11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í C-deild Alþingistíðinda. (11358)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls, þá álít ég eðlilegt og rétt, að þessi ákvæði, sem frv. fer fram á viðvíkjandi ríkisstofnunum, nái einnig til manna, sem vinna fyrir félög. Þess vegna greiddi ég atkv. á móti því, að samvinnufélögin væru felld úr frv. Og þess vegna álít ég rétt, þó það verði kannske ekki samþ., að þetta álit mitt komi fram við þessa umr., að rétt sé að gera hlutafélögum að skyldu að gera þessar kröfur til sinna manna.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta, því ég býst við, að allir viti glöggt, hvernig þeir líta á þetta mál, en þó þetta verði ekki samþ. nú, tel ég víst, að því verði bætt inn í l. seinna, að samvinnufélög og hlutafélög skuli vera undir þessu aðhaldi.