14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í C-deild Alþingistíðinda. (11271)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Alþfl. (Jón Baldvinsson):

Ég hélt nú, að ég ætti eftir eina ræðu: (Forseti: Þm. hefir haldið tvær ræður; hvers vegna hélt hann, að hann ætti eina eftir, þegar hann hefir talað tvisvar?) Já, það er í nál. talað um tvo frsm. (Forseti: En enginn nefndur. Jæja. þm. getur talað — hann er nú aldrei mjög langorður!!). — Ég skal þá fyrst víkja að ræðu hv. 3. landsk., sem talaði síðast og vék örfáum orðum að ræðu minni í dag. Hv. þm. vill ekki kenna hæstv. forsrh. um það, að ekki varð lausn á kjördæmaskipunarmálinu í mþn., og kallaði hann lipran og samningaþýðan og drengskaparmann. Þetta skal ég allt saman undirskrifa með honum. En ég hélt einmitt, af því hann hefir þessa kosti, að hann mundi nú nota þessa ágætu kosti sína til að koma á samkomulagi, af því að hann tekur sjálfur sæti í n. Annars finnst mér það dálítil minnkun fyrir hæstv. forsrh. með alla þessa góðu kosti, að honum skyldi ekki takast að leysa þetta mál, og ég býst við, að fleiri liti svo á. En svo skal ég nú láta útrætt um það að öðru leyti.

Hv. 3. landsk. sagði, að fylgismenn þessa máls sýndu of mikið bráðlæti í að koma því fram. En ég held, að hver, sem fer í gegnum nál. og les þá útdrætti, sem þar eru úr gerðabók mþn., og athugar svo gerðabók stjskrn. í Ed., hann hljóti að viðurkenna, að fylgismenn þessa máls hafi sýnt andstæðingum sínum mikið langlundargeð í þessu máli. Flokksmönnum hv. þm. var, eftir að málið var tekið til umræðu, eins og segir í gerðabók kjördæman. veittur frestur dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð til þess að þeir gætu hugsað sig um og komið fram með till. En aldrei voru þeir tilbúnir; þegar einn fresturinn var liðinn, báðu þeir um annan, og alltaf var hann veittur, og að lokum, þegar ekki neitt var

komið frá þeim á síðasta fundi n., 13. febr., tveim dögum áður en þing átti að koma saman, en þá átti störfum n. að vera lokið, þá var því samt lýst yfir, að jafnvel þó n. hefði hætt fundum, værum við fúsir til að tala við þá, ef þeir hefðu einhverjar uppástungur fram að bera. En þær komu aldrei neinar. Það er því ekki bráðlæti okkar flm. frv., sem hefir staðið samkomulagi fyrir þrifum. Það hefir sjálfsagt ýmsum fundizt, að við höfum fremur sýnt of mikið langlundargeð en of mikið bráðlæti. Og svipað var það með stjskrn.; þar var hvað eftir annað veittur frestur, til þess að þar gætu komið fram till. Mér sýnist því, að hv. þm. hafi ekki mikið fyrir sér í þessu.

Þá gerði hv. þm. að umræðuefni kjördaginn og sagðist ekki hafa beitt sér af miklu kappi fyrir það mál. Ég man vel, að hv. þm. sótti það ákaflega fast á þingi 1929 að fá samþ. 1. um að flytja kjördaginn. En þetta var því óskiljanlegra, sem kosningar stóðu þá ekki fyrir dyrum, ekki fyrr en 1931. Það var því upp á 2 þing að hlaupa með að gera slíka löggjöf. Hv. þm. sagði, að ég hefði á síðustu stundu komið með brtt. við kjördaginn. Ég fór þess á leit við framsóknarmenn, að þeir frestuðu þessu máli og tækju till. til athugunar, en það var ekki við það komandi. Hv. þm. segist vera með þessu nú og vera fús til samkomulags. Það má vel vera. Ég mun ef til vill prófa það, hvort því fylgir nokkur alvara hjá honum að vilja vinna að samkomulagi um það að setja annan kjördag fyrir sveitirnar og annan fyrir kaupstaðina. Ég mun eiga tal við hv. þm. um þetta, hvort hann vilji koma á samkomulagi um kjördaginn, því ég tel hann svo mikið réttindamál fyrir þjóðina. Annað, sem hv. þm. getur ekki borið á móti, er, að það var boðið fram, að bændur skyldu hafa þann kjördag, sem þeim hentaði bezt. (JónJ: Já, á síðustu stundu). Það var margbúið að bjóða það. Það er ekki að miða við þá stund, sem brtt. kom fram. Á undan var gengið langt samtal við framsóknarmenn, hvað langt þeir vildu ganga í þessu máli. Þá var þeim boðið, að bændur mættu kjósa sinn eiginn kjördag, ef kaupstaðirnir mættu hafa þann, sem þeim bezt hentaði. Hann sagði, að það hefði verið gert til þess að gera sveitafólkinu sem mögulegast að kjósa. En ég vildi benda á það, að það voru ekki fjandsamlegri menn bændum, sem báru fram þennan kjördag og lögfestu hann, en Sigurður Sigurðsson og Ólafur Briem. Þeir töldu, að þetta væri sá tími, sem bændum væri hentugastur.

Hv. þm. kallaði það ekki saman berandi, kjördaginn og stjórnarskrármálið. Það er nú samt hvorttveggja saman berandi. Að vísu eru það misjafnlega stór mál, stjórnarskrármálið er náttúrlega miklu stærra mál, en hvorttveggja er mikilsvert réttindamál. Hv. þm. sagði í fyrra, að það hefði verið eitthvert mesta gerræði, sem gert hefði verið við þjóðina, ef stjskr. hefði verið samþ. þá og samþ. aftur og svo samþ. kosningalög, þar sem lögð væru niður öll núv. kjördæmi. En þó slík breyt. hefði verið samþ. á stjskr., hefðu bændur sannarlega fengið sína fulltrúa á þing til þess að standa á verði fyrir þá, ef ætti að ganga á rétt þeirra, sem mér finnst aldrei hafa verið gert á þingi, enda engin ástæða til þess. Þeir eiga fullkomlega skilið, að þeim sé veittur skynsamlegur stuðningur. Ég hefi heldur aldrei mælzt undan því að veita málum þeirra fylgi. En þó bændur hafi oft verið sanngjarnir á þingi, þá hafa þeir þó oft samþ. l., sem voru hrein og bein hagsmunamál fyrir þeirra stétt, en blóðugur óréttur fyrir aðrar stéttir. Ég get vitnað í ritgerð um kosningalög eftir Pál Briem, sem var mikill bændavinur. Hann segir frá því, að bændur á þingi 1861 hafi samþ. ákvæði um, að húsbændum væri leyfilegt að berja vinnuhjú sín. Þá var líka samþ. ýmislegt í lögum um lausamenn og húsmenn, sem ber þess merki, að þessi stétt, sem var mjög fjölmenn í landinu, átti ekki fulltrúa til að bera hönd fyrir höfuð sér, enda ber skattalöggjöfin þess merki, eins og hv. þm. veit. — Þá hélt hv. þm., að óhætt væri fyrir framsóknarmenn að koma með kjördæmamálið til þjóðarinnar.

Hann hélt ekki, að það fengi mikið fylgi, þó samþ. yrði nú á þingi að gera landið að einu kjördæmi. Það er ekki einungis um þá till. að ræða, heldur eru möguleikar á þremur till., sem sé þeim 2 till., sem ég hefi flutt sem breytingu við stjskr., og till., sem Sjálfstæðisfl. flutti í kjördæmaskipunarn. Svo geta ef til vill komið till. frá framsóknarmönnum til móts við þessar till. Það, sem ég meinti, þegar ég sagði, að vopnin væru slegin úr höndum Framsóknar, var í sambandi við kosningarnar 1931. Þá komu framsóknarmenn og sögðu, að sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn ætluðu að gerbylta kjördæmafyrirkomulaginu, til þess að bændur fengju ekki að kjósa. Þeir höfðu fyrir sér þetta eina stjórnarfrv. á síðasta þingi, sem gerði mögulegt að breyta kjördæmaskipuninni án stjskr.breytingar. En framsóknarmenn vildu halda fast við hið gamla fyrirkomulag. Framsókn er búin að slá vopnin úr höndum sér; nú fyrst er hægt að hafa hönd á þeim. Þeir hafa boðið Reykvíkingum upp á 8 þm. Hver skyldi hafa trúað því við síðustu kosningar? Það var þetta, sem ég átti við, þegar ég sagði, að þeir hefðu slegið vopnin úr höndum sér. Nú geta þeir ekki komið eins og síðast og sagt, að þeir vilji halda í hið gamla fyrirkomulag til þess að bændurnir fái áfram að halda rétti sínum. Þeir eru búnir að segja, að þeir vilji ívilna kaupstöðunum með svo og svo mörgum þingsætum og rýra vald bænda, því það verður auðvitað hlutfallslega minna. Hv. 3. landsk. sagði, að Reykjavík hefði svo mikil áhrif á þingið, því þar væru svo margir gáfaðir og mælskir menn. Það er undarlegt, ef Reykjavík fyrir það, að hún á svo marga gáfaða og mælska menn, mætti ekki hafa rétta tölu þm. Þetta er mjög svo undarlegt hjá hv. 3. landsk., að gáfaðir og mælskir menn eigi að hafa minni rétt en aðrir. En það má þó hv. þm. eiga, að hann ætlar sér að fylgja þessu frv. út úr d. og leyfa því að komast til Nd. Ég vænti, að það sé í góðu skyni gert. Hann er svo mikill alvörumaður, að ég trúi ekki öðru en að hann geri það í góðu skyni, til þess að fá málið leyst á viðunandi hátt.

Við hv. l. landsk. þarf ég ekki mikið að segja. Það er ekki mikið, sem ber á milli annað en þetta, að ég hefi ekki trú á, að samþ. verði kosningalög, þar sem ákveðið er, að ekki yrði alltaf sá kosinn, sem flest fengi atkv. Að því leyti skoða ég till. hans um takmörkun þingmannafjöldans beint á móti réttlætisákvæðunum í fyrstu málsgr. stjórnarskrárinnar. Ég vil ekki þar með segja, að ef málið yrði leyst að öðru leyti á viðunandi hátt, gæti ekki einhver takmörkun átt sér stað. Hv. þm. sagði, sem mætti virðast rétt eins og á stendur, að ef ekki tækist samkomulag á grundvelli till. Sjálfstæðisfl., þá væru minni líkur til þess, að samkomulag næðist um aðrar till. Þá er ekki öðrum till. til að dreifa en þeim, sem ég bar fram. Þetta má vera rétt hjá hv. þm., en eins og á stendur, sýnist mér ekki líkur á neinu samkomulagi. Að því leyti standa allir jafnt að vígi, og ég hefi tekið það fram við hv. 1. landsk., að ég vilji ekki leggja till. sjálfstæðismanna til grundvallar fyrir baráttu í kjördæmaskipunarmálinu. Fari svo, að engin lausn fáist á málinu, þá get ég ekki annað en haft á móti till. sjálfstæðismanna, því þær eru byggðar á grundvelli, sem ég er á móti, þessum mörgu og smáu kjördæmum, þó að ég til samkomulags hafi viljað ganga inn á þá till., ef það verður til að leysa málið. Ég er sannfærður um það, að eftir því, sem lengra líður og meiri umr. verða um málið, muni þær till., sem ég hefi borið fram, vinna meira og meira fylgi, því þær eru einfaldasta lausnin á þessu máli, og þeir agnúar og mótbárur, sem fram hafa komið á móti þeim, eru smávægilegar og standast ekki móts við þá miklu kosti, sem þær hafa, auk þess sem þær uppfylla réttlætisskilyrðin. Hv. þm. hélt, að stjskrfrv. mundi eiga litla lífsvon í Nd., ef varatill. mínar yrðu samþ. Ég skal ekkert um það segja. En ég held, eins og ástandið er nú og skipun þings, að ef barizt er fyrir slíkri till. sameiginlega af Alþýðufl. og Sjálfstæðisfl., þá ætti hún að nást fram. En því er ekki að leyna, þegar rætt er um þetta mál, að margt ber á milli hjá flokkunum í öðrum málum. Þeir eru á öndverðum meiði í öllum öðrum málum, og mest er andstaðan í þessum flokkum um þjóðmálin yfirleitt, en það er ekki því til fyrirstöðu, að við getum samþ. slíkt mál sem kjördæmaskipunarmálið, enda hefir það verið þannig annarsstaðar, að þeir konservativu og sósíalistar hafa komið sér saman um breytingar á kjördæmaskipuninni og knúð þær fram. Sumstaðar hefir jafnvel þurft beina byltingu og sumstaðar allsherjarverkfall til að knýja slíkt fram. Það er alþekkt úr baráttu um kjördæmamálið annarsstaðar frá, og það er skiljanlegt um þá flokka, sem náð hafa fylgi í bæjunum, en á móti standa sveitakjördæmin, sem frá fornu fari hafa réttinn, en eiga hann ekki lengur, eftir þá framþróun, sem orðið hefir um atvinnuvegina. Það er skiljanlegt um þá konservativu og jafnaðarmenn, sem fyrir hönd bæjarmanna vinna að framgangi breyttrar kjördæmaskipunar til þess að tryggja flokksmönnum sínum þann rétt, sem þeir eiga að hafa í þjóðfélaginu í lýðfrjálsu landi. Mér finnst, að þó bylgjurnar gangi hátt og deilurnar milli þessara flokka hljóti að verða miklar og viðkvæmar, þá geti þeir verið sammála um slíkt mál sem þetta.

Hæstv. dómsmrh. var mjög glaður í sínu hjarta, eins og Hjálpræðisherinn segir, yfir því, að nú séu jafnaðarmenn og íhaldsmenn komnir í hárið hver á öðrum. Það er nú ekki orðið svo mikið enn í þessu máli, svo hann hefir glaðzt fullsnemma yfir því. Hann talaði mikið um flatsængina, sem hefði myndazt í fyrra 14. apríl hjá þessum flokkum, sem væru nú að skilja eða velta fram úr rúminu; Það er skiljanlegt, að hann hugsi um það, hvernig aðrir fari í rúmi, því það er haft eftir flokksmönnum ráðh., að þeim hafi fundizt hann fara heldur illa í rúmi. Sennilega er það orðið svo nú, að hæstv. dómsmrh. er farinn að finna þetta sjálfur, því talið er, að hann sé meira einangraður í sínum flokki en hann hafi nokkru sinni verið fyrr, og það sé jafnvel svo, að hann, sem réði og ríkti hjá framsóknarmönnum í byrjun þessa kjörtímabils, hafi nú varla meira en það, sem eina fræga persónu vantaði fyrr á öldum til að vinna allt Ísland. Það er líka sagt um framsóknarmenn hér í bænum, að þeir séu orðnir verulega hræddir og farnir að víggirða sig. Mér er sagt, að stj. sé búin að kaupa hús hér í bænum, sem einna mest líkist kastala. Þangað hefir stj. drifið allt sitt einvalalið, mest einhleypa og unga menn, með vopnum og verjum, svo hægt sé að búast til varnar. Það virðist því ekki vera nein gleði á ferðinni hjá framsóknarmönnum og dómsmrh., þótt hann væri svo glensfullur í dag út af flatsænginni.