06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í C-deild Alþingistíðinda. (11383)

300. mál, kosning til Alþingis

Forseti (GÓ):

Ég vil segja fáein orð út af fyrirspurn hv. 2. þm. Eyf.

Ég vil ekki fullyrða, að frv. brjóti á móti 26. gr. stjskr., en þetta frv. er náttúrlega kynlegt, því að svo er ætlazt til, að í tvímenningskjördæmum hafi menn rétt á að kjósa tvo þm., en með þessu er sá réttur af þeim tekinn. Það hefði verið miklu réttara fyrir þessa hv. þm. að leggja til, að tvímenningskjördæmunum yrði skipt í tvö einmenningskjördæmi. Hv. flm. virðast sjálfir álíta, að þetta sé vandræðafyrirkomulag, því að þeir vilja ekki láta kjósa samkv. þessum reglum nema í eitt einasta skipti. Hví ætti ekki að láta þessar reglur gilda lengur, ef þær væru heppilegar?

Ég álít, að frv. geti gengið til 2. umr., og getur þá n. athugað, hvort þetta brjóti eitthvað í bága við stjórnarskrána, sem ég get ekki fundið, því að þetta er ekki kallað hlutbundin kosning, þó að hún fari svipað fram, eins og hv. 2. þm. Eyf. henti á.

Þetta athugar n. að sjálfsögðu, og getur svo d. tekið til sinna ráða, þegar málið kemur til 2. umr.