06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í C-deild Alþingistíðinda. (11375)

300. mál, kosning til Alþingis

Jón Jónsson:

Ég verð að segja það, að mér finnst hv. flm. nokkuð bráðlátir í breyt. á kjördæmaskipuninni. Þeir láta sér ekki nægja stóra plaggið sitt, stjórnarskrárbreytinguna, sem þeir hugsa sér að knýja fram með einhverjum ráðum á þessu þingi, til þess að geta svo bylt kjördæmaskipuninni á því næsta, heldur vilja þeir fá einhverja breyt. strax. Þetta væri þó sök sér, ef þessi breyt. virtist vera heppileg. En það fæ ég ekki séð, að hún sé, enda skauzt það upp úr hv. flm., að hann teldi þetta neyðarúrræði, úrræði, sem einungis væri gripið til vegna ákvæða stjskr. Mér skilst, að eftir þessu frv. sé það hér um bil gefið, að þar, sem tveir flokkar keppa í tvímenningskjördæmi, komi hvor flokkurinn einum manni að, hversu mikill atkvæðamunur, sem á þeim er, jafnvel þó annar ætti 10 sinnum fleiri kjósendur en hinn. Ég tel afskaplega hæpið, að hægt sé að treysta því; að hægt sé að skipta svo niður kjósendum, að hið rétta komi fram. Það er a. m. k. miklum vandkvæðum bundið, enda þó meiri hl. í kjördæminu eigi þar 2/3 kjósenda eða meira og því sanngirnisrétt á því að fá báða sína frambjóðendur kosna. Þótt segja megi, að sú tilhögun, sem nú er um kosningu þm. í tvímenningskjördæmum, sé gölluð, þá er þetta fyrirkomulag ekki síður gallað. Hitt væri fremur umtalsvert, að skipta tvímenningskjördæmunum, því þá hefði enginn kjósandi úrslitaáhrif nema á kosningu eins þm. Mér finnst þetta frv. svo gallað, að ég tel mig ekki geta fylgt því út úr þessari deild. Hinsvegar veit ég ekki, hvort ég kæri mig um að greiða atkv. gegn því við þessa umr.