02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í C-deild Alþingistíðinda. (11226)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. hefir nú farið nokkrum orðum um störf mþn., og skal ég víkja að því nokkrum orðum. Hann fann að því, að í frv. þessu væri ekkert tillit tekið til þess grundvallaratriðis, sem n. hefði í öndverðu fallizt á að byggja till. sínar á og samþ. var á fyrsta fundi n. Brtt. þær, sem fulltrúar Framsóknarflokksins báru fram á 20. fundi n., urðu aldrei endanlega samþ., og það er ekki hægt að segja, hver er afstaða n. til þeirra. Þess vegna er ekkert réttara að leggja þær till. til grundvallar heldur en till. mínar á fyrsta fundi n., sem meiri hl. hennar var samþykkur.

Hæstv. forsrh. kom inn á stjórnarskrármálið og starf kjördæman., og skal ég í því sambandi skýra frá minni afstöðu til þeirra till., sem þar komu fram, enda þótt slíkar umr. ættu í rauninni að bíða, þangað til n. eða einstakir hlutar hennar hafa endanlega lokið störfum. Af störfum n. er það fyrst að segja, að fulltrúar sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna komu strax fram með tillögur í málinu, en Framsókn tregðaðist við og varðist þess lengi að koma með nokkrar tillögur, og loks þegar þær komu, eftir að n. hafði haldið 20 fundi, þá voru þær á þá lund, að ekki var við þeim lítandi. Hitt er alveg satt, að þeir fulltrúar Framsóknarflokksins lýstu því yfir, að þeir væru reiðubúnir til að tala áfram um þetta mál, en ég býst við, að ef hinir flokkarnir sættu sig við það að „tala við“ Framsókn um þetta mál í það óendanlega, þá gæti það dregizt nokkuð, að viðunandi lausn fengist á þetta mál. Hæstv. forsrh. hlýtur að sjá, að einhverntíma verður að koma að því, að aðhafzt verði í þessu máli. Vitaskuld getur enn orðið samkomulag, en það samkomulag verður þá að fara að koma. Í sambandi við till. sjálfstæðismanna um að halda núv. kjördæmaskipun en veita jafnframt uppbótarþingsæti, þá er þess að geta, að ég lýsti því yfir, að ég gæti til samkomulags fallizt á þennan grundvöll, svo fremi að n. öll gerði það. En fulltrúar Framsóknarflokksins gerðu hér um þann fyrirvara, að uppbótarsætin yrðu að vera mjög takmörkuð. Hinsvegar er það mín skoðun, að einfaldast sé og réttast að hafa allt landið eitt kjördæmi. Með því móti er öllum landsbúum, hvar sem þeir búa á landinu, tryggt þetta réttlæti, og með því móti njóta hinar ýmsu skoðanir sín bezt. En hinsvegar hnigu allar till. Framsóknar og uppástungur, sem fram komu í viðtali og á nefndarfundum, í þá átt, að takmarka till. sjálfstæðismanna svo mjög, að allsendis óviðunandi mátti telja. Þeir reyndu að gera mikils úr því, að þingmannatalan gæti orðið mjög há eftir till. sjálfstæðismanna, og það hefir jafnvel verið reiknað út, að þm. gætu orðið um 40 þús. að tölu, eða að til þess væri hugsanlegur möguleiki!! Þetta er vitaskuld hrein fjarstæða. Sjálfstæðismennirnir, sem standa að þessum till., gerðu ráð fyrir, að þm. yrðu 43 til 45 talsins, eða eitthvað þar um bil. Næst því að hafa landið eitt kjördæmi teldi ég bezt að hafa fá kjördæmi og hlutfallskosningu og uppbótarsæti, eða líkt og Hannes Hafstein stakk upp á 1907. Með því er sneitt framhjá þeim annmörkum, sem sumum þykir stafa af ókunnugleik þingmanna á högum landsbúa, ef allt landið væri eitt kjördæmi, enda er þetta tíðasta fyrirkomulagið erlendis. Hitt, að hafa landið eitt kjördæmi, er vitaskuld langbezta og einfaldasta lausnin frá mínu sjónarmiði.

Hæstv. forsrh. talaði af miklum fjálgleik um stjórnmálaþroska ensku þjóðarinnar. Hv. 1. landsk. svaraði því að nokkru, en þó að kosningatilhögun Englendinga sé sízt til fyrirmyndar, þá er þar ekki um aðrar eins öfgar að ræða og hér, að 36% kjósenda skipi meiri hluta þingsins. Hvað skyldu brezkir kjósendur hafa sagt, ef slíkt og annað eins hefði komið fyrir hjá þeim? Ég er hræddur um, að það hefði fljótt komi fram krafa um að breyta slíku kosningafyrirkomulagi. Hér á landi hefir ranglætið í kjördæmaskipuninni aldrei komið eins átakanlega í ljós og við síðustu kosningar.

Þó að hæstv. ráðh. hafi ekki látið neitt ákveðið uppi um afstöðu sína meira en það, sem kom fram í n., þá álít ég rétt, að þeir þingflokkar, sem vilja koma fram þessum breyt., eigi tal við Framsóknarflokkinn eða þingmenn úr flokknum. Ég álít, að þetta svar frá stjórnarfl. um afstöðu hans eigi að fara að koma, og það sem fyrst. Hin hlýju og góðu ummæli hæstv. forsrh. um að vilja leysa málið eru að vísu þakkaverð, en góðum orðum þarf líka að fylgja einhver framkvæmd. Og ég sé ekki betur en að nú séu einmitt heppilegir tímar til umbóta á þessum sviðum. Hæstv. ráðh. sagði, að nauðsynlegt væri að gera ýtarlegar ráðstafanir til þess að bæta úr atvinnukreppunni í landinu, en hinsvegar bolar ekkert ennþá á till. eða ráðstofunum frá stj. til þess að bæta úr ástandinu og atvinnuleysinu, sem orðið er mjög svo ískyggilegt. Mér er sagt, að umr. hafi orðið um þetta í Nd. í gær og fyrirspurn komið fram til stj. út af því, en að var hafi engin skýr svör fengizt um það, hvað stj. legði til þeirra mála.

Ég býst ekki við að taka til máls aftur við þessa umr., en vil að lokum ítreka þá ósk mína, að skýr svör verði veitt við því frá hv. þingflokkum þessarar þd. áður en til atkv. er gengið, hvort Alþýðuflokkurinn fái sæti í þeirri þingnefnd, sem kosin verður hér í þd. til þess að fjalla um þetta frv.