18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1933

Þorleifur Jónsson:

Ég á enga brtt. nú, fremur en áður, sem ég þarf að mæla fyrir. Ég vil þó leyfa mér að minnast á eitt atriði, viðvíkjandi samgöngumálunum á sjó, aðallega nál. samgmn. viðvíkjandi flóaferðum.

Ég var lasinn og því fjarverandi, er þessu nál. var útbýtt hér í d. og var fyrri hl. 2 umr. fjárlfrv. lokið, er ég gat mætt. Gafst mér því ekki tækifæri til að taka til máls um þetta við 2. umr.

Ég verð að segja, að ég gat ekki búizt við því, að samgmn. skipti styrknum til flóaferða svo sem hún hefir lagt til, að gert verði. Ég hafði talað við n., og virtist mér hún fallast á till. mínar, þær sem ég hafði fram að færa. En þetta hefir þó snúizt á annan hátt. Og þegar ég sá nál. prentað, sá ég, að ég gat ekki fallizt á till. hennar að öllu leyti. Það er skiptingin á styrknum til Hornafjarðarbátsins, sem n. ætlar 7000 kr., og til bátaferða innan A.-Skaftafellssýslu, sem n. ætlar 400 kr. til, eða alls 7400 kr. Í fjárl. þessa árs, eftir till. samgmn., eru ætlaðar 9500 kr. til þessara ferða. Til Hornafjarðarbátsins 7000 kr. og til bátaferðanna innan sýslu 2500 kr. Þetta er því stórfelld lækkun. En ég mun þó ekki gera það að kappsmáli að fá þennan styrk hækkaðan í heild. En ég álít, að þessi lækkun hefði átt að koma líkt niður á öllum ferðunum, bæði Hornafjarðarbátsins og flutningaferðunum innan sýslu. En eins og þegar er sagt, þá ætlast samgmn. til þess, að Hornafjarðarbáturinn haldi sama styrk og áður, 7000 kr., en öll lækkunin kemur fram á bátaferðunum um sýsluna. Hann á að lækka úr 2500 kr. niður í aðeins 400 kr. Ég skal nú að vísu taka það fram, að stj. er ekki beinlínis skylt að fara eftir till. samgmn. um úthlutun þessa styrks. Ég vil því vænta þess, að stj. sjái sér fært að lagfæra þetta eftir tillögum kunnugra manna innan sýslunnar. það er afar mikilsvert, að hægt sé að halda uppi ferðum meðfram strönd Austur-Skaftafellssýslu, sem er býsna löng strandlengja, en landflutningar langir og erfiðir, og mörg stórvötn, öll óbrúuð. Þar verður en víða að viðhafa klakkaflutning úr kaupstað, s. s. er um Öræfi, Suðursveit, Mýrar og Lón. Undanfarin ár hafa því bátaferðirnar gert mjög mikið gagn um þungavöruflutning, og m. a. gert bændum kleift að draga að sér áburð og byggingarefni o. fl. En þetta hefðu þeir ekki getað gert, ef þeir hefðu ekki notið styrks. Ég tel því mikilsvert, að styrkurinn til þessara ferða yrði nokkuð hærri. Þegar mér varð það ljóst, að samgmn. hafði lagt til að lækka þessa samgöngumálastyrki til A.-Skaftafellssýslu, úr 9500 ofan í 7400 kr., þá gerði ég till. um það, að Hornafjarðarbátur fengi fi000 kr. og flutningaferðir innan sýslu 1400. En þetta fór samt öðruvísi en ég óskaði. Ég vildi því láta þessa óánægju mína koma fram við till. á þskj. 361. Og ég vildi líka láta það koma fram, að óskað hefði verið eftir því, að styrknum næsta ár verði skipt svo, að ferðirnar með ströndum fram geti haldið áfram. Bátur þessi hefir flutt á 3 staði, í Lónið, á Papós, Bæjarós, Hvalneskrók og að Söndunum í Suðursveit, og farið ferðir í Öæfin. Væri það því mikil viðbrigði, ef þessum ferðum væri kippt í burt. Og þess vegna mælist ég til þess, að ríkisstj., þótt till. liggi svona fyrir, taki tillit til óska og þarfa sýslubúa að þessu leyti. Ég hefði að vísu getað komið fram með brtt. um að hækka bátastyrkinn í heild sinni, en bæði var það, að ég bjóst ekki við, að slík brtt. fengi fylgi, enda hafði ég einsett mér að gera enga brtt. til hækkunar á fjárlfrv. Mér þykir sem ástæður séu eigi svo góðar, að rétt sé að gera till. til hækkunar á útgjöldum ríkisins. Og ég get líka gert mig sæmilega ánægðan með 7400 kr. til þessara ferða. Aðeins að þessum styrk verði skipt á annan hátt en samgmn. leggur til. Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira um þetta, og mun heldur ekki teygja tímann með því að minnast á brtt. þær, er hér liggja fyrir. Læt ég því máli mínu lokið.