09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í C-deild Alþingistíðinda. (11326)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Fjm. (Einar Árnason):

Ég sé ekki ástæðu til að gera miklar aths. við það, sem hv. þm. Snæf. sagði um þetta mál. Hann taldi fyrst og fremst, að þetta myndi vera fámennasta læknishérað á landinu. Ég tel vafasamt, að hann hafi rétt fyrir sér í því. Ég hygg, að ekki fá læknishéruð séu fámennari. Hann lítur svo á, að slíku héraði sem þessu myndi reynast mjög erfitt að fá lækni. Má vera, að þetta sé rétt hjá hv. þm. En það er nú svo, að fólkið lítur svo á, að læknarnir séu til fyrir það, en ekki fólkið fyrir læknana. Fólk hefir alveg eins mikla þörf fyrir læknishjálp í fámennum héruðum og fjölmennum. Það getur ekki skilið, að það eigi að gjalda þess, að það er illa sett, annaðhvort af náttúrunnar hendi eða vegna fámennis, að það eigi ekki að fá samskonar hjálp og þá, sem þjóðfélagið veitir öðrum þegnum sínum. Ég vildi taka það fram út af fámenninu, að íbúarnir eru hér um bil allir á sama blettinum. Það er töluverður munur fyrir lækni að starfa í fámennu héraði, þegar byggðin er ekki mjög dreifð. Þarna býr flest fólkið í útgerðarþorpi. Einmitt af útgerðinni leiðir, að meiri þörf er fyrir lækni heldur en ef þetta hefði verið dreifð landssveit. Í öðru lagi, að einmitt á þessum stað er mjög ódýrt að lifa. Nú er þess að gæta, að sú sveit, sem næst liggur Ólafsfirði, sem sé Stífla, heyrir til Hofsóshéraði. Ef læknir væri í Ólafsfirði, þá væri auðveldara að vitja læknis þangað úr Stíflu heldur en til Hofsóss. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki erfitt fyrir lækni að framfleyta lífinu í Ólafsfirði með þeim launakjörum, sem hér er um að ræða.

Það er náttúrlega mikið til í því, að læknar verði aftur úr í sínum fræðum í slíkum héruðum. En við getum ekki veitt öllum læknum tækifæri til þess að starfa þar, sem þeir geta haldið áfram á þroskabraut í læknavísindum og lært meira en þeir kunnu, þegar þeir komu frá prófborðinu. Við getum ekki gert öll læknishéruð þannig úr garði, að þau þroski læknana í sinni starfsemi. Ég held, að Ólafsfjörður sé ekki undantekning frá ýmsum öðrum héruðum hvað þetta snertir.

Það skal játað með þakklæti fyrir hönd Ólafsfjarðar, að þingið hefir viðurkennt nauðsynina með því að veita styrkinn. Það, sem er aðalatriðið fyrir Ólafsfirðinga, er, að þeir hafi vísa læknishjálp, þegar mest liggur á. Það er öryggið heima fyrir, sem þeir hugsa mest um. Við skulum taka til dæmis sængurkonur. Í mörgum tilfellum myndi ekki vera nokkur leið að fá hjálp, ef læknirinn er ekki á staðnum, því það er, eins og ég hefi áður tekið fram, bæði ófært á sjó og landi langtímum saman um vetrarmánuðina.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. (HSteins) sagði, að réttara hefði verið, að tekið hefði verið fram í frv., hvaða launakjör þessi læknir hefði, þá má það vel vera rétt, en það var svo þegar Hólshreppshéraðið var stofnað, að þá var ekkert um það sagt í lögunum, hvaða laun ættu að fylgja því héraði. En ég býst við, að úr þessu megi bæta í meðferð málsins.