu til að koma fram með brtt. við ýms atriði í frv., þá mun ég ekki né heldur minn flokkur leggja svo mikla áherzlu á þær, að við gerum nokkurt ósamkomulag út af þeim, heldur sætta okkur við, að frv. nái óbreytt fram að ganga eins og það liggur nú fyrir, þar sem við teljum mikið unnið við að fá samþ. þá aðalatriði, sem er í 1. gr. frv.

Ég sé ekki ástæðu til að gera nú frekari almenna grein fyrir afstöðu minni til frv. né til kjördæmamálsins í heild; ég mun gera það í nál. því, sem kemur frá mér nú á næstunni. En ég vil, út af till. hv. aðalflm. um skipun 5 manna n. til að taka þetta mál til meðferðar, gera þá fyrirspurn til stóru flokkanna, hvort þeir gætu ekki fallizt á, að Alþýðuflokkurinn fái einn mann í n., þó hann hafi ekki atkv.- magn til að koma neinum manni að. Ég skal rökstyðja þetta nánar. Eins og kunnugt er, hefir Alþýðuflokkurinn ekki atkv.magn til að koma manni í neina n. Frá honum er því ekki fulltrúi í neinni n. þingsins. En það stendur svo sérstaklega á með þetta mál, að það kemur frá mþn., sem búin er að ljúka störfum, og þar átti fulltrúi frá Alþýðuflokknum sæti. Það liggur því nærri að skoða starf stjskrn. hér í hv. d. sem framhald af því starfi, sem mþn. hafði með höndum, og þess vegna ber ég fram þessa fyrirspurn, sem ég vildi mælast til, að svarað yrði áður en gengið verður til atkv.