06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í C-deild Alþingistíðinda. (11288)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég er hræddur um, að það dragist nokkuð lengi, að sú ósk, sem hv. frsm. meiri hl. lét í ljós þegar hann settist niður, rætist, sem sé að við munum bráðum átta okkur og samþ. till. meiri hl. Ég get sagt það eins og er, að ég lít svo á, sem þessar till. meiri hl. séu verri en það, sem vér eigum nú við að búa, og af því getur hann séð, að það eru ekki minnstu líkur til þess, að okkur detti nokkurntíma í hug að samþ. slíkar till. Það er svo mikil fjarstæða, að um slíkt þýðir ekki að ræða. Að því er annars snertir þetta mál vil ég minna á það, að saga þess sem verulegs deilumáls hefst með því, að hæstv. stj. lagði fyrir þingið í fyrra frv. um þá aðalbreyt. á stjskr. að afnema landskjörið án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þegar sýnt var, að þetta mál hafði mikið fylgi, varð það að samkomulagi milli Sjálfstæðisfl. og jafnaðarmanna, að rétt væri, að málið væri tekið fyrir í heild og endurskoðuð öll kjördæmaskipunin, því að eins og allir sjá, var með landskjörinu numið burt atriði, sem gerði nokkuð í þá átt að lagfæra misræmið, sem var og er í kosningaháttum hér á landi. Það er kunnugt, að hæstv. stj. varð svo mikið um þetta, að hún rauf þingið þegar í stað, og því er málið ekki komið lengra en nú er það. Það var þá sagt, að vér sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn hefðum gert einhvern órjúfanlegan samning um kjördæmaskipunina. En það sést bezt á þeim till., sem fyrir liggja, hve fastur og órjúfanlegur sá samningur hefir verið, og það var einmitt þetta atriði, sem að mínu áliti olli a. m. k. mjög miklu um það, hversu kosningarnar fóru síðast. Nú sýna fram komnar till., að það er ekki rétt eins og haldið var fram, að taka ætti þingmennina af sveitunum. Þetta sést greinilega á till. sjálfstæðismanna. Í kosningabardaganum í fyrravor var því haldið fram, bæði af hálfu hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. — ég var á fundum með þeim báðum —, að það, sem þeir vildu hafa í þessu máli, væru einmenningskjördæmi og uppbótarsæti. Og þegar svo sjálfstæðismenn gátu fundið leið, sem þeir gátu sætt sig við og einmitt var leiðin, sem framsóknarmenn höfðu lýst yfir, að þeir vildu fara, var ekki vel hægt að búast við, að þeir myndu snúast eins þveröfugt við þessu eins og þeir nú hafa gert. Þegar þeirra till. komu úr n., þá var það svo langt frá, að þar væri fjölgað einmenningskjördæmum, heldur fóru till. fram á þveröfugt — fjölgun tvímenningskjördæma. Það er auðvitað ekki gott að eiga við þann flokk, sem hagar sér þannig, að hann breytir á næsta missiri þveröfugt við það, sem hann hefir lýst yfir gagnvart öllu landsfólki. Það sýnir sig á þeim áskorunum, sem daglega berast til þingsins, að hinn mesti áhugi er vaknaður fyrir þessu máli meðal landsmanna. Það má vel vera, að það verði hægt, með einhverju ofbeldi þingmeirihlutans, að stöðva þetta mál nú, en bað verður aldrei stöðvað um langan tíma. Og fylgismenn þessa máls eru reiðubúnir að leggja á sig mikla örðugleika og þola það í nokkur ár að verða undir til þess að vinna fyrir þetta mál, í von um að hafa það fram áður en langt um líður.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að við gengjum mjög inn á nýjar brautir í þessum stjskrbreyt., sem hér liggja fyrir, og er það að ýmsu leyti rétt. En hv. frsm. er sjálfur — a. m. k. hans flokkur — einnig að leggja inn á nýjar brautir, því að hann vill nú láta Rvík hafa átta þm., en í kosningabardaganum í fyrra var það aðalatriðið, að ekki mætti auka vald Rvíkur. Það var „Reykjavíkurvaldið“, sem alstaðar kvað við og alls ekki mátti auka. Á þinginu í fyrra lá fyrir frv. um þingmannafjölda í Rvík, og var þá stungið upp á níu. Og þegar enginn vildi ganga að því að samþ. það, kom ég með till. um, að þeir skyldu vera fimm, og var ekki nærri því komandi. Nú bjóða þessir sömu þm. átta þm. fyrir Rvík, og virðist það ekki laust við að fara inn á nýjar brautir. Hv. frsm. meiri hl. talaði nokkuð um það, að þetta væri engin gagngerð endurskoðun á stjskr. Af hverju hefir hann ekki, sem hefir verið skipaður í n. út af þessu máli, tekið sér fyrir hendur gagngerða endurskoðun á stjskr.? Sjálfsagt hefir hann haft til þess bæði tíma og tækifæri. (BJ: Það lá ekki fyrir þeirri n.). Nei, en ef hv. þm. hefði haft brennandi áhuga fyrir því máli, þá hefði hann getað samið till. og lagt fyrir n., og ég skil ekki annað en að það hefði verið talið leyfilegt, að n. hefði komið fram með einhverjar brtt., sem hún hefði getað orðið sammála um.

Þá kom hv. frsm. með sína gömlu „kritik“ á því fyrirkomulagi, sem Sjálfstæðisfl. hefir stungið upp á. Það var ekkert annað en þynning á því, sem hann hefir áður skrifað í Tímann, og er kunnugt, hvað hann hefir út á þetta að setja. Skal ég í fám orðum rifja það lítilsháttar upp. Hann er fyrst og fremst ákaflega hneykslaður yfir því, að sá flokkur, sem ekki fær þingsæti, skuli ekki heldur geta fengið uppbótarsæti. Honum finnst það vera hið geipilegasta brot á allri þessari tilhögun, sem till. sjálfstæðismanna eru byggðar á. Það er svo um þetta, að það er ekki hægt og engum hefir dottið það í hug, að hve fámennur hópur manna sem er geti kallað sig flokk, og það verður að setja einhver takmörk. Það hafa allar þjóðir gert og verða allar þjóðir að gera. En hvort endanlega á að setja það takmark að hafa einhverja ákveðna kjósendatölu eða þingmannatölu á öllu landinu eða vissum landshlutum, getur verið álitamál. Um það má gjarnan ræða við hv. frsm., en hann getur ekki haldið því fram, að hve fámennur hópur sem er geti komið og sagt, að hann vilji telja sig stjórnmálaflokk. En ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm., úr því hann er svona óánægður vegna mjög fámenns hóps manna, sem þykist vera sjálfstæður flokkur, hvernig stendur þá á því, að hann getur ekki fundið næga ástæðu til megnrar óánægju yfir því, að þeir flokkar, sem fyrir eru og telja þúsundir kjósenda, skuli ekki fá neinn þingmann fyrir mörg þúsund kjósenda. Er harðara fyrir fámennan flokk, sem engum þingmanni getur komið að, að fá ekki uppbótarsæti, heldur en fyrir þann flokk, sem hefir mörg þúsund kjósenda, en fær ekki þm. nema fyrir lítinn hluta af atkvæðatölu sinni? Hér er sjálfur frsm. einmitt að sanna það, sem hann ætlar sér að afsanna. Hann heldur því fram, að yfirleitt sé það ekki kjósendafjöldinn, sem eigi að ráða. Hann segir, að það sé rangt í okkar till., en hér tekur hann einmitt kjósendafjölda, sem er miklu minni en sá, sem er þingmannslaus eftir því fyrirkomulagi, sem nú er, og leggur út af því ranglæti, að þeir fái ekki þingmann. Ég vona, að hv. þm. sjái, að hér er hann í algerðri mótsögn við sjálfan sig, og það er eftirtektarvert, þegar hann hellir sér yfir, hversu ósanngjörn þessi regla sé, þá reiknar hann sjálfur alltaf með höfðatölunni. Þegar hann segir: það er ósanngjarnt, að menn fái ekki þann kosinn, sem fær flest atkv. í kjördæminu, — á hverju byggir hann þá nema höfðatölu? Og þegar hann segir, að svo geti farið, þegar fleiri eru í kjöri úr sama flokki, þá verði sá kosinn, sem hefir e. t. v. miklu færri atkv. en einhver annar, þá byggir hann eingöngu á höfðatölunni. Það er honum svo inngróið, að hann veit ekki af því. (BJ: Innan kjördæmanna): Já, en hvar stendur að höfðatalan eigi að vega meira innan kjördæmanna en á landinu öllu? Í hvaða sanngirnisbók er það ritað? Slíkt er fjarri öllum sanni. (JónasÞ: Hvernig er það á Alþ.?). Þar er það höfðatalan, sem ræður, eða handatalan, ef hv. þm. Dal. vill heldur hafa það svo; við greiðum hér atkv. á þann hátt, að meiri hl. ræður. (JónasÞ: Eins er það í kjördæmunum). Hv. þm. fylgist alls ekki með í því, sem ég er að segja; og ég get ekki verið að endurtaka heila kafla vegna þess, að hv. þm. tekur ekkert eftir. Það er svo sláandi, að þeir, sem telja sig hafa eitthvað á móti höfðatölureglunni, skuli alltaf brýna á því, að ef einhversstaðar gæti komið fyrir; að það væri ekki höfðatalan, sem réði í kjördæmi, væri það hið mesta ranglæti. Það ættu þó allir að sjá, að ekki getur önnur regla gilt í kjördæmunum fyrir sig en á landinu í heild. Nú held ég því ekki fram, að höfðatalan sé hið eina, sem eigi að ráða. Ég viðurkenni rétt héraðanna fyllilega, og sá réttur kemur einmitt fram í till. sjálfstæðismanna. Svo er þetta gamla „argument“ frá hv. frsm. um að þm. geti orðið mörg hundruð. Það út af fyrir sig er nokkuð grunsamlegt, að þegar framsóknarmenn reikna út, hve há þm.talan geti orðið, þá ber þeim aldrei saman. Sumir segja 143, aðrir segja 166, nokkrir á þriðja hundrað og enn aðrir upp undir þrjú hundruð. Ég veit ekki, eftir hvaða reikningsaðferðum þeir fara, og þætti mér gaman að fá aðferðina uppskrifaða, til þess að sjá, hvernig þeir reikna út. (BJ: Þetta sýnir bara, hvað þm.talan getur orðið breytileg). Það sýnir bara, hve tilgangslaust það er að reikna og reikna, þegar sín niðurstaðan verður hjá hverjum, og hjá öllum rammskökk. Annars sé ég ekki, að um þetta þurfi að ræða, eftir að komin er inn í frv. sú takmörkun, að þm. megi ekki vera fleiri en 50. Þó er hv. þm. að berjast við þessar ímynduðu stóru tölur. Hinsvegar virðist mér hann telja of lítið, að þm. séu 50. Eftir því er þá niðurstaða hv. þm. þessi: Þm. mega ekki vera 50, ekki færri en 50 og tala þeirra má ekki vera óákveðin. Ég veit því ekki, hvaða fyrirkomulag á að vera, því að eftir því, sem hv. frsm. fórust orð, getur ekkert verið rétt í þessu efni. Honum finnst mjög illt að takmarka tölu þm. og óhafandi að takmarka hana ekki. Ég veit ekki, hvernig á að gera hv. frsm. til hæfis. Hann vill hvorki hafa tölu þm. takmarkaða né ótakmarkaða. (HV: Hvers vegna að gera honum til hæfis?). Ég vil hafa þm.töluna 50. (BJ: Það er of mikið). En hv. þm. Barð. reyndi að sýna, hvað þessi tala gæti orðið ósanngjörn, og las upp úr nál. sjálfstæðismanna til að sanna það. (BJ: Hvað þeir álitu um það, en ekki hvað ég áliti um það). Er þá hv. þm. að prédika vilja sjálfstæðismanna í þessu máli?

Þá er þriðja atriðið, um skiptingu í flokka. Það er það, sem hefir af andstæðingum þessa máls verið talið hið allra hættulegasta. Þeir segja: Flokkarnir geta fundið upp á því að skipta sér í sundur til þess að ná í uppbótarsæti. Þetta ætti að vera þannig, að t. d. hæstv. forsrh. byði sig fram utan flokka í Strandasýslu og hæstv. fjmrh. utan flokka í V.-Ísafjarðarsýslu, hv. þm. S.-Þ. í Suður-Þingeyjarsýslu og hv. þm. Barð. í Barðastrandarsýslu, eða eitthvað því um líkt. Ég á erfitt með að trúa, að þessir menn finni upp á því að gefa yfirlýsingu til afnota í opinberu máli, sem er vitanlega röng. Ég held, að þeir myndu hugsa sig um tvisvar áður en þeir færu að ljúga sig frá sínum eigin flokki. En til þess þó að setja undir þann lekann, skal ég viðurkenna, að þingmannatalan þyrfti að vera hærri en 50, og ef menn hugsa sér, að slík svik séu höfð í frammi, er ekki hægt að fyrirbyggja það á annan hátt en að hafa þm.töluna ótakmarkaða, því að þá er lönguninni til að gera þetta svipt burt, en yrði í rauninni alls ekki til að hækka tölu þm. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hefi enga trú á, að slíkir óknyttir yrðu notaðir, og því get ég sæft mig við töluna 50, því að það hefir verið athugað í sambandi við þær kosningar, sem hér hafa farið fram áður, að eftir þeim hefði þm.talan aldrei þurft að verða hærri en 43 til þess að ná fullu réttlæti. Þetta sýnir, að þótt takmörkunin 50 sé sett, skapast ekkert ósamræmi með því. Í nál. meiri hl. er sagt, að hann telji, að hvortveggja tilhögunin, bæði sú, sem um ræðir í till. hv. 3. þm. Reykv., og eins í frv., sem nú liggur fyrir, sé einungis lögð áherzla á þá grundvallarreglu fyrir fjölgun þm., að flokkarnir fái þingsæti í samræmi við atkvæðamagn. Það er alveg rangt. Eftir till., sem komið hafa fram frá sjálfstæðismönnum, er einmitt tekið tillit til héraðanna, og það hefir blað hv. þm. greinilega viðurkennt. Hv. frsm. sagði, að Rvík hefði bezta aðstöðu, vegna þess að þingið væri háð hér. En þrátt fyrir það vildi hann nú auka svo þm.tölu Reykjavíkur, að þar verði færri kjósendur á hvern þm. en sumstaðar annarsstaðar. Hvaða tillit er þá tekið til þessarar góðu aðstöðu Reykjavíkur? (BJ: Svo eru uppbótarsætin úti um land). Já, þessi 5, sem hv. frsm. er svo náðugur að vilja leyfa að bæta inn í frv. Þetta er það, sem hv. þm. ætlar að skammta hinum hlutum landsins — fimm þm. í stað sex, sem burt eru teknir. — Ég hefi svo ekki meiru að svara hv. frsm. Ef til vill árétta ég dálítið betur ýmislegt fleira viðvíkjandi þessu máli síðar í dag, en ég vil einungis benda á það, að eins og kjördæmaskipunin er nú, þá getur hún alls ekki staðizt áfram, ef nokkur sanngirni á að ríkja í þessu landi. Í kjördæmum utan kaupstaða hefir Framsóknarfl. fengið um 12000 atkv. við síðustu kosningar og Sjálfstæðisfl. 9000; en fyrir þessi 12 þús. atkv. hefir Framsóknarfl. fengið 21 þingsæti, en fyrir 9 þús. hefir Sjálfstæðisfl. fengið 6. Ef þetta er rétt eftir þeirri réttlætistilfinningu, sem hreyfir sér í brjóstum framsóknarmanna, sé ég ekki, að þeir hafi ástæðu til að kvarta, þótt fyrir kynni að koma, að þm. yrði kosinn með minni hl. í einhverju kjördæmi, enda er ekki hægt að neita því, að eins og nú er getur vel komið fyrir, að þm. sé kosinn, þótt hann hafi minni hl. að baki sér. Ennþá verri en þetta verður niðurstaðan, ef tekin eru einstök svæði landsins, eins og sveitakjördæmin á Austur- og Norðurlandi, frá Jökulsá á Sólheimasandi að Geirólfsgnúp á Ströndum. Þar hefir Framsóknarfl. fengið um 7000 atkv., en Sjálfstæðisfl. hefir fengið um 4000 atkv. Framsóknarfl. fékk á þessu svæði 14 þm., en Sjálfstæðisfl. 1. (Forsrh.: Tvo — Akureyri og Skagafjörð). Akureyri er ekki sveitakjördæmi. Ef þetta er rétt, að 7 þús. atkv. gefi 14 þm. og 4 þús. atkv. 1 þm., þá þekki ég ekki, hvað sanngirni er. Og þeir menn, sem halda því fram, að unnt sé að viðhalda slíku fyrirkomulagi, hljóta annaðhvort að gera það gegn betri vitund eða að hafa brjálaða réttlætistilfinningu.