09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í C-deild Alþingistíðinda. (11325)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Halldór Steinsson:

Því verður ekki neitað, að Ólafsfjarðarhreppur á við mikla erfiðleika að stríða um læknissókn. Hinsvegar verður á fleira að líta, þegar farið er fram á að stofna sérstakt læknishérað. Í því felst fyrst og fremst embættafjölgun. Og ég álít, að á þessum tímum verði að fara varlega í þær sakir. En svo verður einnig að gæta þess, þegar um er að ræða að stofna nýtt læknisembætti. hver nauðsynin er, og í öðru lagi, hvort héraðið sé svo fjölmennt, að það sé lífvænlegt fyrir lækni að setjast þar að. Nú er það svo, að Ólafsfjarðarhreppur er með fjölmennustu hreppum á landinu, en sem sérstakt læknishérað með þeim allra fámennustu. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að þó þarna yrði stofnað sérstakt læknishérað, þá mundi ganga mjög treglega að fá nokkurn lækni til að setjast þar að. Það mundu ekki gera aðrir en þeir, sem ekki eiga annars úrkosta. Það er skiljanlegt, að læknar vilja ekki fara í þessi litlu héruð. Fyrst og fremst af því, að þeir geta ekki lifað þar, og svo í öðru lagi af því, að hætt er við, að þeir verði aftur úr í sínum fræðum sökum æfingarleysis. Í þessu liggur það, að þessi héruð verða ekki eftirsóknarverð; fæst venjulega enginn til að setjast í þau. Svo framarlega sem það er erfiðleikum bundið að fá núverandi lækni til að setjast að þarna með þessum launum, sem hann hefir, þá mun það verða erfitt, ef launin eiga að vera minni, því að ef þarna yrði stofnað sérstakt læknishérað, myndu launin verða nokkuð lægri en þau laun, sem núverandi læknir hefir þar.

Eins og ég tók fram, þá eru miklir erfiðleikar fyrir héraðsbúa að ná í lækni, en ég vil þó hinsvegar viðurkenna, að þingið hefir séð og fyllilega kannazt við þessa erfiðleika, þar sem það hefir veitt 2600 kr. úr ríkissjóði til sérstakrar læknishjálpar. Það er meira en veitt hefir verið nokkrum sérstökum hrepp á landinu; þeir hæstu fara ekki fram úr 600 kr. Þessum hrepp er gert hærra undir höfði en öllum öðrum, og ég viðurkenni, að hann á það fyllilega skilið. Þess vegna verður ekki annað sagt en að þingið hafi séð erfiðleikana, sem hér eru, og reynt að bæta úr þeim. Ég álít þá leið heppilega, að þingið haldi sömu stefnu og áður að veita ríflegan styrk til læknishjálpar á þessum stað, án þess að gera hreppinn að sérstöku læknishéraði. Annars finnst mér, að það hefði átt að taka það fram í frv., í hvaða launaflokki væri ætlazt til, að þetta hérað yrði.