06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í C-deild Alþingistíðinda. (11379)

300. mál, kosning til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. sagði, að frv. þetta færi ekki fram á breyt. á kjördæmaskipuninni, hér væri frekar um breytta kosningatilhögun að ræða. En þetta tvennt er nú skylt hvort öðru, því eftir núgildandi kosningal. eru tveir þm. kosnir í þessum kjördæmum og hver kjósandi í þeim hefir rétt til að velja tvo þm. Þetta er því breyt. á hvorutveggja. Og í eðli sínu er þetta líka hlutfallskosning, því þessi aðferð gerir það mögulegt, að hæfilega stór minni hl. komi öðrum manninum að, sem ekki var hægt áður.

Hv. 1. landsk. segir, eins og líka stendur í grg. frv., að einungis sé ætlazt til, að þetta verki við næstu kosningar. En ég hafði í huga, að þetta gæti nú allt farið eftir því, hvernig fer um stjórnarskrána. Það er óþarfi að blekkja sjálfan sig eða aðra á því, að allt er undir því komið, að samkomulag fáist milli flokkanna um stjórnarskrána. Ef það samkomulag næst, þá þarf þessarar breyt. á kosningal. ekki við. Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hafa orðið sammála, en spurningin er, hvernig Framsóknarflokkurinn snýst við þessu máli. En ef samkomulag fæst, þá er ekki ástæða til annars en ætla, að þetta fái samþ. eftir næstu kosningar. Þetta getur því ekki haft neina verulega þýðingu, nema ef það yrði til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn yki svo þingmannafjölda sinn, að hann væri einn fær um að ráða þessum málum á næsta þingi. En eftir líkum og miðað við það, er fram kom við síðustu kosningar, þá má ætla það, að séu framsóknarmenn ekki sammála þeirri breyt. á næsta þingi, sem nú yrði gerð á stjskr., þá hefðu þeir þó alltaf stöðvunarvald á því þingi. En sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn hafa það vopn í hendi, sem gerir það að verkum, að það er ófýsilegt fyrir framsóknarmenn að standa móti og ganga til kosninga, ef þeir bregða fæti fyrir stjórnarskrárfrv. En um frv. það, sem nú liggur fyrir; skiptir ekki miklu máli. Ef stjórnarskrárfrv. verður samþ. nú, þá verður það líka samþ. á næsta þingi. Og þá er sama, hvor flokkurinn verður kosinn í þessum kjördæmum. En ef það verður ekki samþ., þá verður að beita öðrum meðulum en þessu frv. (JónJ: Hvaða meðul eru það?). Hv. þm. er víst hræddur við byltingu. En það þarf nú ekki annað en neitun hér í Ed., að stjórnarandstæðingar ráði því, hvað samþ. verður hér. Og þá er komið svo, að ekki er hægt að stjórna á annan hátt en með bráðabirgðal. og einræðisvaldi. En það hefir allajafna reynzt undanfari blóðugra byltinga. Á annan hátt en þann er ekki hægt að svara því.