06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í C-deild Alþingistíðinda. (11291)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér hljóðs, þegar mér virtust umr. vera að detta niður. Standa umr. stundum lengur um smærri mál en þetta.

Mig hefir stundum undrað afstaða stjórnarfl. í þessu máli. Hefir mér oft virzt hann halda, að hann geti stolizt frá málinu. Málið er dregið sí og æ, leitað frests á frest ofan. Það er eins og búizt sé við, að svo geti farið, að ekkert verði úr málinu. Virðist mér þetta koma fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann stendur hér og rekur, hverja afstöðu flokkarnir hafi haft áður og segir, að sjálfstæðismenn hafi skipt um skoðun. Veit ég ekki til þess, að málið hafi áður komið þannig fram, að reynt hafi á afstöðu flokkanna gagnvart því. Í Sjálfstæðisfl. hafa verið skiptar skoðanir í þessu máli, og er það eðlilegt. Kosningafyrirkomulagið er ein af meginstoðunum undir þjóðskipulagi voru, og er ekki nema eðlilegt, að menn vilji ekki fyrr en í síðustu lög leggja öxina að þeim rótum. Þetta er eins og um hús, sem farið er að eldast, en menn búa þó í á meðan hægt er, en ef þakið fýkur svo af því, þá er það auðvitað ekki lengur hægt. Þótt það hafi komið í ljós áður, að kosningaskipunin var úrelt, hefir þó ekki þakið fokið af fyrr en við síðustu kosningar. Hefir það ekki komið fram fyrr en nú, að lítill minni hl. geti fengið mikinn meiri hl. á Alþingi. Nú situr að völdum stjórn, sem er í andstöðu við 2/3 hluta landsmanna, og hefir það ekki borið við fyrr. Getur því vel verið, að þeir, sem áður hafa viljað fara varlega í breytingar, vilji nú ganga lengra. Það er því hjal út í loftið að vera að tala um það, hvaða skoðanir menn hafi áður haft í þessu efni.

Mér þykir ástæða til að leiðrétta einstök atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Sagði hann, að við hefðum áður viljað fá, en stór kjördæmi, og runnið svo frá, þegar til kom. Hafa verið skiptar skoðanir um það meðal sjálfstæðismanna, hvort betra væri að hafa fá stór kjördæmi eða halda þeim kjördæmum, sem nú eru, með uppbótarþingsætum. Hafa fleiri verið síðari skoðunarinnar, ef hægt væri að tryggja réttlátt fyrirkomulag. Ég hefi t. d. talið það brotaminna að hafa fá kjördæmi með hlutfallskosningum.

Veit ég ekki til, að við höfum runnið frá nokkru enn þrátt fyrir þetta. Hv. þm. sagði, að við hefðum runnið frá þessu á sumarþinginu. En það varð þá að samkomulagi að gefa vopnahlé. Held ég, að það hafi verið sanngjarnt. Það er aðalatriðið, að lausn fáist á málið, en ekki hitt, hvort það verður nokkrum dögum fyrr eða síðar.

Þá talaði hv. þm. um það, að jafnaðarmenn hefðu í mótmælaskyni greitt atkv. á móti fjárl. En ég hefi nú heyrt hann segja, að fjárl. hefðu út af fyrir sig verið svo vond, að hann hafi þess vegna greitt atkv. gegn þeim.

Mér hefir fundizt framsóknarmenn vilja halda því fram, að frv. þetta, sem borið er fram af sjálfstæðismönnum, sé einhver öfgamálstaður þeirra, sem allt vilja hindra. En ég hefi nú alltaf litið á það sem miðlunarfrv. Er þar reynt að koma því til leiðar, að Alþingi verði skipað að vilja kjósenda, án þess þó að ganga á móti þeim, sem vilja, að núv. kjördæmaskipun haldist. Þegar hv. frsm. taldi upp þau rök, sem komið hafa fram gegn till., þá voru þau öll miðuð við kjördæmaskipunina. Engin af þeim mótmælum snertu stjórnarskrárfrv. það, sem hér liggur fyrir. Voru það allt örðugleikar við 1. ákv. þessarar lausnar á málinu. Ræða hans var öll stíluð gegn því að halda einstökum kjördæmum, en ekki gegn því að láta vilja kjósenda koma í ljós.

Allt í einu eru þeir þá orðnir svo viðkvæmir fyrir því, að flokkur, sem engan þingmann fær kosið, skuli ekki fá hlutdeild í uppbótarsætunum. Þeir voru ekki svona viðkvæmir í sumar, þó að þúsundir af kjósendum búnkuðust niður og kæmu ekki til greina við þingmannavalið, eins og t. d. allir kjósendur Sjálfstæðisfl. á svæðinu frá Akureyri norður og suður um land alla leið til Rangárvallasýslu. Þeir voru ánægðir yfir því og litu með velþóknun á, að atkv. allra þessara kjósenda urðu ónýt. En ef einhverjir menn, sem kalla sig flokk, fá 20–30 atkv. og koma engum manni inn, þá er óhæfilegt og ómögulegt að samþ. frv. af því að þessi flokkur fær enga hlutdeild í uppbótarsætum. En þetta er svo mikill yfirdrepskapur og látalæti, að það væri skárra að geyma slíkar röksemdir heima hjá sér en vera að hampa þeim hér.

Sama er um aðra röksemdina að segja, að komið gæti fyrir, að einhver yrði kosinn, sem fengi færri atkv. En hér er um frjáls framboð að ræða til þess að gera kjósendunum sem allra frjálsast fyrir um þingmannavalið. En um þetta er ekkert sagt í stjskrfrv., heldur er þetta fyrirkomulagsatriði og ekki nauðsynlegt í sambandi við till. sjálfstæðismanna. En ég skil, að ef bundið er við, að engum flokki séu reiknuð uppbótarsæti, sem engan þm. fékk kosinn, að þá sé ekki hægt að fá samkomulag um það eins og nú er í frv. En það er aukaatriði, að menn séu sem frjálsastir. Mér finnst mikill kostur, að flokki skuli reiknuð þau atkv., sem hann fær, því að þá þarf enginn að vera hræddur um, að atkv. flokksins tapist. En viðkvæmnin er heldur lítil, ef litið er á átökin í heildinni, þegar farið er að tala um svo örsmá atriði sem þetta.

Og svo er það nú þingmannatalan, sem hv. frsm. meiri hl. varð skrafdrjúgt um, af því hún gæti orðið svo há. Frsm. 1. minni hl., hv. 2. þm. Skagf., hefir sýnt fram á, hvað þau rök eru sterk eða mikið á þeim að byggja.

Helzt var á hv. frsm. meiri hl. að skilja, að eftir till. sjálfstæðismanna væri hugsanlegur möguleiki, að þingmennirnir skiptu þúsundum. Það væri annars gott, ef eitthvert gáfnahöfuð úr flokki afturhaldsins gæti reiknað út, að þingmennirnir yrðu eitthvað færri en kjósendurnir, því þar virðist þó takmarkið vera, að þeir verði ekki jafnmargir og kjósendurnir.

En þetta er leikur með hugsanir, að halda slíku fram, því eins og hv. 2. þm. Skagf. sagði, verða þm. að villa og falsa á sér heimildir við framboðin, ef þingmannatalan á að verða óeðlilega há. Ég veit ekki, hvað menn halda um það, að frambjóðendur fari langt í slíkum kosningafölsunum. En hér er um skjalafölsun að ræða, sem menn fremdu með því að villa á sér heimildir til þess að gera atkvæðatölur sínar of háar. Og það er hreint og beint fals, sem er refsingarvert, að villa á sér heimildir í þessu skyni. Af því að til eru ómerkilegir menn, svo sem þjófar, manndráparar og þess kyns lýður, þá hefir þótt nauðsynlegt að setja viðurlög við, ef menn fremja slíkt. Við slíku falsi sem hér er um að ræða verður einnig að setja viðurlög.

Eftir frv. eins og hv. Ed. gekk frá því er ætlazt til, að á Alþingi eigi sæti allt að 50 þjóðkjörnir fulltrúar. Og séu engin brögð í tafli, er engin hætta á, að þm.talan komist upp í 50, hvað þá hærra. M. a. s. að samkv. síðustu kosningum hefðu þm. ekki orðið nema 43, eins og kjördæmaskipunin þó er ranglát, þegar 35–36% af kjósendum landsins ráða meiri hl. þingmanna. Eftir frv. má gera ráð fyrir, að þingmannatalan geti orðið allra hæst 47–48. Og til þess að hafa markið nógu rúmt, svo að flokkarnir standi jafnt að vígi um réttláta tölu þm., þá hefir verið borin fram till. um, að á Alþingi eigi sæti allt að 50 fulltrúar. Verði þingmannatalan hærri, hafa einhverjir komið við falsi til að eyðileggja málið, og þá verður að reisa við því skorður, svo að verði ekki framið aftur.

Þetta eru nú punktarnir úr ræðu hv. frsm. meiri hl., og er ekkert af því stílað móti því, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram. Annars býst ég við, að einhver annar flokksbróðir hv. frsm. meiri hl. verði að taka að sér að flytja ræðu fyrir hann til að sanna þetta. Og sú ræða ætti þá að vera á þessa leið: Alþingi á ekki að vera skipað samkv. vilja meiri hl. kjósenda í landinu. Kjósendurnir eiga að vísu að velja fulltrúana, en koma á því þannig fyrir, að engin trygging sé fyrir því, að vilji kjósendanna ráði. — Svona hefði ræðan helzt átt að vera og klykkja svo út með því, að tryggja beri um fram allt, að aðrir og annað en vilji meiri hl. kjósenda ráði á Alþingi. Af þessum rótum er það runnið, þegar hv. þm. afturhaldsins fullyrða, að Reykjavík megi ekki hafa fulltrúatölu á Alþingi í samræmi við aðra landshluta.

Annars er ég hræddur um, að hv. framsóknarmenn komist aldrei í kringum það að verða grunaðir um græsku í þessu máli. Ég var á fundi vestur í Dölum með hæstv. forsrh. fyrir síðustu kosningar, og þar sagði hæstv. ráðh. það sama og aðrir flokksmenn hans, að deilan stæði ekki um annað en sveitakjördæmin, sem sjálfstæðismenn ætluðu að leggja niður, en hinum dreifðu byggðum landsins væri lífsnauðsyn að halda í. Ég sagði honum þá, að enginn sjálfstæðismaður væri á móti því, að kjördæmin héldust, ef réttlætið og vilji meiri hl. kjósenda fengi að ráða. En hann þar á móti því og las þar upp skröksögu þá um bandalag sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, sem jafnan hefir verið gripið til síðan, til þess að hafa að engu till. okkar sjálfstæðismanna. Og til þessara blekkinga greip hæstv. forsrh. þá, af því að hann hélt, að ekki væri fundið upp neitt ráð til að halda sveitakjördæmunum án þess að rýra vald það, sem Framsókn hafði skapað sér með úreltri og ranglátri kjördæmaskipun. Meginrök hæstv. ráðh. voru þau, að höfðatalan mætti ekki ráða, og á því hefir hann látlaust hamrað síðan. En heilindi hans og flokksmanna hans eru ekki meiri en svo, að bak við vígorðin og allar ræðurnar, sem fluttar hafa verið gegn till. okkar, má lesa: skítt með öll kjördæmin, bara að eitthvað annað ráði en höfðatalan.

Annars er rétt að athuga, að réttur einstakra landshluta til þess að hafa sérstaka þingmenn rýrnar við það, að samgöngur verða meiri og greiðari og menn kynnast betur. Nú er svo komið, að fæstir láta sér nægja þá atvinnu, sem á boðstólum er heima í héraði, heldur leita lengra á burt, en á þann hátt kynnast einstaklingar landi og þjóð langtum betur en áður. Fréttir berast undireins landshorna milli og allar fjarlægðir eru að hverfa. Það kemur því ekki fyrir á Alþingi, að ókunnugleiki einstakra þm. tefji fyrir afgreiðslu mála, heldur miklu fremur hitt, að þm. eru of kunnugir og hugsa í hreppapólitík eins og heima. En sú togstreita of kunnugra manna um einstök mál á Alþingi hefir jafnan orðið til ills eins. Það má vel vera, að ekkert sé á móti því að halda kjördæmunum óbreyttum, enda er mikið talað um þróun í því sambandi, og hennar vegna sé rétt að halda þeim. Þetta er líka sjálfsagt, ef hægt er að samræma það þeim rétti, sem er miklu æðri, svo að komi í ljós rétt mynd af vilja kjósendanna.

Þá lýsti hv. frsm. meiri hl. till. flokks síns, sem bornar eru fram á þskj. 615, og lét svo um mælt, að hann gæti ekki annað skilið en að allir sanngjarnir menn hlytu að ganga inn á þær. Um till. ætla ég ekki að tala langt mál, því að hv. frsm. 1. minni hl. hefir svarað fyrir okkar hönd og hrakið þær lið fyrir lið. Enda tek ég undir það, sem hann sagði, að till. eru ekki aðeins langt fjarri öllu samkomulagi, heldur eru þær hreint og beint afturfararspor frá þeirri kjördæmaskipun, sem nú gildir. Með þeim er farið fram á að nema á burt einu hlutfallskosningar, sem nú eru látnar fara fram um land allt, en um þær eru svo búið, að þær sýna vilja kjósendanna, þó í smáum stíl sé.

Fyrsta brtt. afturhaldsmannanna fer fram á að taka kjördæmaskipunina upp í stjskr. En það tel ég blett á henni. Stjskr. ætti sem sjaldnast að breyta. Inn í hana á aðeins að taka meginreglur, en ekki alla skapaða hluti, sem auðvelt er að binda með öðrum lögum. Ef kjördæmaskipunin á að takast upp í stjskr., þá má gera ráð fyrir, að fleira komi á eftir, t. d. um læknaskipun, prestaskipun, dómaskipun og ýmislegt fleira. En þetta þýddi ekki annað en það, að sí og æ væri verið að breyta og um enga stjórnarskrá að ræða í eiginlegum skilningi, heldur aðeins lög, sem háð væru dutlungum einstakra valdhafa og flokkshagsmuna. Þetta var nú fyrsti kosturinn, sem hv. frsm. meiri hl. taldi afturhaldstill. til gildis og allir sanngjarnir menn eiga að geta gengið að.

Annan kostinn taldi hann vera þann, að nú fengi Reykjavík helmingi fleiri þm. en hún hefir. Það er náttúrlega gott og blessað, að Framsókn hefir með till. þessari gengið inn á, að Reykjavíkurvaldið eigi þó rétt til fleiri fulltrúa. En þó er hér aðeins um hundsbætur að ræða, og það veit Framsókn líka mætavel. Um leið og Reykjavík fær 4 aukaþm., þá er tekin af henni sú hlutdeild, sem hún hefir átt í landskjörinu. Á þessu er sá munur, að nú getur Reykjavík með hlutdeild sinni í landskjörinu skilað þm. þeim, sem hún þar fær kosna, beint í Ed. og haft þar stöðvunarvald, eins og nú er, í stað þess, að eftir till. Framsóknar yrði Ed. skipuð af þeim sameiginlega sjóði fulltrúanna, sem kjördæmin skila inn á þing. Hér er verið að bjóða nokkur peð fyrir góða menn og auðsætt, að leikurinn er gerður til þess að kaupa af sér reiði Reykvíkinga. Frá mínu sjónarmiði séð er meginókostur þessara till. afnám landskjörsins. Það væri fyrir sig, ef þessir menn þykjast ætla að gefa gjafir, að þá væri gefið án þess að taka annað í staðinn. Eins og komið er, undir þeirri ranglátu kjördæmaskipun, sem við eigum við að búa, þá er landskjörið sú réttlátasta kosning, sem fram fer, enda hefir hún gert Framsóknarfl. svokallaða lífið næsta erfitt, eins og þeir herrar hafa rekið sig á, því að þessi kosning hefir skilað of mörgum andstæðingum inn í Ed.

Þá eru það uppbótarsætin 5, og má um þau segja, að ekki sé nú gefið af miklum ofsa. Þar kemur aðallega þrennt til greina:

Í fyrsta lagi eru þau aðeins 5, og má undarlegt vera, að þeir hv. þm., sem ætla að rifna af því að þingmenn séu 50, ætli sér að bæta úr öllu ranglætinu með 5 uppbótarsætum.

Í öðru lagi eru þessi uppbótarsæti ekki tekin upp í stjskr., heldur aðeins látið nægja að heimila að bæta þeim við, ef meiri hl. Alþ. þóknast að gera það.

Í þriðja lagi er sá staður, þar sem andstæðingar þessara gjafara eru fjölmennastir, undanskilinn. M. ö. o. Reykjavík á ekki að fá hlutdeild í uppbótarsætunum, heldur nær þessi heimild aðeins til kjördæmanna utan Reykjavíkur.

Þetta minnir mig á það, sem góður og í alla staði heiðarlegur framsóknarmaður sagði við mig fyrir nokkru. Hann hélt því fram, að eiginlega hefði Framsókn verið í meiri hl. eftir kosningarnar í sumar. Ég fór að spyrja hann, hvað hann hefði fyrir sér í slíku. Og hann var ekki í neinum vandræðum með svarið. Hann taldi aðeins þá kjósendur, sem greitt höfðu atkv. utan Reykjavíkur, því hitt var ekkert að marka, þó að skríllinn í Reykjavík skilaði svo og svo miklu af atkv. á móti Framsókn. Það átti ekki að taka til greina, heldur aðeins atkv. kjördæma hinna dreifðu byggða. Og þessi sami hugur er nú kominn inn í till., þær sem liggja hér fyrir frá hv. framsóknarmönnum.

Ég hefi þá minnzt á þessa fimm sanngirnispunkta í till. Framsóknar, er hv. frsm. meiri hl. taldi, að allir sanngjarnir menn hlytu að geta fallizt á. En svo kom hann með sjöttu sanngirnina, og hún var sú, að Reykjavík ætti ekki að hafa eins marga þm. að tiltölu og aðrir landshlutar. Þetta rifjar upp fyrir mér, þegar ég á sínum tíma flutti frv. um að fjölga þm. í Reykjavík, að þá reis hv. 2. þm. Árn. (MT) upp úr sæti sínu og mælti á móti slíkri fjölgun og sagði beinum orðum, að Reykvíkingar þyrftu engan þm., af því að þeir væru svo gáfaðir og þroskaðir á móts við sveitamenn. Og hann bætti því við, að þó Reykvíkingar sendu ekki nema einn mann á þing, þá vægi það fyllilega upp á móti 10 þm. utan af landsbyggðinni. Nýlega var sami hv. þm. að fræða menn á því í hv. Ed., að pundið í Reykvíkingum væri svo þungt, að þess vegna þyrftu þeir ekki að hafa neina fulltrúa á Alþingi. Af þessu liggur næst að álykta, að pundið í kjósendum hinna dreifðu byggða sé svo létt af því, að þeir eru hvorttveggja í senn: fáfróðir og óþroskaðir. En allt er þetta sama tóbakið og hv. þm. Barð. var að bjóða upp á, en þó skaplegar sett fram.

Annars skal ég ósagt láta, hvernig þetta kemur heim við almenna réttlætistilfinningu. Mér dettur í hug fangelsisrefsing og þau ákvæði, sem þar um gilda. Það mætti færa sem ástæðu, að ekki væri rétt að dæma menn í jafnlanga fangavist af því í hvaða stöðu þeir væru. Sumir menn eru svo illa stæðir, að fangelsisvist er þeim sannur griðastaður móts við að vera heima hjá sér. En aðrir lifa því lífi, að fangelsið verður þeim óguðlegur staður. Þó heldur löggjöfin áfram að mæla refsinguna í dögum, án tillits til þess, hvort þeim dæmda muni falla vistin vel eða illa. Sama er hér að segja, því þó að gott væri að láta fáfræðinga enga fulltrúa fá, þá er ekki hægt að mæla með því á þann hátt að strika út aðra menn, hvort sem þeir eru gáfumenn, efnamenn eða eitthvað annað. Sá maður, sem kominn er á vissan aldur, á sama rétt til kosninga eins og hver annar, og þetta er sú eina regla, sem gildir um skipun Alþ. og hlýtur að gilda á meðan Íslendingar búa í lýðfrjálsu landi.

Annars veit ég ekki, hvað þeir hv. þm. eiga við, sem sí og æ eru að nöldra um áhrif Reykjavíkur á Alþingi. En hitt vil ég benda þeim á, að það er ekki vert að espa Reykjavík til þess að hafa áhrif á Alþ. fyrir milligöngu annara en fulltrúa þeirra, er hún sendir þangað í réttu hlutfalli við aðra landshluta, því að vel gæti farið svo, að Reykjavík gæti haft gagngerð áhrif á Alþ. sakir mannfjöldans, sem þar er saman kominn, og brotið þar með allar þinglegar reglur. Ég veit ekki, hvort það er þetta, sem hv. frsm. meiri hl. var að benda á sem lausn í þessu máli.

Ég ætla ekki að lengja umr. frekar að svo komnu. En ekki get ég hugsað mér ömurlegri aðstöðu en stjórnarflokkurinn er kominn í, og þó verður sú aðstaða enn ömurlegri eftir því sem Framsóknarfl. stendur lengur á móti réttlátum kröfum og vilja mikils meiri hl. kjósenda í landinu. Það er sama aðstaðan og danskur stjórnmálaflokkur beitti á sínum tíma, og sá flokkur hefir ekki beðið þess bætur enn þann dag í dag. Og svo fer fyrir hvaða flokki sem er, sem ætlar sér að standa á móti réttlátum kröfum meiri hl. kjósenda með því að beita falsi og svikum á meðan kostur er. Slíkur flokkur hlýtur að falla og sundrast og á sér aldrei uppreisnar von. Þá væri betra og viturlegra að feta í fótspor hinna vísu feðra frá kristnitökunni.