14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í C-deild Alþingistíðinda. (11273)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Sjálfstfl. (Jón Þorláksson):

Hv. 3. landsk. las upp eftir mér ummæli, er ég viðhafði við umr. um niðurlagningu landskjörsins í fyrra, og hann vildi auðsjáanlega láta það líta svo út, að ég með þeim hefði verið að lýsa afstöðu minni til kjördæmamálsins þá. Mér þykir það mjög leitt, að það skyldi koma fyrir þennan samsýslung minn, að hann skyldi fremja það gagnvart mér í þessu efni, sem almennt er kallað rökhnupl. Þessi ummæli mín á vetrarþinginu 1931 voru eingöngu viðhöfð með tilliti til þess, á hvern hátt ég gæti fallizt á till. Framsóknarfl. þá, eins og þær lágu fyrir, en ekki til þess að lýsa afstöðu minni til nauðsynlegra breyt. á kjördæmaskipun og kosningalögum. Ef hv. þm. hefði lesið einni setningu lengra, ef hann hefði lesið næstu setningu, þá hefði það sézt greinilega, hvernig bar að skilja þessi ummæli, sem hann las, því næstu orð mín eru þessi, með leyfi hæstv. forseta. „Þetta er eina ástæðan fyrir því, að ég get verið með niðurlagningu landskjörsins“. En við þessa sömu umr. lá fyrir brtt. við frv., sem ég gerði að umræðuefni í sambandi við niðurfelling landskjörsins, og það var brtt. frá hv. 2. landsk. um að leyfa hlutfallskosningar í fleirmenningskjördæmum utan Rvíkur, og þá ætlaði ég að sætta mig við þetta tvennt: niðurfellingu landskjörsins og hlutfallskosningu í kjördæmunum utan Rvíkur, sem höfðu fleiri en einn fulltrúa. En afstöðu mína til kjördæmaskipunarmálsins er að öðru leyti að finna í því stjskrfrv., sem ég flutti með öðrum þm. á sumarþinginu sama árið og er nálega shlj. því frv., er ég flyt nú.

Að öðru leyti ætla ég að láta ræðu hv. 3. landsk. eiga sig og ætla ekki að fara út í ummæli hans um hæstv. forsrh. og hans miklu samningalipurð. Ég get aðeins sagt það, að mín reynsla er allt önnur um hæstv. ráðh.

Ég veit ekki, hvað ég á að halda um brtt. hv. 2. þm. Árn. á þskj. 407. Hann sagði, að í þeim stæði, að kjördæmin ættu ekki að vera nema 25, en ólukkans prentararnir hafa nú sett það þannig á pappírinn, að þar stendur nú, að þau skuli aldrei vera færri en 25. En með því er eðlilega meint, að þeim megi að sjálfsögðu fjölga með lögum. Þetta er óneitanlega dálítið annað en hv. þm. segir, að eigi að vera. En ég verð nú að greiða atkv. um þá prentuðu brtt., hvað sem hv. þm. hefir ætlazt til, að stæði í henni. Og ég stend við það, að eins og hún er, þá er með henni tekið aftur það, sem fólst í brtt. hans frá umr. í gær, því þegar heimild er fyrir að fjölga kjördæmunum, þá er hægt að gera það þangað til kjördæmin taka upp öll þingsætin, og þegar búið er að fjölga þeim svo, að öll uppbótarsætin eru horfin, þá er búið með það réttlæti, sem á að tryggja með uppbótarsætunum.