15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í C-deild Alþingistíðinda. (11349)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Jón Þorláksson:

Ég vil með ánægju viðurkenna þá viðleitni og stefnu, sem kemur fram í þessu frv. Ég skal fúslega játa, að það er viðkunnanlegra að fá um þetta heildarlög, sem taka yfir allar þær ríkisstofnanir, sem svipað er ástatt um og t. d. tóbakseinkasölu ríkisins, heldur en að fá það ákvæði sem sérstaka grein inn í lög hverrar slíkrar stofnunar. Ég vil þó, áður en málinu verður vísað til n., leiða athygli að því, að ég álít í rauninni nauðsyn á því, að fyrirmæli og refsiákvæði slíks frv. sem þessa væru í samræmi við ákvæði hegningarlaganna að því leyti, sem þetta frv. grípur inn á sama svið og hegningarlögin nú þegar ná yfir.

Það er enginn efi á því, að refsiákvæðin ná til slíks hátternis þeirra manna, sem taldir eru upp í fyrri hluta upptalningarinnar, og um formenn sveitar- og bæjarfélaga er líka ákveðið í hegningarlögunum. En ég er ekki viss um, að refsiákvæðin séu þau sömu, og ég er ekki heldur viss um, að það sé viðeigandi að setja sömu ákvæði að því er snertir samvinnufélög.

Ég vil svo að endingu óska þess, að frv. breytt eða óbreytt verði nú afgr. á þessu þingi.