04.04.1932
Efri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í C-deild Alþingistíðinda. (11243)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Sjálfstfl. (Jón Þorláksson):

Eins og gerð er grein fyrir í nál. meiri hl. stjskrn. á þskj. 259, hefir nefndin klofnað. Meiri hl., fulltrúar Sjálfstæðisfl. og Alþýðufl. í n., leggur til, að frv. verði samþ., og gerum við. hv. 2. landsk. grein fyrir ástæðum meiri hl., hvor af hendi síns flokks. Minni hl., fulltrúar Framsóknarfl., bera fram brtt. við frv. á þskj. 279, og snerta þær aðeins 1. gr. frv., sem fjallar um grundvallarreglurnar fyrir skipun Alþingis.

Eins og öllum ætti að vera ljóst, liggur ekki hér fyrir að ræða neinar uppástungur um lög viðvíkjandi alþingiskosningum eða kjördæmaskipun. Hér liggur aðeins fyrir að ræða um, hver grundvallaratriði um skipun þessara mála skuli tekin upp í sjálfa stjórnarskrána. Nú getur menn auðsvitað greint eitthvað á um það, hve langt stjskr. eigi að fara í þá átt að setja bindandi ákvæði um skipun Alþingis, tilhögun alþingiskosninga og kjördæmaskiptingu, eins og t. d. má sjá af brtt. minni hl. þykir mér því rétt að gera fyrst stuttlega grein fyrir því, hve langt stjskr. okkar hingað til hefir gengið í því að binda hendur hins almenna löggjafarvalds um þessi atriði, og hver venjan er um þetta efni í stjórnlögum annara Norðurálfuríkja.

Tala alþingismanna hefir hjá oss allt frá 1874 verið algerlega á valdi hins almenna löggjafarvalds. Að vísu hefir við hverja breyt. á stjskr. verið tekin upp í hana sú tala alþingismanna, sem þá var, en ávallt jafnframt tekið upp það ákvæði, að tölu þm. má breyta með lögum, og sú lagaheimild hefir oft verið notuð. Í æðimörgum af stjórnarskrám Norðurálfuríkja er þó tala þingmanna ákveðin, eða hámark sett fyrir þeirri tölu, en sumstaðar leiðir tilhögun kosninganna það beint af sér, að tala þm. er hvorki ákveðin í stjskr. né með almennum lögum, t. d. á Þýzkalandi.

Skipting landsins í kjördæmi hefir einnig ávallt verið almennt löggjafarmál hjá oss, ekkert um hana ákveðið í stjskr. Aðeins í einni stjskr., sem ég þekki, eru tekin upp ákvæði um kjördæmaskiptingu, þ. e. í stjskr. Noregs. Megn óánægja er með einstöku ákvæði í þeirri kjördæmaskiptingu, en stjskr.ákvæðin hafa staðið í vegi fyrir lagfæringu. Er þetta einstaka fordæmi því áreiðanlega fremur til aðvörunar en eftirbreytni. Aftur eru þess dæmi, að ákvarðanir um tölu kjördæma eru settar í stjskr. Þannig er t. d. í stjskr. Finnlands sett lágmark og hámark fyrir tölu kjördæma, en þar á milli getur löggjafarvaldið ákveðið tölu kjördæmanna á hverjum tíma eftir því, sem henta þykir.

Um kosningaraðferðina ákveður núgildandi stjskr. Íslands, að 6 alþm. (landkjörnir) skuli kosnir hlutfallskosningum, að þm. Reykjavíkur (sem stendur 4) megi kjósa hlutfallskosningu, og að alla hina, sem stendur 32 að tölu, megi ekki kjósa hlutfallskosningum. Þessi ósamstæðu og að sumu leyti ófrjálslegu ákvæði um kosningaraðferðina eru einsdæmi í stjórnarskrám Norðurálfunnar. Bann gegn hlutfallskosningu nokkurra þjóðarfulltrúa er nú ekki til í neinni stjskr. Norðurálfunnar utan Íslands.

Ég hefi kynnt mér stjórnlagaákvæði um þetta í 19 ríkjum Norðurálfunnar utan Íslands. Í 4 þeirra eru engin stjskr.ákvæði um kosningaraðferð til löggjafarþingsins, og búa 2 þeirra ennþá við kosningar í einmenningskjördæmum (England og Frakkland), en 2 hafa lögleitt hlutfallskosningar með einföldum lögum. Í stjórnarskrám 14 ríkja eru beinlínis fyrirskipaðar hlutfallskosningar, og alstaðar framkvæmdar sem hlutfallskosningar í fleirmenningskjördæmum. Í einni stjskr. (Danmerkur) er sjálf kosningaraðferðin látin frjáls, en fyrirskipað, að lagaákvæðin um hana skuli tryggja hinum mismunandi skoðunum meðal kjósendanna, þ. e. landsmálaflokkunum, hlutfallslega jafna fulltrúatölu. Þetta er einnig þar framkvæmt með hlutfallskosningum í fleirmenningskjördæmum. Heildarniðurstaðan af þessu er sú, að í 14 ríkjum eru hlutfallskosningar ákveðnar með stjkr.fyrirmælum, en í hinum 5 ríkjunum eru engin stjskr.fyrirmæli um kosningaraðferðina.

Um kosningarréttinn eru ákvæði í flestum stjórnarskrám. Í þessu sambandi þarf þó aðeins að geta þess, að í flestum eða öllum nýlega sömdum stjskr. er berum orðum ákveðið, að kosningarrétturinn skuli vera almennur og jafn, en sömu grundvallarreglur eru nú að mestu komnar til framkvæmdar einnig í þeim löndum, sem búa við eldri stjskr., þar sem þetta er ekki beinum orðum fram tekið.

Upphaf þeirrar stjskrbreyt., sem hér er til meðferðar, er nú það, að framsóknarstj. lagði fyrir vetrarþingið 1931 frv. um breyt. á stjskr., sem fór fram á þá eina breyt. á skipun Alþingis, að landskjörið, þ. e. hlutfallskosning á 6 þm., skyldi falla niður. Nú er kosningaraðferðin að því er þessa 6 þm. snertir einmitt í góðu samræmi við réttarmeðvitund núna, þótt tilhögunin í framkvæmd gæti verið kostnaðarminni, umsvifaminni og hentugri en nú er. Það var vitanlega einungis af flokkshagsmunaástæðum, að framsóknarstj. stakk upp á þessu. Eftir núv. flokkaskiptingu er útlit fyrir, að landskjörið muni við næstu kosningar, sem fram fara 1934, gefa sjálfstæðisflokknum helming atkv. í þessari þingdeildinni og þar með stöðvunarvald gegn löggjöf, sem er andstæð stefnu þess flokks. Þetta stöðvunarvald átti að fyrirbyggja með afnámi landskjörsins.

Andstæðingaflokkar Framsóknar hér í deildinni tóku þessari uppástungu ekki illa að því leyti, að þeir lögðust ekki á móti afnámi landskjörsins, en juku þar við þeirri breyt., að heimilt skyldi að lögleiða hlutfallskosningar í öðrum kjördæmum en Reykjavík. Þetta var samþ. hér í d. við 2. umr., en svo komst málið ekki lengra, því að þá dundi yfir þingrofið 14. apríl 1931. Síðan fóru fram kosningar 12. júní 1931, og eftir þær er þingið þannig skipað, að Framsóknarfl., sem hreppti 35,9% af gildum atkv. við kosninguna, og eftir því ætti að hafa á þingi 15 fulltrúa af 42, hefir nú 23 þingsæti, eða rífan meiri hluta.

Í 1. gr. þessa frv. er nú lagt til, að grundvallarákvæði stjskr. um skipun Alþingis verði orðuð þannig:

„Á Alþingi eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar. Alþingi skal svo skipað, að hver þingflokkur hafi þingsæti í samræmi við atkvæðatölu þá, sem greidd er frambjóðendum flokksins samtals við almennar kosningar“.

Með þessu ákvæði er ekkert fyrirfram bundið um tölu alþingismanna, kjördæmaskiptingu eða kosningaraðferð. Hér er aðeins slegið föstum þeim tveimur atriðum viðvíkjandi skipun Alþingis, sem eftir eðli sínu eru grundvallaratriði og þess vegna eiga heima í stjskr. Hið fyrra, að allir alþm. skuli vera kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Hið síðara, að Alþingi hvað atkvæðamagn snertir skuli vera hlutfallslega rétt mynd af þeim skoðunum og stefnum, sem uppi eru meðal þjóðarinnar og skipta henni í landsmálaflokka. Þetta er sama sem að segja, að kosningarrétturinn skuli vera jafn fyrir kjósendur, hvaða landsmálaskoðun sem þeir aðhyllast. Ég vil nú athuga ákvæði þessarar gr. nokkru nánar í sambandi við hvert þeirra fjögurra mála, sem ég áður hefi minnzt á, sem er tala alþingismanna, kjördæmaskiptingin, kosningaraðferðin og jafnrétti kjósendanna.

l. Tala alþingismanna. Hér á landi hefir hún aldrei verið bundin af stjskrákvæði, eins og um var getið. Reynslan hefir sýnt, að öðruhverju hefir þótt brýn þörf á að fjölga alþm., til þess að fullnægja kröfum vaxandi fjölmennis á ýmsum stöðum landsins um þátttöku í skipun Alþingis, án þess að rýra um leið þátttöku annara. Með tilvísun til þessarar

reynslu teljum við varhugavert að fara nú inn á þá braut að fastskorða tölu þm. með stjskr.ákvæði. Hér við bætist, að á síðari tímum hafa komið upp kosningaraðferðir, sem gera það ýmist sérstaklega óhentugt eða alveg ókleift að hafa tölu þjóðarfulltrúanna alveg fastákveðna með lagaboði eða stjskr.ákvæði. Má þar til nefna hlutfallskosningar í sambandi við einmenningskjördæmi, þar sem mjög er æskilegt að tala uppbótarsætanna geti verið eitthvað hreyfanleg, eftir því hve mikið misræmi milli flokka kemur fram við kjördæmakosninguna. Ennfremur hina þýzku kosningatilhögun, sem felur það í sér, að hver þingflokkur fær eitt þingsæti fyrir tiltekinn atkvæðafjölda (í þýzka ríkinu fyrir hver 60 þús. atkv.), sem flokknum áskotnast við kosningar. Þar ákveðst tala þingmanna að lokum af kjörfundarsókn. Hugsum oss t. d., að hér yrði ákveðið, að hver þingflokkur fengi eitt þingsæti fyrir hver 1000 greidd atkv. Þá væri tala þingmanna ekki fyrirfram ákveðin, en gæti þó ekki vaxið úr hófi, og færi eitthvað vaxandi með fólksfjölguninni í landinu. Við teljum því sérstaklega ókleift að fastákveða tölu þingmanna meðan ekki er fengið samkomulag um endanlega tilhögun á kjördæmaskiptingu og kosningaraðferð. En af hálfu okkar sjálfstæðismanna í n. get ég lýst yfir því, að ef samkomulag næst um kjördæmaskiptingu og kosningaraðferð, og í sambandi þar við þykir æskilegt að setja takmörk fyrir fjölda þm., þá erum við reiðubúnir til samkomulags þar um, hvort sem væri með því að setja hámarksákvæði fyrir tölu þm. eða með því að binda tölu þm. við tölu greiddra atkv. við kosningar. Og sérstaklega vil ég taka það fram, að ef samkomulag fengist um þá kosningatilhögun í aðalatriðum, sem við höfum stungið upp á í mþn., þá erum við reiðubúnir til þess að samþ. takmörk fyrir tölu þm., þannig að þeir t. d. geti ekki farið fram úr 50, eins og landsfundur sjálfstæðismanna í febr. þ. á. samþykkti og vikið er að í nál. okkar, þskj. 37, bls. 32, sem sent hefir verið mörgum kjósendum víðsvegar um land. En samkv. þeim till. og með sæmilega skynsamlegum ákvæðum í kosningalögum mundi tala þm. venjulega verða milli 42 og 45.

2. Kjördæmaskiptingin. Frv. fylgir þeirri reglu, sem hingað til hefir verið ríkjandi hér og í nálega öllum öðrum löndum, að taka engin ákvæði um kjördæmaskiptinguna, þ. e. stærð og takmörk kjördæmanna, upp í stjskr. Með till. okkar sjálfstæðismanna í mþn. höfum við sýnt fram á það, að vel er unnt að fullnægja réttlætiskröfunni í þessari frvgr., þótt núv. kjördæmaskiptingu sé haldið óbreyttri. Auðvitað er líka unnt að fullnægja henni með svo að segja hverri annari kjördæmaskipun, sem menn vildu hugsa sér. Ég læt mér því nægja að sinni að slá því föstu, að greinin, eins og hún hér er orðuð, lætur löggjafarvaldinu fullkomlega óbundnar hendur um kjördæmaskipunina. Einnig lætur hún allt óbundið um fulltrúatölu hinna einstöku kjördæma. Frá sjónarmiði þeirra, sem hafa einhverjar sérstakar óskir um kjördæmaskiptingu og fulltrúafjölda hinna einstöku kjördæma, er því ekki unnt að hafa neitt á móti ákvæðum þessarar greinar.

3. Kosningaraðferðin. Einnig um hana lætur frv. allt óbundið, og fylgir þar fordæmi þeirra 5 Norðurálfuríkja, sem ekki hafa fyrirskipað hlutfallskosningar í stjskr. sínum. En krafan um flokkslegt jafnrétti kjósenda gerir þó vissar kröfur um tilhögun kosninganna, þannig, að annaðhvort verður að viðhafa hlutfallskosningar beinlínis, eða þá að hafa uppbótarsæti til jöfnunar á því misræmi, sem kann að koma fram við kosningar í mörgum kjördæmum með einum eða fáum fulltrúum kosnum í hverju.

Þótt kosningaraðferðin sé látin óbundin í þessu frv. og enginn geti haft á móti þessari 1. gr. fyrir það, að hann aðhyllist fremur eina kosningaraðferð en aðra. Þykir mér rétt að benda hér á, hvað menn virðast vera sammála um í þessu efni. Öllum kemur saman um að hafa hlutfallskosningu í kjördæmi eins og Rvík, sem við sjálfstæðismenn höfum stungið upp á að kysi 4 kjördæmiskosna þm., eins og nú er, en framsóknarmennirnir í brtt. sínum vilja fjölga upp í 8. Ennfremur er það sjálfgefið, að í einmenningskjördæmum verður eiginlegri hlutfallskosningu ekki komið við. Aftur virðist ekki vera fullt samkomulag um

kosningaraðferð í tvímenningskjördæmum, ef þeim yrði haldið að einhverju leyti, enda hefir það atriði sama sem ekki komið til umr. hingað til. En það er þó auðséð, ef menn viðurkenna réttlæti hlutfallskosningar, þegar kjósa á þrjá fulltrúa samtímis, eins og nú er við landskjör, eða 4 samtímis, eins og nú er í Rvík, þá er jafnsjálfsagt að beita hlutfallskosningu þegar kjósa á tvo menn samtímis í sama kjördæmi. Í þinglögum Svía, sem annars hafa engin tvímenningskjördæmi, er svo fyrir mælt, að hlutfallskosningum skuli beita þá er kjósa skal tvo eða fleiri fulltrúa samtímis. Ákvæðið er orðið þannig, af því að þetta er hugsunarrétt, þó að þar komi aldrei fyrir kosning á tveim þm. samtímis. Innan Alþingis eru sömu reglur lögleiddar og þykja sjálfsagðar, t. d. við kosningu skrifara (tveggja samtímis) í þingdeildum og sameinuðu þingi. Og þetta sama mun þykja sjálfsagt alstaðar þar, sem hlutfallskosningar annars eru notaðar. Og úr því að menn eru hér á landi sammála um að nota þær við kosningu þriggja eða fleiri þm., þá er alveg sjálfsagt að taka þær upp einnig við tveggja manna kosningar.

4. Jafnrétti kjósendanna. Það er orðin viðurkennd grundvallarregla og undirstaða þjóðskipulagsins í lýðfrjálsum ríkjum nú á tímum, að kosningarréttur borgaranna á að vera jafn. Einstöku leifar af mismunandi atkvæðisrétti fyrir alla eru enn eftir hjá íhaldssömustu þjóð álfunnar, Englendingum, þar sem atvinnurekendur og háskólaborgarar geta undir vissum skilyrðum neytt atkvæðisréttar í tveim kjördæmum við sömu kosningarnar.

Jafnréttiskröfunni hafa menn reynt að fullnægja með tveim mismunandi aðferðum. Önnur, sem kalla mætti hið staðarlega jafnrétti, er í því fólgin að láta jafnmarga íbúa eða jafnmarga kjósendur vera um hvern þm., hvar sem er í landinu. Þessari aðferð er t. d. beitt í þeim tveimur löndum, Englandi og Frakklandi, sem ennþá búa við kosningu í einmenningskjördæmum, og er gert þar með því að breyta öðruhverju takmörkum kjördæmanna, svo að þau verði sem jöfnust að mannfjölda. Það má heita, að þessi leið sé óframkvæmanleg hér, ef menn vilja halda kjördæmaskiptingu á svipuðum grundvelli og nú er. Skiptingin í sýslur og kaupstaði ræður kjördæmaskiptingunni, og menn mundu alls ekki vilja fara að slíta hluta úr hinum fjölmennari sýslufélögum og leggja við hin fámennari til þess að jafna kjördæmin. Ég skil ekki, að nokkur maður treysti sér til að leysa þá þraut að skipta landinu í 36 eða 42 nokkurnveginn jafnfjölmenn einmenningskjördæmi, svo viðunandi þætti. Hin aðferðin, sem kalla mætti hið flokkslega jafnrétti, er víðast hvar notuð og er í því fólgin að tryggja hverjum flokki, eftir því sem unnt er, þingsæti að réttri tiltölu við fylgi hans meðal kjósenda landsins í heild. Þessi leiðin er valin í frv. Brtt. minni hl. ganga framhjá báðum þessum aðferðum.

Í orði munu nú allir Íslendingar vilja viðurkenna, að kosningarrétturinn eigi að vera jafn. En þegar til framkvæmdarinnar kemur, verður þess æðimikið vart úti um land, að mönnum finnst, að fjölmennið í Rvík þurfi ekki að njóta fulls jafnréttis um þingsætatölu við aðra landsmenn, sem búa dreifðir. Út af þessu vil ég sérstaklega leiða athygli að því, að krafan um flokkslegt jafnrétti, sem borin er fram í þessu frv., felur ekki í sér beina kröfu um það, að jafnmargir íbúar komi á hvern þm. hvar sem er á landinu. Þar er því ekki sérstaklega borin fram nein krafa um fulla hlutfallslega þingmannatölu fyrir höfuðstaðinn eftir fólksfjölda. En samt sem áður þykir mér rétt að draga hér fram nokkur atriði til stuðnings því máli, að óráðlegt er að ætla sér að gera Reykvíkinga að annars flokks eða síðri réttar borgurum í þjóðfélaginu. En það er gert, ef menn hvorki vilja veita þeim staðarlegt né flokkslegt jafnrétti við aðra landsmenn.

Árið 1890 töldust landsmenn tæp 71 þús., og bjuggu flestir í sveitum. Þá hafði landsfólkinu ekki fjölgað neitt síðustu 20 árin, af því að sem svaraði viðkomunni hafði stöðugt flutzt til Vesturheims, kringum 1000 manns árlega. Tala býlanna í landinu setti takmörk fyrir fólksfjölda sveitanna. Eftir 1890 fór að draga úr burtflutningi fólksins, því fer að fjölga við það, að fólkið flytur í bæi og þorp innanlands. Um 1895 varð landbúnaðurinn fyrir því rothöggi, að Englendingar tóku fyrir innflutning lifandi sauðfjár, sem hafði verið arðsamasti atvinnuvegur Íslendinga undanfarin ár. Landbúnaðurinn hefir ekki ennþá náð sér eftir þetta áfall, en nú eru vaxnir upp kaupstaðir í landinu og kauptún með samtals nærri 60 þús. íbúum, eða meira en helmingi alls fólksfjöldans í landinu. Landbúnaðurinn hefir átt við svo að segja stöðuga erfiðleika að stríða síðan 1895 að því er snertir þolanlega afurðasölu til útlanda. Hið eina, sem þar hefir vegið á móti, er hinn sívaxandi markaður í kaupstöðunum innanlands fyrir landbúnaðarafurðir. Er nú svo komið, að kaupstaðirnir á Suðvesturlandi taka við nærfellt öllum landbúnaðarafurðum úr 6 sýslum, að undanskilinni ull og gærum, og talsverðu frá öðrum landshlutum. Kreppan fyrir útflutningsvörur landbúnaðarins er sem stendur harðari en nokkru sinni fyrr, en þeir, sem geta notið innlenda markaðarins, bera miklu skárri hlut frá borði. Sem stendur er ekki annað sjáanlegt en að eina örugga framtíðarvon landbúnaðarins byggist á framhaldandi vexti og viðgangi kaupstaðanna og þeirra atvinnuvega, sem þar eru að skapa sívaxandi markað fyrir landafurðir, en það eru fiskiveiðar, iðnaður og verzlun.

Jafnframt þessum vexti kaupstaðanna hafa verið lagðar sívaxandi upphæðir í skattgjöldum til ríkissjóðs, sem hann hefir svo aftur varið til greiðslu kostnaðar við aukið sjálfstæði þjóðarinnar og til menningarstofnana og verklegra umbóta, ekki hvað sízt til vegabóta, brúagerða, símalagninga og ræktunarfyrirtækja í sveitum landsins. Auðvitað hefir hinn aðkreppti landbúnaður ekki lagt fram féð til þessa að neinum verulegum mun. Það hafa verið og eru atvinnuvegir kaupstaðanna og kauptúnanna og sjóþorpanna, sem bera hinar sívaxandi byrðar. Og Rvík hefir borið og ber tiltölulega langmest. Árið 1929 guldust ríkissjóði 16,3 millj. kr. í sköttum, tollum og öðrum rekstrartekjum. Af þessu guldust rúmlega 61%, eða rétt um 10 millj., í Rvík einni saman, samkv. sundurliðaðri skrá, að mestu leyti eftir landsreikningunum og að litlu leyti eftir varlegri áætlun, sem ég er viðbúinn að birta opinberlega. Eftir fólksfjölda í Rvík og utan Rvíkur þetta sama ár hafa í Rvík goldizt í ríkissjóðinn 375 kr. á hvert mannsbarn, en utan Rvíkur 80 kr. á hvert mannsbarn.

Þannig ber Rvík af afrakstri atvinnuvega sinna byrðar ríkisbúskaparins langt umfram aðra landsmenn að meðaltali. Með kaupum sínum á innlendum afurðum heldur hún ennfremur uppi landbúnaðaratvinnu nærliggjandi sýslna. Það þýðir ekki að ætlast til þess, að íbúar Rvíkur láti gera sig að annars flokks borgurum það snertir rétt til meðferðar á sameiginlegum málum þjóðarinnar. Um flokkslegt jafnrétti láta þeir ekki neita sér, hvað sem hinu staðarlega jafnrétti líður.

Vöxtur kaupstaðanna í landinu og atvinnuvega þeirra er stærsta framförin, mesta umbótin á þjóðarhögum, sem hér hefir gerzt síðan á landnámstíð. Við framhald þess vaxtar eru tengdar vonir okkar um getu til aukins sjálfstæðis, um áframhaldandi verklegar framfarir og um endurreisn landbúnaðarins í sveitunum. Engir óbótamenn í landinu vinna eins illt verk og þeir, sem eru að reyna að blása inn í þjóðina hatri eða andúð milli sveita og kaupstaða, milli landsins og höfuðstaðar þess.

Till. okkar sjálfstæðismanna í kjördæmamálinu eru sameiningartillögur. Þær fela það í sér, að flokksbræður og skoðanabræður í kaupstöðum og sveit taka höndum saman við talningu atkv., og hver fær sinn fulla rétt, enginn gengur á annars rétt. Þetta er grundvallarskilyrði fyrir góðri og friðsamlegri sambúð.

Brtt. framsóknarmanna við þetta frv. eru sundrunartill. Þær fara fram á fullkomna aðgreiningu höfuðstaðarins og landsins og bjóða íbúum höfuðstaðarins ekki upp á jafnrétti við aðra landsmenn í neinum skilningi. En ég veit, að þetta eru ekki þær endanlegu till. frá framsóknarmönnum í þessu máli. Ég veit, að innan þess flokks herjast nú fáeinir menn fyrir því að leiða flokkinn inn á braut samkomulagsins í þessu máli. Ég óska, að gæfa landsins styðji þá til að yfirvinna það skilningsleysi og þá mótstöðu, sem þeir eiga við að etja. Takist það ekki, þá ber Framsóknarfl. einn ábyrgð á eftirköstunum.