19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

25. mál, opinber greinargerð starfsmanna ríkisins

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að með frv. þessu er allmikill vandi lagður á herðar útvarpsráðs, sem full þörf er á, að réttilega og sanngjarnlega sá af hendi leystur; en á herðum útvarpsráðsins hvílir nú yfirleitt sá vandi að velja allt útvarpsefni, og hér mundi það einmitt beita sömu aðferð, að meta erindin og ráðfæra sig við fyrirlesarann.

Ég skal taka það fram, að það er sérstaklega ætlazt til, að fengin verði erindi um hin vaxandi kerfi í starfsemi þjóðfélagsins, sem eru bundin hraðfara þróun, svo sem vegamál, vitamál, símakerfi, útvarp og fleiri þvílíkar ríkisstofnanir.

Ég veit, að það er öðru máli að gegna með ýms önnur störf, svo sem eins og t. d. starf hv. 4. þm. Reykv. Og það var alveg rétt, sem hann sagði, að um það gæti verið nægilegt að fá 1 til 2 fyrirlestra, og hið sama gildir að sjálfsögðu um önnur hliðstæð efni, nema þá ef þau af einhverjum óvenjulegum ástæðum taka verulegum breytingum. Erindi um þessháttar störf væri þá ekki bundið við að halda á hverju ári, heldur með lengra millibili, því eins og ég hefi bent á, eru mörg önnur störf, sem árlega leggja til nýtt og nýtt efni.

Það er langt frá því, að ég ætli að halda því fram, að þetta frv. sé svo fullkomið, að ekki sé hægt að færa það til betra vegar, og ég er þakklátur fyrir hverjar þær brtt., sem miða til bóta, hvaðan sem þær koma.

Út af fyrirspurn hv. þm. N -Ísf. skal ég taka það fram, að ekki þótti rétt að takmarka frv. eingöngu við menn búsetta í Reykjavík, þó að hér séu hinsvegar búsettir langflestir þeir starfsmenn ríkisins, er líklegastir væru til þess að flytja þessi erindi, og þá fyrst og fremst þeir, er veita forstöðu hinum stóru vaxandi starfskerfum ríkisins.

Að öðru leyti þótti ekki sanngjarnt, að þeir, sem þyrftu að ferðast til Reykjavíkur í þessum erindum eftir áskorun útvarpsráðsins, væru látnir kosta ferðir sínar, og þess vegna er sett það ákvæði í frv., að greiða hann kostnað eftir reikningi.

Ég get ekki gert neina áætlun um það, hversu mikill þessi kostnaður mundi verða, en það má gera ráð fyrir, að það kæmi aðeins örsjaldan fyrir, að starfsmenn ríkisins utan af landi yrðu þannig kvaddir hingað þessara erinda. Og áreiðanlega mundi sá kostnaður miklu meir en vinnast upp með þeim ókeypis erindum, er útvarpið fengi samkv. frv. — Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur þetta fullnægjandi svar, en að svo stöddu get ég ekki svarað nánar um þetta atriði.