06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í C-deild Alþingistíðinda. (11380)

300. mál, kosning til Alþingis

Jón Jónsson:

Það er rétt, sem hv. flm., 1. landsk. þm., sagði, að frv. þetta fer ekki beint fram á breyt. á kjördæmaskipuninni. En það ber þó eigi að síður vott um bráðlæti um breyt. á henni. Hv. flm. sáu sér ekki fært að koma fram með till. um beina breyt. á kjördæmaskipuninni, og því er þetta framborið til bráðabirgða. En útkoman eða afleiðing þess verður þó á engan hátt réttlátari, heldur þvert á móti. Frv. þetta, ef að l. verður, getur leitt til þess, að örlítill minni hl. fái annan manninn kosinn í tvímenningskjördæmi, en stór meiri hl. ekki nema annan. Þessi tilhögun er því ekki réttlát. Hv. flm. sagði, að þetta væri borið fram vegna einna kosninga. En þetta hefir enga raunverulega þýðingu. Stjórnarskrárfrv. getur ekki orðið afgr. á þessu þingi, nema samkomulag náist um það við Framsóknarflokkinn. Og ef hann verður nú sammála, þá verður hann það líka á næsta þingi. Viðvíkjandi ógnunum þeim, sem fram komu í niðurlagi ræðu hv. 2. landsk., að ef ekki væri gert þetta og þetta, þá hefðu stjórnarandstæðingar vald til þess að láta ekki annað en það, er þeim sýndist, ganga fram á þessu þingi, get ég að vísu ekki mikið sagt. En ég kann því illa, að verið sé að ympra á þessum hlutum. Þótt þeir fái ekki komið fram einhverju máli, sem þeir koma með, þá losar það þá ekki undan þeirri ábyrgð, sem þeim sem þm. er lögð á herðar, að bjarga þjóðinni á þessum erfiðu tímum. Og sízt af öllu er það til þess fallið að bæta samkomulagið að vera með slíkar hótanir.