06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í C-deild Alþingistíðinda. (11287)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Eins og sést á nál. stjskrn., þá er hún þríklofin, eftir stjórnmálaflokkunum. Fyrri minni hl. n., sem eru sjálfstæðismennirnir í n., leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed. Annar minni hl. n., jafnaðarmaðurinn, vill ekki þýðast 1. gr. frv. eins og það nú er orðið, en gerir við hana 2 brtt., aðaltill. á þá leið, að landið verði eitt kjördæmi og að Alþingi sitji 42 þm., sem séu kosnir í hlutfalli við atkvæðatölu stjórnmálaflokkanna í landinu, og varatill. á þá leið, að landið skiptist í 6 kjördæmi, er hafi ákveðna tölu fulltrúa hvert, en sennilega að þar fyrir utan verði uppbótarsæti veitt flokkunum, og sé tala þeirra sæta ekki ákveðin, því það er tekið fram, að Alþingi eigi að vera skipað fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum í hlutfalli við tölu greiddra atkv. Ennfremur er lagt til, að tala þm. sé óbundin af stjskr., og að síðustu er lagt til, að burt sé felld 5 ára búseta sem skilyrði fyrir kosningarrétti. Meiri hl. n., framsóknarmennirnir, getur ekki fallizt á till. minni hlutanna, en ber fram brtt. við frv., shlj. brtt. flokksbræðra sinna í Ed.

Ágreiningurinn í stjskrn. snýst um 1. gr. frv. Ég býst við, að hv. nm. telji hin önnur ákvæði frv. til bóta. Þó vil ég geta þess, að hv. fulltrúi jafnaðarmanna muni frekar óska þess, að þingið verði gert að einni málstofu, og ég skal játa, að ég fyrir mitt leyti get ekki betur séð en fyrir því séu talsvert gild rök, einkanlega þegar á það mál er litið út frá þeirri aðstöðu, sem nú er í þinginu, þegar helmingur hv. Ed., eða sjötti hluti þm., getur ráðið niðurlögum mála, sem 5/6 hlutar þm. vilja, að nái fram að ganga. En það heldur áfram að vera svo, ef frv. verður samþ. Annars lítur það dálítið einkennilega út, að þeir menn, sem ekkert annað telja rétt en að höfðatalan hjá þjóðinni eigi að ráða þegar kjósa á til Alþingis, skuli ekki telja rétt að láta hana sömuleiðis ráða á sjálfu Alþingi, að þeir skuli ekki sjá neitt athugavert við það, að sjálfir alþingismennirnir hafi misjafnan atkvæðisrétt í málum.

Í frv. er gert ráð fyrir að lækka aldurslágmark til þess að öðlast kosningarrétt til Alþingis niður í 21 ár. Hv. sjálfstæðismenn hafa reyndar fram til þess síðasta verið andstæðir þeirri breytingu, en virðast nú hafa látið í þessu efni undan kröfum unga fólksins, þó þeir hafi ekki áður viljað samþ. þessa réttarbót. Persónulega hefi ég alltaf verið fylgjandi þessari rýmkun kosningarréttarins. Úr því menn eru látnir hafa þennan rétt jafnan, hvort þeir eru menntaðir eða ómenntaðir, efnaðir eða fátækir, duglegir eða latir, þá ætti það ekki að skemma, að menn fengju kosningarrétt á aldrinum frá 21 til 25 ára. Menn eru vitanlega upp og ofan á því skeiði eins og síðar og er ekki meiri ástæða til að útiloka þetta unga fólk en t. d. þá, sem eru 70 ára eða eldri.

Þá er gert ráð fyrir því í frv., að menn tapi ekki kosningarrétti fyrir þeginn sveitarstyrk, eins og verið hefir. Um þetta atriði má hið sama segja, að hv. sjálfstæðismenn áður sem íhaldsmenn hafa allt til þessa verið því mótfallnir. Ég hefi aldrei álitið það rétt að taka þannig mannréttindin að veði fyrir skuldum, og í raun og veru er það ekkert annað, þegar menn fá réttindi við greiðslu skuldarinnar. Það er auðvitað ekki rétt, að menn tapi þeim réttindum vegna oft óviðráðanlegra báginda, réttindum, sem efnaðir slæpingjar og dáðleysingjar fá að halda.

Ég þóttist taka svo eftir, að hv. 1. landsk. héldi því fram í hv. Ed., að deilan stæði ekki um kjördæmaskipunina, en eins og störfum hefir verið hagað í stjskrn., þá hefir deilan eingöngu snúizt um það atriði. Hitt er annað mál, að eins og búið er nú um hnútana um stjórnarskrárbreytingar — þar sem til þeirra þarf samþykki beggja deilda Alþingis, með þingrofi og kosningum á milli —, þá eru það ekki góð vinnubrögð að gera breytingar á stjskr. án þess að láta jafnframt fram fara gagngerða endurskoðun á ákvæðum hennar. En um þetta þýðir nú varla að tala í þetta sinn.

Þegar þetta frv. var upphaflega flutt af fulltrúum beggja andstöðuflokka stj. í kjördæman. í byrjun þings, mun það hafa verið ætlun hv. sjálfstæðismanna, að ákvæðum stjskr. væri fullnægt með þeim till., er fulltrúar þessara flokka í mþn. báru fram og birtar voru í Morgunblaðinu og nál. meiri hl. Mun það þá hafa verið skilyrði fyrir fylgi hv. jafnaðarmanna við till. þessar, að samkomulag yrði um þær milli allra flokka og tala uppbótarsæta ótakmörkuð.

Við framsóknarmenn í mþn. gátum alls ekki fallizt á þessar till. hv. meiri hl. n. Við gagnrýningu þeirra bentum við hv. flm. á stórvægilega galla á till., en hv. flm. tóku þeim andmælum ákaflega illa framan af, þótt síðar hafi þeir séð sig um hönd og gert nokkrar breyt. á till.

Ég vil leyfa mér að benda hér á þrjú atriði, sem við framsóknarmenn höfum talið verulega galla á upphaflega frv. og gerðu það að verkum, að ómögulegt var að ganga að því. Í fyrsta lagi kemur það í bága við þá meginreglu, sem tillögumenn telja sig fylgja, um jafnrétti flokka eftir atkvæðamagni, að sá flokkur, sem engum manni kemur að við hinar almennu kjördæmakosningar, fái ekki neitt uppbótarsæti. Miðað við regluna er hér um mjög rangláta undantekningu að ræða, því vel er hægt að hugsa sér flokk, sem getur fengið við kosningu allmikið fylgi á við og dreif í hinum ýmsu kjördæmum, jafnvel atkvæði svo þúsundum skiptir, þó hann komi engum manni að. Hér virðist því vera beinlínis að ræða um brot á því principi, að allir flokkar fái fulltrúatölu í samræmi við kjósendafjölda.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í till., að þar sem fleiri en einn frambjóðandi fer fram fyrir sama flokk, í einu kjördæmi, þá eigi að leggja saman atkvæðatölu þeirra allra og veita þeim frambjóðanda flokksins, sem flest atkv. fær, þingsætið. Afleiðingin af þessari reglu gæti oft orðið sú, að maður, sem kannske fékk ekki nema örlítið brot greiddra atkv. í kjördæminu, næði kosningu. Þó maður af öðrum flokki hefði fengið miklu fleiri atkv., þá átti hann að falla, ef hann hafði ekki fleiri atkv. en fulltrúar andstæðingaflokksins höfðu samtals. Ég er viss um, að mörg kjördæmi yrðu ekki ánægð með að fá þannig fyrir þingmann mann, sem kannske hefði aðeins lítið brot kjósenda að baki. Með þessu fyrirkomulagi gæti hæglega svo farið, að maður næði kosningu, sem mjög lítið traust ætti í sínu kjördæmi.

Loks var það megingalli á frv., að tala þingfulltrúa átti að vera óákveðin og breytileg við hverjar kosningar. Þetta álitum við framsóknarmenn ófært ákvæði í frv. Það voru leidd rök að því, án þess í móti væri mælt, að tala kjörinna þingfulltrúa gat orðið breytileg allt frá 42, sem var lágmarkstala, og jafnvel upp í fleiri hundruð. Það er hugsanlegur möguleiki til þess, að þeir gætu orðið yfir tvö hundruð, og það er a. m. k. víst, að breyting á tölunni gat orðið mjög mikil frá einni kosningu til annarar. Fyrst þegar við framsóknarmenn í n. bentum flm. á þennan galla, vildu þeir ekki heyra á hann minnzt, en það varð óhjákvæmilegt fyrir sjálfstæðismenn að hlusta á flokksmenn sína á landsfundi þeirra í vetur, því þegar til kom, vildi landsfundurinn alls ekki fallast á þessa till. og samþykkti; að þingmenn skyldu aldrei vera fleiri en 50. Tillögumennirnir voru þannig af sínum eigin flokksmönnum reknir til þess að breyta sínum eigin till. með því að setja hámarkstölu þm. 50. Ég er ekki í vafa um það, að þetta hafa verið þung spor fyrir hv. flm., eftir því að dæma, hvernig þeir tóku gagnrýningunni fyrst hjá okkur framsóknarmönnum.

Eftir því frv., sem nú liggur fyrir, býst ég við, að hv. flm. hugsi sér að byggja á einmenningskjördæmum og takmarkaðri tölu uppbótarsæta, en það fyrirkomulag rekur sig einmitt á mjög harða gagnrýni frá sjálfum fulltrúum Sjálfstæðisfl. í mþn., sem þeir hafa látið prenta í því nál., sem fylgir upphaflega frv. Ætla ég að lesa hér nokkra kafla úr nál., með leyfi hæstv. forseta, er sýna þetta:

„Það leiðir af till. okkar, að tala þm. getur ekki verið fyrirfram ákveðin til fulls, heldur veltur hún að nokkru á úrslitum hverra kosninga. Sérstaklega er það ógerlegt að ákveða tölu uppbótarsætanna fyrirfram eða í eitt skipti fyrir öll, t. d. með lögum, af því að slík ákvörðun fyrirfram býður upp á það, að misnota tilhögunina, svo að höfuðtilganginum, hlutfallslega réttri fulltrúatölu, verði ekki náð. Þessu til skýringar viljum við í fám orðum segja frá gangi þessa máls í Danmörku, en þar hefir þessi kosningaraðferð verið fundin upp, vandlega íhuguð frá öllum hliðum, lögleidd og notuð við einar kosningar, en ekki annarsstaðar svo við vitum. Þar var tala uppbótarsætanna fyrirfram lögákveðin, og það varð til þess, að þessi tilhögun var yfirgefin aftur“.

Sömuleiðis segja hv. flm., þegar þeir eru búnir að sýna fram á þá galla, sem komu í ljós á þessu fyrirkomulagi í Danmörku, um leið og þeir geta um það, að danskur vísindamaður, Fr. Zeuthen, hafi sýnt fram á, að stjórnmálaflokkarnir gætu beitt „öldungis löglegum brögðum“ til þess að fá uppbótarsæti án þess að eiga réttmætt tilkall til þeirra:

„Þetta sýnir hann, að gera má aðallega á tvennan hátt, annaðhvort með því, að flokkur gengur til kosninga undir einu nafni í sumum kjördæmum, yfirleitt þar, sem hann á víst sæti við kjördæmakosninguna, og undir öðru nafni í sumum kjördæmum, yfirleitt þar, sem hann veit sig í minni hluta, ellegar með samvinnu milli tveggja flokka, sem beinist að því að ná sem flestum þingsætum handa þessum flokkuin til samans, á kostnað annara þingflokka. (Illoyal Alliance“ kallar Zeuthen þetta)“.

Þannig sýna þeir með orðum hins danska hagfræðings fram á það, hve mikið ranglæti felist í því að hafa tölu uppbótarsætanna takmarkaða, og að lokum segja þeir:

„Það hefir þannig orðið niðurstaðan af endurteknum, vandlegum íhugunum stjórnmálamanna og sérfræðinga í kosningafræðum í Danmörku, að hlutfallskosningar í sambandi við einmenningskjördæmi séu ekki nothæfar nema í sambandi við fyrirfram óákveðna tölu uppbótarsæta, ef nást á hlutfallslegt jafnrétti milli flokkanna. Sömu skoðunar erum við, eftir vandlega íhugun á þessu atriði“.

Á þessu sést, að þegar hv. nm. eru að ræða um takmarkaða tölu uppbótarsæta, þá gera þeir ráð fyrir, að flokkarnir noti ýmsar brellur, hæði með sameiningu flokka og sundurgreiningu, til þess að ná fleiri sætum en þeir eiga skilið, en þegar tala uppbótarsætanna er ótakmörkuð, þá álíta þeir, að þetta geti ekki komið fyrir. Framsóknarmenn halda því fram, að það skipti engu með tilliti til kosningabrellna, hvort tala uppbótarsætanna er takmörkuð eða ekki, og hljóta allir að sjá þá veilu, sem hér er í skoðunum hv. flm. og ómögulegt er að fallast á. Ég skal að lokum benda á, að það fyrirkomulag, að hafa ótakmarkaðan fjölda uppbótarþingsæta, hefir hvergi verið reynt. Það kom til mála í milliþinganefnd í Danmörku að setja slík ákvæði í lög, en sú till. var felld. Hitt hefir þar einusinni verið reynt við eina kosningu, að hafa takmarkaða tölu uppbótarsæta, en það fyrirkomulag þótti ekki heppilegt og eftir gagnrýni hr. Zeuthen var það fellt úr lögum.

Þá skal ég snúa mér að till. hv. jafnaðarm. í stjskrn., á þá leið að gera landið að einu kjördæmi, eða til vara að 6 kjördæmum. Þar sem það hefir verið megingrundvöllur Framsóknarfl. að vernda rétt hinna einstöku kjördæma. er það fyrirfram ljóst, að þeir geta ekki fallizt á till. hv. jafnaðarm., sem eyðileggja gersamlega þennan rétt. Auk þess eru till. öðrum annmörkum bundnar, sem leiða til ills eins, að okkar áliti. Við álítum sjálfsagt, að landsbúar hvar sem er hafi sinn fulltrúa á þingi þjóðarinnar, fulltrúa, er þekki þeirra þarfir, þeirra hagsmuni og óskir. Framhjá þessari sjálfsögðu kröfu er gengið, ef landið yrði gert að einu eða sex kjördæmum, sem hlyti að hafa þær afleiðingar, að miðstjórnir flokkanna mundu nær eingöngu ráða um val fulltrúaefna fyrir flokkana, og það er fyrirfram víst, að það val mundi langsamlega mest mótast eftir óskum íbúanna á fjölmennustu stöðum landsins. Niðurstaðan verður því sú, að hv. andstöðuflokkar hafa ekki getað bent á neitt viðunandi fyrirkomulag í kjördæmamálinu, og getum við framsóknarmenn því ekki fallizt á þeirra till. Hinsvegar höfum við gert tilraun til að benda á fyrirkomulag í þessu máli, sem ekki aðeins við framsóknarmenn, heldur allir skynsamir og hlutlausir menn telja þær heppilegustu till., sem fyrir liggja. Í brtt. okkar meiri hl. stjskrn. eru þessi atriði tryggð. Í fyrsta lagi að tala þm. er ákveðin með stjskr. Það er ákaflega óheppilegt, ef talan á að geta breytzt frá ári til árs. Í öðru lagi er lagt til, að tryggð verði með stjskr.ákvæði skipting núv. kjördæma og nöfn þeirra. Í þriðja lagi er till. um að tryggja Rvík aukinn rétt til þingfulltrúa vegna vaxtar bæjarins á undanförnum árum og í samræmi við aðstöðu hans til þingsins á annan hátt. Það er að vísu rétt, ef miðað er við 45 þm. og þar af hafi Rvík 8 þm., að þá er hún betur sett með fulltrúa heldur en t. d. Gullbringu- og Kjósarsýsla og Akureyri. En vegna þess að gera má ráð fyrir, að Rvík muni vaxa hlutfallslega meira að íbúatölu en aðrir landshlutar, teljum við þessa fulltrúatölu hæfilega. Enda er það álit allra sanngjarnra manna, að Rvík eigi að hafa fleiri kjósendur að baki hverjum þingfulltrúa heldur en önnur kjördæmi landsins, vegna þeirrar sérstöku góðu aðstöðu, sem Rvík hefir gagnvart þinginu, vegna aðseturs þess, fram yfir öll önnur kjördæmi landsins, til þess að túlka sín mál bæði með blöðunum og á annan hátt. Það væri því beinlínis ekki rétt, ef Rvík hefði fulltrúa á Alþingi í samræmi við atkvæðatölu eftir sama hlutfalli og önnur kjördæmi landsins.

Þá er í till. okkar að lokum gert ráð fyrir, að bætt sé við 5 landsk. þm. til uppbótar handa stjórnmálaflokkunum til að jafna fulltrúatölu þeirra í samræmi við atkvæðafjölda. Með þessari till. höfum við framsóknarmenn viljað ganga til móts við hv. andstæðinga að því leyti, sem við teljum rétt að ganga inn á þeirra hugmynd. Ég býst við, að niðurstaða síðustu kosninga sýni, að tala uppbótarsætanna er nægilega há til þess að jafna misræmi kjördæmakosinna þm. og atkvæðafjölda flokkanna. — Að lokum vil ég vona, að hv. andstæðingar okkar líti með sanngirni á þessar till. og viðurkenni réttmæti þeirra með því að samþ. þær eins og þær liggja fyrir.