06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í C-deild Alþingistíðinda. (11331)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Frsm. (Einar Árnason):

Ég þarf í raun og veru litlu að svara hv. þm. Snæf., þar sem hv. 1. landsk. hefir að mestu tekið af mér ómakið um það. Hv. þm. Snæf. talaði um, að það væri óviðeigandi á erfiðleikatímum að vera að stofna nýtt embætti. Þessi ummæli geta verið góð og gild út af fyrir sig. En hér eiga þau naumast við. Hvað launagreiðslu snertir, þá er hér eiginlega ekki um nýtt embætti að ræða, því útgjöldin fyrir ríkissjóð verða ekki teljandi meiri en nú er. Munar aðeins fáum hundruðum króna. En með samþykkt þessa frv. er hinsvegar létt þungri byrði af fátæku sveitarfélagi. Er það sanngjarnt, að löggjafarvaldið láti Ólafsfirðinga ekki gjalda þess, hve aðstaðan þar er erfið frá náttúrunnar hendi, með því að láta þá greiða hátt gjald til læknis, sem þeir mega ekki án vera.

Hv. þm. Snæf. þótti gott að fækka embættum. Getur það í sumum tilfellum verið rétt. En engar óskir hafa um það komið frá þjóðinni, að læknum væri fækkað; miklu frekar hafa verið látnar uppi óskir um það, að þeim væri fjölgað.

Hv. þm. Snæf. talaði um, að hérað þetta væri magurt eða tekjurýrt, svo að læknar mundu ekki fá þar tækifæri til að auka þroska sinn. Það er nú svo í fleiri fámennum og strjálbyggðum héruðum, að þar er ekki alstaðar hægt að veita sér allt það, sem þarf til að skapa nauðsynlegan þroska. Læknar verða þar sem aðrir að búa við fátækt og fámenni og aðra erfiðleika.

Ég held nú samt, að þó að þetta læknishérað sé fátækt og fámennt og verði það sjálfsagt áfram, að það komi þó á daginn, að önnur héruð verði enn fámennari. Ég sé á brtt. við frv. það um skipun læknishéraða, sem nú liggur fyrir Nd. og mun á sínum tíma koma hingað líka, að þar er lagt til, að stór hluti eins læknishéraðs verði tekinn frá því og lagður undir 2 önnur héruð. Þetta er Höfðahverfishérað. Ef brtt. verða samþ., þá verður þetta hérað orðið lítið annað en einn hreppur, sem er þó fámennari en Ólafsfjörður. Það er margt sem styður að því, að þetta verði gert. Samgöngurnar hafa breytzt og batnað svo mjög síðan skipun var gerð á læknishéruðum.

Hv. 1. landsk. sagði, að þeir menn, sem gegndu þessum fámennu og tekjurýru héruðum um hríð, ættu að verða þeirra hlunninda aðnjótandi að færast í önnur betri, þegar þeirra væri völ. N. ætlaðist til þessa og telur, að það felist í brtt. Ég er fyllilega samdóma því, sem hv. l. landsk. sagði um málið.