08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í C-deild Alþingistíðinda. (11319)

76. mál, fátækralög

Flm. (Magnús Torfason):

Mér þótti fyrir því, hve hv. 6. landsk. tók sér það nærri, að ég kom fram með þetta frv. Kom mér ekki í hug, að henni gæti hlaupið kapp í kinn út af jafnmeinlausu frv., þegar á hana er litið sem landsk. þm. Hitt er annað mál, að ég skil vel, að hún sem starfsmaður bæjarins láti sér ekki á sama standa. Hv. þm. hefir ekkert á móti því, að menn vinni hérna fyrir þetta bæjarfélag, en hún vill, að viðkomandi maður sé a. m. k. 10 ár að vinna sér fullan borgararétt í þessu bæjarfélagi. (GL: Hvenær hefi ég sagt það?). Já, mér virtist það liggja í orðum hv. þm., en ef hér er um misskilning að ræða hjá mér, þá bið ég vitanlega velvirðingar á því.

En það voru önnur ummæli, sem hv. 6. landsk. þm. lét út úr sínum fríða og fallega munni, sem ég vil ekki láta með öllu ósvarað. Hún lét svo um mælt, að þegar menn væru búnir að vera hér 2 ár, þá kæmu menn „á mínútunni“ á bæjarsjóðinn. Mér þykir þetta allharður dómur, og ég verð að halda, að hv. þm. hafi ekki meint þetta á þann veg, sem orðin féllu, og marka ég það m. a. af því, að henni hljóp nokkur roði í kinn, er hún lét þessi orð falla. Ég get hvað snertir Árnessýslu borið um það af nokkrum kunnugleika, að slík ummæli hafa ekki við hin minnstu rök að styðjast. Ég veit ekki gerla, hversu þessu er varið í öðrum héruðum landsins, en ég vil í öllu falli hafa Árnesinga mína undantekna þessum áburði: En segjum nú, að eitthvað væri hæft í þessum ummælum hv. 6. landsk. Á hvað benti það? Það benti til þess, að hugsunarháttur manna breytist við það, að þeir flytjast hingað í fjölmennið. Þar, sem ég þekki til, þekki ég þess ekki dæmi, að menn geri sér leik að því að segja sig til sveitar, heldur reyna menn að verjast í lengstu lög og leita ekki á náðir sveitarinnar fyrir en þeir eiga að búa við harðrétti. En ef orð hv. 6. landsk. eru sönn hvað Rvík snertir, þá hlýtur skýringin að liggja í því, að hugsunarháttur þessa fólks spillist við hingað komu þess, og ef svo er, þá bera þessi pláss, sem fólkið flytur i, mikla ábyrgð á því, og ætti að því athuguðu að vera fremur ástæða til að samþ. frv. Hv. þm. var að vísa í þá miklu breyt., sem væntanlega yrði gerð á fátækralöggjöfinni á næstu árum hvað þessi atriði snertir. Ég fyrir mitt leyti geri ekki ráð fyrir slíku, nema þá að fátækralöggjöfinni verði breytt að stefnu til, en slík breyt. á áreiðanlega svo langt í land, að ég býst ekki við, að mitt þinglíf endist svo lengi, að ég svo mikið sem sjái framan í slíkt frv., hvað þá heldur að maður lifi það, að svo gagngerð breyting nái fram að ganga.