02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í C-deild Alþingistíðinda. (11227)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ræður hv. flm. þessa frv. gætu gefið tilefni til ýmiskonar aths. frá minni hálfu, en vegna þeirrar aðstöðu, sem ég hefi áður lýst, tel ég ástæðulaust að fara langt út í það nú og geymi mér það þangað til á síðari stigum málsins. Ég vil þó aðeins gera aths. út af því, sem hv. 1. landsk. lét í ljós undrun sína yfir, að ég hefði lýst eftir því höfuðatriði, sem vantaði í þetta frv., að héruðunum væri tryggur réttur til þess að hafa sína sérstöku fulltrúa á Alþingi. Hv. 1. landsk. þótti þetta undarlegt, þar sem ég hefði verið á móti þessu atriði, er legið hefði fyrir í till. meiri hl. kjördæman., stafl. 1, sem prentaður er á bls. 8 í grg. þessa frv. En ég skal þá geta þess, að sú till. kom aldrei formlega til atkv. í kjördæman., því að þá hefði ég þegar borið fram brtt. við hana í samræmi við þetta grundvallaratriði um rétt hinna einstöku kjördæma. Ég leit svo á, að n. hefði tekið afstöðu um þetta áður, um leið og grundvöllurinn var lagður að starfi n. og tillögum hennar um skipun kosninganna. Út frá þessu skoðað þarf hv. 1. landsk. ekki að undrast það, þó að ég álíti, að þetta grundvallaratriði um skipun kosninganna eigi að vera í stjórnarskránni.

Ég vil svo aðeins bæta einu við út af þeim ummælum hv. 1. landsk., þar sem hann kvaðst vera tortrygginn gagnvart orðum mínum um samkomulag í stjskrn. þeirri, sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar. Ég gæti með fullum rökum bent á, að ég hefi ekki síður ástæðu til að vera tortrygginn um afstöðu hv. 1. landsk. gagnvart því atriði, sem ég legg mesta áherzlu á í þessu máli, rétt héraðanna til sérstakra þingfulltrúa. Hann hefir lýst því yfir í kjördæman. og látið bóka, að hann gæti horfið frá því grundvallaratriði og fallizt á varatill. hv. 2. landsk. um að skipta landinu í fá stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Nú vil ég að vísu ekkert ala á þessari tortryggni gagnvart hv. 1. landsk., heldur vil ég mega ganga út frá því, að hann ætli að halda fast við það áform, að núv. kjördæmi haldi fulltrúaréttinum.

Ég tel ekki ástæðu til að gera sérstakar aths. út af ræðu hv. 2. landsk., en skal þó aðeins geta þess, að það ætti engum að vera kunnugra en honum, að Framsóknarflokkurinn ræður ekki lögum og lofum hér í d. Flokkurinn hefir aðeins 7 atkv. af 14 í þd., og þarf því á liðstyrk að halda frá hinum flokkunum til hægri eða vinstri, ef hann á að koma fram sínum málum.

Að því er nefndarskipunina snertir lít ég svo á, að eðlilegt sé, að fulltrúa Alþfl. verði bætt við til samstarfs við þá n., sem kosin verður til að fjalla um þetta frv.