13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í C-deild Alþingistíðinda. (11262)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Eftir að þessi litla brtt., sem ég leyfi mér að bera hér fram einn míns liðs, var prentuð, hefi ég orðið var við, að ýmsa menn hefir furðað á því, að slíkt skyldi koma frá mér. Hefir ýmsum getum verið um það leitt, en enginn hefir enn komið nærri því, sem var hin eðlilega ástæða til þess, að ég bar þessa till. fram. Hún var ósköp einföld og liggur mjög nærri. Hún var sú, að mér fannst það liggja í loftinu, að frv. — jafnvel eins og það liggur nú fyrir — myndi verða samþ. hér út úr d. Fannst mér það þá viðkunnanlegra, að það væri dálítið meiri sveitalykt af því en nú er. Í öðru lagi þykist ég hafa orðið var við, að allar umr. og málaleitanir um þessa stjskr.breyt. eru miklu hógværari og sanngjarnari en áður hefir verið. Ég get ekki neitað því, að það hefir jafnvel orðið stór breyt. á í þessu efni frá því, er þing kom saman, og mér finnst satt að segja, að menn líti sanngjarnari augum á málið með degi hverjum, eftir því sem það er betur rætt. Sérstaklega hefi ég orðið var við, að menn eru farnir að sjá, að margar leiðir geta legið að sama marki — að gera kjósendur landsins nokkurnveginn ánægða, a. m. k. að kosningarréttinum verði þannig fyrir komið, að menn megi vel við una og ekki verði réttur neins kjördæmis fyrir borð borinn. Ég skal ennfremur geta þess, sem ég reyndar tók fram við 2. umr. málsins, að mér finnst óviðkunnanlegt, að kjördæmaskipunin verði ákveðin í stjskr., og þá sérstaklega fyrir þær sakir sem komu greinilega fram í brtt. mínum þá, að mér fannst kjördæmaskipunin eins og hún var sett í stjskr. ekki fullnægja því réttlæti, sem kjördæmin geta gert til slíkrar skipunar, jafnvel nú, hvað þá seinna, eftir því sem mannskipunin breytist í landinu. Af þessu er það skiljanleg hugsun hjá mér að slá aðaldeilunum um kjördæmaskipunina á frest þangað til kosningalöggjöfin á sínum tíma verður tekin til meðferðar.

Í þessum till. felst þrennt. Í fyrsta lagi það, að stjskr. ákveður, að tala þm. skuli aldrei vera meiri en 45. Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu, að þm.talan sé minni, og eins og hv. dm. vita, óska ég fyrir mitt leyti eftir, að þeir verði ekki fleiri en 42 samkv. till. mínum, sem ég bar fram við 2. umr., en ég hefi ekkert á móti því, að þm. talan yrði lægri. — Í öðru lagi er það, að um fulltrúa Rvíkur kemur til að gilda alveg sérstök skipan. Með því er þá slegið föstu og lýst yfir í stjskr., að Rvík eigi ekki samleið með hinum kjördæmunum. — Í þriðja lagi liggur það í þessum till. að gera ráð fyrir einhverjum takmörkunum uppbótarsæta utan Rvíkur, eftir því sem við verður komið. Innan þessara takmarka eru allar leiðir opnar um kjördæmaskipun og ekkert af tekið, hver skuli vera gerð. M. a. vil ég taka það fram, að ég verð að líta svo á, að kjördæmaskipun eins og nú er, eiga eitthvað líkt því, gæti vel komizt fyrir innan þessara takmarka, og það liggur í því, að ég legg áherzlu á, að þingmannatalan takmarkist við 45.

Ég fer hér í spor hv. sjálfstæðismanna með takmörkun uppbótarsætanna, eða hvað mikið þingflokkarnir eigi að fá upp í þau skörð, sem í þá eru höggin í einstökum kjördæmum. M. ö. o., því færri sem kjördæmin yrðu, þess fleiri yrðu uppbótarsætin. En um þetta atriði er óþarft að deila nú: Þetta yrði auðvitað tekið rækilega til meðferðar, þegar farið yrði að ræða um kjördæmaskipun samkv. þessari stjskrbreyt., sem enn er ósamþykkt. Ég hefi sagt það áður, að ég lít svo á, að hið almenna löggjafarvald eigi að hafa færi á að líta til með skipun kjördæma og þingfulltrúa, eftir því sem á stendur í landinu. Í því sambandi get ég lýst yfir því, að ég er á móti öllum stórum stökkum í þessu máli. Ég held, að ekki sé rétt að umhverfa í einu vetfangi öllum þeim grundvelli, sem löggjafarstarfsemi okkar er byggð á; miklu réttara væri að þoka sér smátt og smátt áfram. Hinsvegar er það um stjskr. að segja, að hún á að vera svo rúm, að hún geti verið nothæf um langt árabil. Og þó að ég hafi sagt, að ég líti svo á, að núv. kjördæmaskipun gæti fallið undir réttláta stjórnarskrárumgerð, þá er ekki sagt með því, að ég sé á móti öllum breyt. Við 2. umr. þessa frv. bar ég fram brtt. um að fjölga kjördæmum, en þar með er ekki sagt, að ég geti ekki verið með því að fækka kjördæmum undir vissum kringumstæðum. Ég lít svo á, að þau litlu kjördæmi, sem nú eru að burðast með þm., en fegin vilja losna við hann, eigi að fá það. Smæstu kjördæmin eiga engan rétt á þm. samkv. höfðatölu, og fyrst þau vilja endilega losna við hann, því þá ekki að leyfa þeim það? — Þetta, sem ég nú hefi talað, var um tvö atriðin, sem mestu máli skipta, tölu þm. og uppbótarsæti. Ég hefi gert ráð fyrir, að Reykjavík komi ekki til greina með uppbótarsæti, heldur verði skoðuð sem nokkurskonar ríki í ríkinu. Rökin fyrir því hefi ég margendurtekið, bæði á þingmálafundum og síðast hér við 2. umr. þessa máls, og skal nú enn taka til þau helztu. Það hefir verið bent á það ómótmælanlega, að þar sem eitt kjördæmið er margfalt stærra en nokkurt hinna, verði að gilda urri það sérstök ákvæði. Þetta er t. d. fullkomlega viðurkennt hjá frændþjóðum okkar. Hér á landi stendur einmitt svona á, eitt kjördæmið hefir meir en ¼ landsmanna, og eftir því, sem fram hefir farið nú að undanförnu, eru allar líkur til þess, að við þá tölu bætist stórum í framtíðinni. Slíkir höfuðstaðir sjúga til sín fólk og aukast líka að landvinningum. Hv. 1. landsk. hefir hvað eftir annað við umr. þessa máls talað um, að með till. framsóknarmanna væru Reykjavíkurbúar gerðir að 2. flokks borgurum. Ég get ekki samsinnt það, og ég held, að ekki væri hægt að gera Reykvíkinga að 2. flokks borgurum. Þeir eru l. flokks borgarar, en við, í hinum kjördæmunum, erum 2. flokks borgarar, eða 3. flokks, eða úrhrak!

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál, en skal að endingu segja dálitla sögu. svo að mönnum sé ljóst, við hvað ég á:

Það var einu sinni læknir nokkur á Norðurlandi, sem sótti um hérað á Suðurlandi. En menn risu almennt á móti honum í þessu héraði, söfnuðu undirskriftum á áskoranir, þar sem hann var varaður við að sækja, sagt að hann yrði ekki sóttur, o. s. frv. Og eitt af því, sem notað var við undirskriftasöfnunina, var það, að hann væri svo þungur, að enginn hestur gæti borið hann. Þessi maður var ekki mikill á velli, áreiðanlega hvorki hærri né þyngri en hv. 1. landsk. Skömmu eftir að læknirinn kom í héraðið, kom hann út í Ölfus og hitti þar einsýnan hreppstjóra. Hann horfði stundarlangt á lækninn, með sínu eina auga, og sagði að lokum: „Það hlýtur að vera þungt í yður pundið“'

Þetta er það, sem mér finnst: Að pundið í Reykvíkingum sé allt of þungt. Við getum hugsað okkur, að læknirinn hefði getað orðið svo þungur, að enginn hestur hefði getað borið hann. Við getum hugsað okkur hann með gullsöðul, gullbeizli, gullistöð og reiða smelltan silfri, með gullhjálm, gullbrynju, gullskjöld, gullinhjalta og gullrekið spjót, og með þessu hefði hann getað hlaðið svo miklu utan á sig, að enginn hestur hefði getað borið hann.

Það dæmi, sem ég vil draga af þessari líkingu, er það, að auðvaldið í Reykjavík er svo magnað, að ætti það að ráða eftir höfðatölureglunni, gætu allir hinir landshlutarnir ekki staðið undir því.

Við vitum það öll, að þegar barizt er, dugir ekki að fara eingöngu eftir höfðatölunni, þá veltur líka mikið á því, og jafnvel engu minna, hvernig menn eru vopnaðir. Með vopnin erum við sveitakarlarnir illa settir. Við höfum ekki nema lurka, sem við getum náð í í skógarleifum, þar sem hann þá er að finna, eða þá búið okkur til barefli úr rekavið. Reykvíkingar hafa her manns, og þeir hafa eitt vopn umfram aðra landshluta. Í Heljarslóðarorustu er sagt frá manni, sem var nokkuð skrítilega vopnaður. Hann hafði vafið utan um sig stóru upplagi af bók, og úr því hnoðaði hann bréfkúlur og skaut, og varð það mjög að skaða. En ef hann hrækti í kúlurnar, urðu þær hverjum, sem fyrir varð, að bana. Þá líkingu má draga af þessu, að frá Reykjavík er dreift ósköpunum öllum af rituðu máli út um hinar dreifðu byggðir landsins, og við, sem byggjum þær, eigum engan kost þess að svara í sama máta, en með því troða Reykvíkingar skoðunum sínum upp á aðra landsmenn.

Ég vona, að menn skilji, hvað ég á við. Ég tel það háskalegt, að Reykjavík fái þm.tölu eftir fólksfjölda sínum. Þegar talað er um þessi mál, er oft gott að líta aftur í tímann. Ísland er eitt af þeim fáu ríkjum, þar sem lög og ríki var sett með samningum manna á meðal. Og grundvallarhugsunin, sem gengur í gegnum alla stjórnarsögu okkar, er sú, að láta ekki einn landshluta ná yfirhönd yfir öðrum, svo að jafnvægið haldist sem bezt. Þegar breytingin varð, árið 965, var Norðlendingafjórðungurinn stærstur, og vildi fá völd með tilliti til stærðar sinnar. En sú skipun, sem þá var gerð til þess að jafnvægi héldist, er vafalaust mesta meistarastykki, sem eftir forfeður vora liggur. Sama var uppi á teningnum þegar Alþingi var stofnað að nýju. Þá var gengið svo langt í því að gera héruðum jafnt undir höfði, að búið var til kjördæmi, sem enginn kjósandi var í, og varð því kjördæmið af þm. Þessari stefnu er haldið áfram í stjskr. frá 1874, og henni hefir verið haldið allt til okkar daga. Smátt og smátt hefir verið bætt úr þeim göllum, sem á hafa orðið, en þó alltaf séð fyrir því, að allir landshlutar ættu talsmenn á Alþingi, sem sérstaklega var kunnur ástæðum manna og atvinnuvega í þeim landshluta. Þetta hefir bændavaldið gert, og Reykjavík hefir þar ekkert orðið útundan. Þessari stefnu tel ég hyggilegt að halda áfram, og fara sér hvergi óðslega.

Að síðustu vil ég minnast á atriði, sem fyrst og fremst á að koma til greina. Það er sú regla, að skipun fulltrúaráðs þjóðarinnar væri á þann veg, sem bezt hentaði öllu landinu. Á þetta hefir enginn minnzt í þessum umr. Það annað, sem hér hefir verið rætt um, verður allt að skoðast í því ljósi, hvað sé heillavænlegast fyrir landið allt. Og það er alls ekki heillavænlegt fyrir landið að auka stórum vald Reykjavíkur frá því, sem nú er.