07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í C-deild Alþingistíðinda. (11354)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi það eitt út á þetta frv. að setja, að það er ekki nógu viðtækt. Ég er að vísu samdóma hv. 2. landsk. um það, að engin slík óráðvendni hefir átt sér stað hjá samvinnufélögunum, en þetta getur þó komið fyrir eigi að síður. Kaupfélögin eru almenningsstofnanir, þó að ekki séu þau ríkisstofnanir, og tel ég sjálfsagt, að þau komi einnig undir ákvæði þessara laga, og mun ég því greiða atkv. á móti brtt. n. Hefi ég og hugsað mér að bera fram brtt. við frv. við 3. umr. í þá átt, að hlutafélögin séu og tekin hér með í þetta. Tel ég rétt, að þau séu einnig undir aðhaldi að þessu leyti, því að þau eru nú að verða meiri og meiri þáttur í okkar þjóðfélagslífi, og það leiðir beint af formi hlutafélaganna, að ekki er hægt fyrir hluthafana, sérstaklega þó þá, sem smáa hluti eiga, að fylgjast með í rekstri þeirra, sem þannig verður eingöngu á valdi framkvæmdarstjóranna, og er því rétt, að þeir séu einnig undir aðhaldi í þessum efnum.