06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í C-deild Alþingistíðinda. (11384)

300. mál, kosning til Alþingis

Jón Jónsson:

Það er aðeins stutt aths. Út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, get ég ekki séð annað en að það felist óbein hótun í því, sem hann sagði, að hann áliti rétt að taka til ýtrustu ráða til að knýja fram þetta mikla mál, sem þeir bera fyrir brjósti, og þá þeirra ráða að eyðileggja þau mál, sem verða óumflýjanlega að fá afgreiðslu til þess að hægt sé að stjórna ríkinu.

Ég lít svo á, að þetta sé alvarlegur og ábyrgðarmikill hlutur og að enginn þm. hafi rétt til að skorast undan því á þessum tímum að fyrirbyggja það, að þjóðin verði fyrir þeim traustsspjöllum, sem óhjákvæmilega mundi leiða af því, ef þau mál ná ekki fram að ganga, sem verða að fá afgreiðslu, ef ríkið á að geta starfað. Slík hótun sem þessi er því alveg óviðeigandi. Hitt er líka skylda, að þessum hv. þm. sé sýnd full sanngirni í þessum málum. Ég vil því láta þá ósk mína í ljós, að á þessum tímum, sem eru erfiðari en nokkrir aðrir tímar, sem við höfum lifað, skoði þm. það sem sitt sérstaka hlutverk að gera skyldu sína gagnvart þjóðinni.