08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í C-deild Alþingistíðinda. (11314)

76. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Það er nokkuð til í því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ef frv. yrði samþ., þá yrði það til þess að ýta undir sveitarstjórnir um að fara í kringum lög, og þó að ég geti í sjálfu sér verið með frv. þessu, álít ég samt, að svona smávægilegar breyt. ætti ekki að gera fyrr en tekin yrði til athugunar endursköpun á fátækralögum landsins. Hér hefir áður legið fyrir heilsteypt frv. um þessi efni. Slíka breyt. þarf að gera, en mér er kunnugt um, að það er ómögulegt fyrr en sveitarfélög fá endurgreidda útistandandi sveitarstyrki. Eru það tugir þúsunda, sem sum sveitarfélög eiga úti og ekki er hægt að fá. Veit ég ekki, hvernig slík framkvæmd ætti að vera, er kippt gæti þessu í lag, en þó skilst mér sem svo gæti farið, að ríkissjóður yrði að skerast í málið. Virðist mér sem ýms sveitarfélög eigi nú ekki annars úrkosta en að ganga að hreppsbúum eða leysast upp ella, og yrði þá, finnst mér, ríkissjóður að greiða skuldir þessar við hreppsfélögin. Eru ýmsir kaupstaðir í miklum vanda af þessum ástæðum, og þarf að greiða úr þessu, en ekki auka á vandræðin. Ég veit ekki, hvort á þessu þingi verður borið fram frv. til framfærslulaga, en vil þó skjóta því til hv. n. að athuga, hvort hún sæi sér ekki fært að taka upp algerða breyt., sem meir svaraði til ástandsins í landinu, þannig, að einstök sveitarfélög geti ekki sloppið við að taka þátt í almennri framfærslu. Mörg sveitarfélög, sem eru í nánd við kaupstaði, eiga hægt með að koma þangað ómögum, sem engin leið er til að losna við síðar. Væri eðlilegt, vegna þessara vandræða, að fátækralögin væru tekin til endurskoðunar í heild. Vildi ég þá láta halda sér að því aðalatriði, að landið yrði eitt framfærslufélag, svo að komið yrði í veg fyrir reiptog sveitarfélaga um skuldaskipti. Það ástand, sem nú er, getur ekki haldizt til lengdar, að skuldir svo að nemur tugum þúsunda safnist milli sveitarfélaga án þess að hægt sé að ná þessu inn.